29.10.1946
Sameinað þing: 5. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

12. mál, fjárlög 1947

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þótt fjárlagafrv. fyrir árið 1947 sé hér til 1. umr., mun ég ekki fara út í að ræða það í einstökum atriðum, heldur mun ég nota þetta tækifæri til að minnast á nokkur grundvallaratriði í sambandi við okkar þjóðarbúskap — nokkur höfuðskilyrði þess, að hægt sé á hverjum tíma að setja fjárl., sem með sæmilegum hætti svari til helztu þarfa þjóðarinnar og heilbrigðra óska hennar.

Eins og kunnugt er, byggist þjóðarbúskapur okkar Íslendinga hlutfallslega meira, en nokkurrar annarrar sjálfstæðrar þjóðar, á matvælaframleiðslu fyrir erlendan markað. Hin auðugu fiskimið umhverfis okkar vogskorna eyland eru sú gullkista, sem við fyrst og fremst sækjum í þann gjaldeyri, sem gerir okkur kleift að halda uppi sjálfstæðum menningarbúskap þjóðar, sem telur íbúa aðeins á móts við íbúa fremur smárrar borgar hinna stærri þjóða heimsins. — Það veltur því á mestu fyrir fjárhagslega afkomu þessarar þjóðar, með hversu mikilli atorku og um leið hagsýni þessi höfuðauðlind okkar er nýtt — jafnframt því sem lífskjör fólksins fara eftir því, hvernig notaður er sá arður, sem þessi auðsuppspretta gefur.

Hvað þarf einkum að gera til þess, að þessi gullkista okkar komi þjóðinni að gagni? Í fyrsta lagi þarf að tryggja þjóðinni nægilega mikil og fljótvirk tæki til að afla þess hráefnis, sem hér er um að ræða — þ.e.a.s. útvega henni nægilegt af vönduðum, traustum og stórvirkum fiskiskipum ásamt tilheyrandi veiðarfærum. — Jafnframt þarf að gera þær ráðstafanir, sem unnt er, til þess að tryggja Íslendingum einum afnotaréttinn af hinum auðugu fiskimiðum umhverfis landið okkar, annars vegar með útfærslu landhelgislinunnar, hins vegar með samningum við meginlandsþjóðirnar um almenna verkaskiptingu í framleiðsluháttum, þar sem viðurkennd væru forréttindi Íslendinga til fiskveiða umhverfis land sitt og til framleiðslu þessarar tegundar matvæla handa meginlandsþjóðunum, gegn því að kaupa af þeim í staðinn það, sem við þörfnumst af þeirra framleiðsluvörum.

Í öðru lagi þarf að gera umsvifamiklar ráðstafanir til þess, að Íslendingar komist sem allra fyrst af því nýlendustigi þjóðarbúskaparins að flytja hráefni sín út að mestu leyti óunnin. Við getum stóraukið, sennilega margfaldað verðmæti útflutnings okkar með því að koma upp alls konar fiskvinnslustöðvum í aðalverstöðvum landsins — svo sem hraðfrystihúsum og fiskimjölsverksmiðjum, umfram það sem þegar er, niðursuðuverksmiðjum, fleiri síldarbræðsluverksmiðjum, lýsishersluverksmiðjum o.s.frv.

Í þriðja lagi þarf að gera allt, sem unnt er, til að tryggja okkur örugga framtíðarmarkaði fyrir þessar aðalútflutningsvörur okkar — og í því sambandi leggja höfuðáherzlu á að losa okkur, svo sem unnt er, undan einokunarvaldi alþjóðlegra auðhringa, sem spenna helgreipum um hráefnaframleiðslu nýlenduþjóðanna, fyrst og fremst, og annarra þjóða, sem á einn eða annan hátt eru fjárhagslega háðar heimalöndum þeirra — og skammta úr hnefa verðið á nauðsynlegustu hráefnum, sem þeir síðan láta vinna úr verðháar vörur — og raka þannig saman of fjár.

Og í fjórða lagi þarf að koma á heilbrigðri og víðsýnni yfirstjórn allra fjármála þjóðarinnar — fjármálastjórn, sem á hverjum tíma ráðstafi hinum sívaxandi gjaldeyri og annarri fjárveitu þjóðarinnar fyrst og fremst með tilliti til þarfa og eðlilegrar útþenslu undirstöðuatvinnuveganna, sem þá munu geta verið þess umkomnir að fullnægja gjaldeyrisþörf þjóðarinnar út á við og að veita inn á við fólkinu, sem að þeim starfar, viðunandi lífskjör og vaxandi þægindi — og ríkistækinu sjálfu fjármagn til þeirrar starfsemi á sviði stjórnar-, félags-, athafna- og menningarmála, sem siðmenntuðu þjóðfélagi heyrir til.

Ég vil nú minnast nánar á nokkur atriði þeirra málaflokka, sem ég þegar hef nefnt.

Þegar ríkisstj. sú, sem nú hefur sagt af sér og gegnir aðeins stjórnarstörfum til bráðabirgða, var mynduð fyrir tveimur árum síðan, setti hún sér að frumkvæði Sósfl. stefnuskrá, sem síðan hefur gengið undir nafninu: Nýsköpunarstefnuskráin, þ.e.a.s. stefnuskrá, sem — auk ákvæðanna um að vernda sjálfstæði og öryggi landsins — hafði það höfuðmarkmið að tryggja, að allir landsmenn gætu haft atvinnu við sem arðbærastan atvinnurekstur, og var, svo sem kunnugt er, ákveðið að verja vissum hluta erlendra innstæðna þjóðarinnar beinlínis til slíkra framkvæmda.

Fyrir Sósfl. vakti, að með þessari stefnuskrá og því samstarfi flokkanna. sem á henni var byggt, væri af fullri alvöru snúið inn á þá braut í atvinnu- og viðskiptalífi þjóðarinnar. sem ég áðan nefndi, að væri höfuðgrundvöllur fyrir fjárhagslegu öryggi þjóðarinnar og góðum lífskjörum fólksins.

Nú hefur þetta samstarf rofnað — í fyrsta lagi vegna þess, að samstarfsflokkar Sósfl. í ríkisstj. brugðust loforðunum um að standa vörð um sjálfstæði og öryggi landsins, þegar þeir nú nýverið með samningi við erlent stórveldi afsöluðu íslenzkum landsréttindum í hendur þess — og enn fremur vegna þess, að mjög alvarlegar vanefndir hafa orðið hjá þessum flokkum á þýðingarmiklum sviðum nýsköpunarinnar.

Þó að samstarfið þannig hafi rofnað — af gildum ástæðum — er það síður en svo ætlun Sósfl. að hverfa frá baráttu sinni fyrir framkvæmd nýsköpunarstefnunnar — eins og andstæðingar hans reyna nú mjög að bera honum á brýn. Þvert á móti mun hann gera allt, sem í hans valdi stendur, til að knýja á um, að áfram verði haldið þeirri nýsköpun, sem hafin er fyrir hans forgöngu. og að bætt verði úr á þeim sviðum, þar sem enn hefur brostið á með framkvæmdir og jafnvel þröskuldar verið reistir til hindrunar nýsköpuninni.

Við skulum nú athuga nokkuð, hvernig uppfyllt hafa verið þau fjögur meginatriði, sem ég í upphafi máls míns taldi, að hefðu grundvallarþýðingu fyrir fjárhagslega afkomu þjóðarinnar.

Um fyrsta atriðið — útvegun tækja til að sækja aflann í greipar Ægis — má segja, að stigið hafi verið risaskref í tíð fráfarandi ríkisstj. Þar er framkvæmd nýsköpunarinnar ótvíræðust og augljósust. Eins og menn vita, hafa verið keyptir rúmlega 30 nýtízku togarar til landsins, sem nú fara að koma hingað hver af öðrum. Einnig hafa verið keypt til landsins og smíðuð innanlands fjöldi af öðrum vönduðum fiskiskipum. svo að veiðifloti okkar verður innan skamms helmingi stærri að smálestatölu, en hann var fyrir tveimur árum. Afkastageta hans vex að vísu enn meira, vegna þess að nýju skipin eru miklu betri og fullkomnari, en þau gömlu.

Í þessu sambandi er einnig vert að benda á atriði, sem hefur mikla þjóðhagslega þýðingu, en það er dreifing atvinnutækjanna. Fram til þessa hefur togaraútgerðin verið rekin svo að segja eingöngu frá Reykjavík og Hafnarfirði. — Nú hefur nýbyggingarráð úthlutað rúmum þriðjungi hinna nýju togara til annarra staða víðs vegar um landið — og gerðar hafa verið fyrir frumkvæði Sósfl. sérstakar ráðstafanir til að auðvelda þessum stöðum kaup á togurunum. Verður þannig með þessum ráðstöfunum þegar á næsta ári stofnað til togaraútgerðar á átta stöðum utan Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Mun þetta ekki aðeins hafa mikla þýðingu fyrir atvinnulíf og afkomu viðkomandi staða, heldur einnig verða áhrifaríkasta ráðið til að hefta straum fólksflutninganna til Reykjavíkur með þeim margvíslegu erfiðleikum, sem af honum leiðir.

Ég held, að segja megi, að þegar við höfum fengið þau skip, sem búið er að kaupa og verið er að byggja í landinu, þá stöndum við í bili allsæmilega að vígi, hvað snertir skipakost til aflafanganna. þó að auðvitað megi ekki láta staðar numið í því efni, fremur en öðrum.

En það er fleira, sem þarna kemur til greina, en sjálf fiskiskipin. Vaxandi veiðiflota verða að fylgja vaxandi verstöðvar með auknum hafnarmannvirkjum og bættum afgreiðsluskilyrðum. — En einmitt í þessu efni hefur mjög brostið á um framkvæmd nýsköpunarinnar, en þessi þáttur hennar hefur verið í höndum Alþfl.

Í fyrravetur voru sett l. um byggingu landshafnar í Njarðvíkum og Keflavík. Framkvæmd þess verks er enn ekki hafin þrátt fyrir mjög brýna nauðsyn.

Það, sem liggur til grundvallar hugmyndinni um byggingu landshafna við fengsæl fiskimið, er, að slíkar hafnir geti tekið á móti fiskiskipum víðs vegar af landinu til viðlegu yfir vertíðina. — Nú hef ég heyrt, að þrátt fyrir það að ekki eru nærri allir hinir nýju fiskibátar tilbúnir, þá séu um 30 bátar, sem hvergi geti fengið viðlegupláss hér við Faxaflóa á vertíðinni í vetur, nema sérstakar ráðstafanir verði gerðar.

Það er því augljóst, að taka verður rösklegar til höndunum í framkvæmd hafnarmálanna, en gert hefur verið.

Þá er það annað atriðið — varðandi vinnslu þess fisks, sem við veiðum.

Það hefur komið í ljós, að meðal fiskimanna er mikill skilningur fyrir hendi á nauðsyn og þýðingu þess atriðis í þjóðarbúskapnum. Útvegsmenn og aðrir, sem hér eiga hlut að máli, hafa tekið fegins hendi þeim fyrirheitum nýsköpunarstefnuskrárinnar, sem lutu að því að veita ríflega aðstoð til þess að koma upp fiskvinnslustöðvum — og ýmsir hófust þegar handa um framkvæmdir í trausti þess, að þeir fengju raunverulega þá fjárhagslegu aðstoð. sem lofað var. Á annað hundrað umsóknir munu þegar hafa borizt til nýbyggingarráðs um meðmæli þess til lánveitinga úr stofnlánadeildinni til þess að koma upp ýmiss konar fiskvinnslustöðvum og öðrum fyrirtækjum í sambandi við fiskveiðarnar. Nýbyggingarráð mun þegar hafa mælt með lánveitingum til yfir þrjátíu fiskvinnslustöðva, einkum hraðfrystihúsa, sem flest eru í byggingu, og mundi hafa verið hægt að ljúka byggingu þeirra fyrir næstu vertíð og þar með auka afkastagetu hraðfrystihúsanna um allt að helming — miðað við afköst þeirra undanfarið. En hér hefur verið illa staðið við loforðin um fjárhagslega aðstoð. Flest þessi fyrirtæki hafa ekki fengið þau lán, sem þeim ber samkvæmt lögunum um stofnlánadeild sjávarútvegsins, og er bygging þeirra að meira eða minna leyti stöðvuð af þeim sökum, og þar með hindruð sú þýðingarmikla afkastaaukning hraðfrystihúsanna, sem annars gat orðið þegar á þessum vetri.

Koma þarna mjög áþreifanlega fram afleiðingar þess óhappaverks á Alþ. í fyrravetur. þegar Sjálfstfl. og Alþfl. með aðstoð stjórnarandstöðunnar — gegn harðvítugri baráttu Sósfl. — breyttu frv. nýbyggingarráðs um, að stofnlánadeildin yrði undir stjórn fiskveiðasjóðs, en Landsbankinn skyldaður til að leggja henni ákveðið fjármagn, — í það að hafa hana sem deild við Landsbankann og setja hana þar með undir stjórn og yfirráð þeirra manna, sem höfðu lýst sig andstæða nýsköpunarstefnuskránni og töldu hana óvit eitt.

Landsbankinn afsakar sig í þessu efni með því, að ekki hafi verið keypt skuldabréf stofnlánadeildarinnar — og er það að vísu rétt, að peningamennirnir hafa þarna, eins og oft endranær, sýnt lítinn þegnskap, eða nauman skilning á nauðsyn uppbyggingarinnar. En í sjálfu sér er það Landsbankanum engin afsökun, því að það, að peningamennirnir kaupa ekki af honum 4% skuldabréf stofnlánadeildarinnar, er aðeins vegna þeirra tækifæra, sem bankinn og önnur fjármála- og viðskiptamálastjórn landsins veitir þeim til að græða meira á peningum sínum með öðrum hætti. — Og væri bankinn dálítið hlynntari nýsköpunarstefnunni, en hann er, væri honum innan handar að ráðstafa sparifé því, sem hann varðveitir, í lán á vegum stofnlánadeildarinnar, engu síður en til annarrar lánastarfsemi.

En sú reynsla, sem þegar er fengin í þessu efni, sannar, að hann barðist gegn þessari skipan málsins. Og eigi að vera nokkur von til þess, að nægilegur hraði fáist í byggingu fiskiðjuvera í landinu, verður nú að gera nýjar ráðstafanir til að veita nægilegt fjármagn til þeirra framkvæmda.

Þá kem ég að þriðja atriðinu, möguleikunum til þess að afla öruggra markaða fyrir útfluttar sjávarafurðir okkar.

Þegar ríkisstj. var mynduð fyrir tveimur árum, var því mjög haldið á loft af stjórnarandstæðingunum, að auk þess sem nýsköpunarstefnan væri bláber heimska, væri hún með öllu óframkvæmanleg, vegna þess að strax og styrjöldinni lyki, yrði ómögulegt að fá markaðsverð fyrir útfluttar sjávarafurðir okkar, sem svaraði til framleiðslukostnaðarins, vegna þess hversu dýrtíð væri hér mikil. Og þegar brezka matvælaráðuneytið, sem keypt hafði af okkur fiskinn á stríðsárunum, um sama leyti sagði upp fiskkaupasamningnum, sáu þessir herrar ekkert annað en óhjákvæmilegt hrun framundan. — Þessar hrakspár um markaðshrun hafa þó allar orðið sér til skammar. Allt til þessa hefur tekizt að fá það verð fyrir fiskafurðir okkar, sem fyllilega hefur svarað til framleiðslukostnaðar þrátt fyrir vaxandi dýrtíð hér. Meira að segja hefur verið hægt að borga hráefnið miklu hærra verði en áður, eins og t.d. síldina s.l. sumar. Og þó hefur ekki verið haldið á þessum afurðasölumálum af hendi Íslendinga eins vel og hægt hefði verið. Það er sem sé ekki af neinni gustuk, sem sjávarafurðir okkar eru keyptar — hvorki af hendi Englendinga né annarra — heldur af hinu, að það eru eftirsóttar vörur, sem ýmsar þjóðir vanhagar mjög um.

Síldarlýsið okkar er t.d. mjög eftirsótt vara, sem að vísu mundi verða enn verðmætari, ef við hertum það sjálfir, eins og sjálfsagt er að gera og í ráði er að byrja á innan skamms.

Á stríðsárunum fengu Bretar síldarlýsið, eins og aðrar sjávarafurðir okkar. Brezki feitmetishringurinn — Uni-Lever — gúknaði yfir því og skammtaði okkur verðið úr hnefa — 38£ fyrir tonnið sem var langt fyrir neðan sannvirði og olli því, að verð á fersksíldinni til ísl. sjómanna og útgerðarmanna var miklu lægra, en réttmætt hefði verið.

Í fyrra, þegar stríðinu var lokið og leiðir opnuðust til meginlands Evrópu, kom strax fram hörð samkeppni um feitmetisframleiðslu, þ. á m. síldarlýsið okkar. Sovétríkin vildu gjarnan fá þessa ágætu vöru og buðu miklu hærra verð, en brezki feitmetishringurinn hafði borgað, eða 63 £ fyrir tonnið. Og þó að Uni-Lever hefði áður borgað aðeins 38 £ fyrir tonnið, fannst honum nú borga sig að kaupa það fyrir 63 £, fremur en að missa það. Ef reiknað er með 30 þús. tonna framleiðslu á ári, eins og var árið 1944. nemur þessi verðmunur hvorki meira né minna en ca. 20 millj. króna. Er þetta mjög sláandi dæmi þess, hversu nauðsynlegt okkur er að gera útflutning eftirsóttustu vara okkar óháðan hinum kapítalísku auðhringum, sem keppa eftir að einoka verðmætustu hráefni þjóðanna og arðræna þær þannig á borð við arðránið, sem Íslendingar þekkja bezt frá dögum dönsku einokunarverzlunarinnar hér á landi.

En þó að brezki feitmetishringurinn hefði þannig orðið opinber að því að arðræna okkur, kusu þeir, sem mestu ráða um afurðasölu okkar, að láta hann enn fá mestan hluta af síldarlýsisframleiðslu okkar yfirstandandi ár, fremur en hinn aðilann, sem varð til þess að hækka verðið, og þetta eins fyrir því, þó að Sovétríkin jafnframt keyptu af okkur meginhluta hraðfrysta fisksins — einnig fyrir miklu hærra verð, en Bretar höfðu borgað.

Þetta var réttlætt með því, að ef við létum Breta fá áfram svona mikinn hluta síldarlýsisins, mundu þeir launa okkur með því að halda áfram að kaupa af okkur ísaða fiskinn fyrir gott verð. Ekki þótti þó þurfa að gera um þetta neinn samning. Og nú hefur raunin orðið sú, sem kunnugt er, að ekki þykir nú lengur svara kostnaði að sigla með ísaðan afla sinn til Englands til sölu þar. Og þá byrjar aftur barlómurinn og hrakspárnar. Nú vilja Englendingar ekki kaupa af okkur ísfiskinn fyrir það verð, sem svari framleiðslukostnaði við dýrtíðina hér. Nú er hrunið að koma! Nú verður að fara að lækka kaupið!

Framsókn sér nú hilla undir „sannanir“ fyrir því, að hún hafi haft rétt að mæla, þegar hún taldi nýsköpunina óframkvæmanlega, nema fyrst væri lækkað kaupgjald og verðlag í landinu. — Já, jafnvel „kommarnir“ kváðu nú vera orðnir hræddir og eru sagðir hafa hlaupið úr ríkisstj. til þess að reyna að koma sér undan ábyrgðinni á því hruni, sem nú verði ekki lengur afstýrt.

Bretar eru, sem betur fer, ekki eina þjóðin í heiminum, sem þarf á sjávarafurðum að halda. — Og ég fullyrði, að þrátt fyrir markaðstregðuna í Bretlandi er nú hægt að selja allar okkar sjávarafurðir, ef rétt er á þeim málum haldið, fyrir mjög viðunandi verð.

Rússum virðist hafa líkað vel þær vörur, sem þeir fengu frá okkur á þessu ári. Og þeir eru nú þegar farnir að leita fyrir sér um kaup á sjávarafurðum héðan í stórum stíl og hafa spurzt fyrir um, hversu mikið magn þeir geti fengið og fyrir hvaða verð. Atvmrh. hefur einmitt þessa dagana verið að leita eftir tillögum útvegsmanna og stjórnarnefnda fiskvinnslufyrirtækja um það, fyrir hvaða verð sjávarafurðir okkar skuli boðnar.

Það, sem Rússar leggja mesta áherzlu á að fá, er síldarlýsið. En þeir vilja einnig kaupa saltsíld í stórum stíl. Einnig mikið af hraðfrystum fiski. Sömuleiðis þorskalýsi, saltfisk og söltuð hrogn.

Einnig mundi í sambandi við slíkan sölusamning opnast allmikill markaður fyrir ísaðan fisk á meginlandi Evrópu.

Auk þessara möguleika, sem nú voru nefndir, er hægt að fá markað fyrir útflutningsvörur okkar hjá ýmsum öðrum þjóðum meginlandsins.

Ég leyfi mér þess vegna að ítreka það, að ef við látum þessar þjóðir fá síldarlýsið, sem er okkar eftirsóttasta útflutningsvara, þá mundu þær einnig kaupa af okkur allar aðrar sjávarafurðir, sem við þurfum að selja — og þar með tryggja okkur örugga afsetningu alls þess fiskafla, sem við höfum tök á að draga hér úr djúpum hafsins.

Ef slíkir viðskiptasamningar ekki takast þá er það Íslendingum sjálfum að kenna. Og ef þeir Íslendingar, sem þessum málum ráða til lykta, láta þetta ágæta tækifæri ónotað, þá er það áreiðanlega eitthvað annað, en umhyggja fyrir íslenzku þjóðinni, sem stýrir gerðum þeirra.

En því miður virðast ekki allir ráðamenn þjóðarinnar taka þessu með sérstökum fögnuði. Og máske finnast hér valdamiklir menn, sem meta vináttuna við brezka feitmetishringinn — og hið alþjóðlega auðvald — meira, en hagsmuni íslenzkra atvinnuvega og bætt lífskjör þess fólks, sem á þeim byggir tilveru sína. Íslenzkir útvegsmenn og íslenzk alþýða ætti að fylgjast vel með því, hvort svo reynist.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að þýðing þessa máls er ekki aðeins fólgin í því að selja þessar afurðir í eitt skipti, heldur einnig og miklu meira í því, að með slíkri sölu hefðum við tryggt okkur öruggan framtíðarmarkað fyrir útflutning okkar. Hinar sósíalistísku þjóðir hafa sem sé áætlunarbúskap, þar sem reiknaðar eru út þarfir þjóðarinnar fyrir þetta og hitt, og framleiðsla hennar annars vegar og innflutningur hennar hins vegar er hvort tveggja miðað við að fullnægja þessum þörfum, svo sem kostur er á, á hverjum tíma. Þegar Sovétríkin sækjast eftir að kaupa þessar útflutningsvörur okkar, þá er það liður í viðleitni þeirra til að fullnægja ákveðnum þörfum þjóða sinna — þörfum, sem ekki verður samtímis leitað fullnægingar með öðrum hætti. Og það er engin ástæða til að ætla, ef þessar vörur okkar fullnægja eðlilegum kröfum neytendanna, að frekar verði leitað eftir þeim til annarra en okkar, þegar við einu sinni höfum komið þeim á framfæri.

Þegar við vitum um kreppuna, sem er í uppsiglingu í vestri, þá væri það með öllu ófyrirgefanlegt glappaskot að láta þetta tækifæri til að tryggja okkur örugga afsetningu sívaxandi framleiðslu sjávarafurða ganga okkur úr greipum.

Loks kem ég að fjórða atriðinu — stjórn peningamálanna.

Reynslan hefur sýnt, enda raunar vitað fyrir fram, að stjórn peningamálanna í landinu hefur ekki verið í neinu samræmi við nýsköpunarstefnuna og þess vegna ekki veitt henni þann stuðning. sem vera bar og nauðsynlegur er. Ég hef áður drepið á það, hvernig fjöldi manna og fyrirtækja. sem ráðizt hafa í byggingu hraðfrystihúsa og annarra fiskvinnslustöðva — fyrirtæki. sem okkur eru nú ef til vill nauðsynlegri, en allt annað til þess að efla atvinnulíf í landinu, nýta fiskafla okkar og auka útflutningsverðmæti hans. þ.e.a.s. afla aukins gjaldeyris, hvernig þeir eiga stöðugt undir högg að sækja hjá Landsbankanum um að fá lögmæt stofnlán til fyrirtækja sinna, og fá ýmist ófullnægjandi eða alls ekkert, svo að þessi nauðsynlegu fyrirtæki stöðvast á miðri leið. Hins vegar veitir Landsbankinn verulega af veltufé þjóðarinnar beint og óbeint út í ýmiss konar einstaklingsgróðrabrask og starfsemi, sem í sjálfu sér er að vísu nauðsynleg, eins og t.d. byggingastarfsemin hér í Rvík. en kemur ekki að eðlilegum þjóðfélagslegum notum vegna skipulagsleysis og spákaupmennskunnar, sem ríkir í þeim efnum.

Hér verður að breyta til. Peningastofnanir landsins verða öllu öðru fremur að greiða fyrir því, að í landinu komist upp tæki til að vinna verðmiklar útflutningsvörur úr hráefnum okkar. Með því fyrst og fremst aukum við gjaldeyri okkar og öðlumst þar með getu til annarrar nauðsynlegrar starfsemi í landinu.

Þá verður einnig mjög að átelja það, hvernig miklu af gjaldeyri þjóðarinnar hefur verið eytt í bláberan hégóma og miður nauðsynlega hluti.

Þegar ríkisstj. var mynduð fyrir tveimur árum voru erlendar innstæður okkar 580 millj. króna. Þar af voru 300 millj. settar á „nýbyggingarreikning“. sósfl. vildi að 500 millj. kr. yrðu festar þannig, en Alþfl. kom í veg fyrir það með sínum frægu skilyrðum. Einnig var ákveðið, að árlega skyldi bæta á nýbyggingarreikning 15% af útflutningsverðmætinu. Við þetta ákvæði hefur ekki verið staðið, heldur virðast þessi 15% hafa farið í almenna eyðslu. Enn fremur er talið, að þær 280 millj. kr. af erlendu innstæðunum, sem ekki voru festar á nýbyggingarreikning, séu að mestu upp étnar.

Þegar vitað er, að heildsalarnir hafa fengið þennan gjaldeyri til þess að kaupa fyrir hann m.a. ógrynni af ýmiss konar hégómlegu skrani og lúxusvarningi, sem veitt hefur þeim óhemju gróða og þannig haldið við því ástandi, að kaupsýslan sé gróðavænlegasti atvinnuvegurinn í landinu. sem þess vegna dregur að sér geysifjármagn, sem annars hefði væntanlega tekizt að fá til uppbyggingar framleiðslu atvinnuveganna, þá er þessi ráðstöfun með öllu fordæmanleg og stríðir beinlínis gegn nýsköpunarstefnunni.

Það er Sjálfstfl., sem ber ábyrgð á þessum aðförum. — Og ef hann vill láta fólk trúa því, að honum sé alvara með framkvæmd nýsköpunarinnar, þá verður hann í þessu efni að snúa við blaðinu og vera með í því að gera harðhentar ráðstafanir til að draga fjármagnið úr verzluninni og öðru braski yfir í framleiðslugreinarnar.

Ég hef nú gert nokkra grein fyrir því, hvað ég tel, að helzt þurfi að gera til þess að endurbyggja góðan fjárhag þjóðarinnar — og þar með ríkisins. — Ég skal að lokum draga það saman í eina setningu:

Það þarf að framkvæma nýsköpunina af fullri djörfung og dugnaði án allra undanbragða. Það hefur þegar orðið mjög verulegur árangur af nýsköpunarstarfinu. Fyrsta skilyrðið til stórfelldrar framleiðsluaukningar — tvöföldun fiskiskipaflotans — hefur verið uppfyllt. — Afköst síldarbræðsluverksmiðjanna hafa verið tvöfölduð. — Árangurinn er mestur þar, sem forusta Sósfl. hefur komið til.

Hafnargerðir og önnur aðstaða til afgreiðslu veiðiskipa er gersamlega ófullnægjandi og í engu samræmi við aukningu veiðiflotans.

Þar hefur Alþfl. forustuna.

Mikil viðleitni hefur verið af hálfu einstaklinga og félaga til að koma upp fiskiðjuverum og tækjum til að auka útflutningsverðmæti aflans. — En fjármagnið hefur brugðizt, og á því ber Sjálfstfl. fyrst og fremst ábyrgðina.

Framsfl. hefur til þessa aðeins lagt til barlóminn, en nú hefur hann tækifæri til að leggja hönd á plóginn, ef hann vill.

Það var deilt um það í upphafi, hvort þjóðin væri megnug þess að framkvæma slíka byltingu í atvinnuháttum sínum, sem nýsköpunarstefnuskráin boðaði.

Ef flokkar þeir, sem bundust samtökum um framkvæmd hennar, störfuðu allir af heilum huga, var aðeins eitt, sem hugsanlegt var, að þeir fengju ekki við ráðið — að útvega nægilega góða markaði fyrir framleiðsluna.

Nú í dag höfum við, hvað þetta snertir, alveg sérstaklega gott tækifæri.

Það er krafa Sósfl., að þessu einstaka tækifæri sé ekki sleppt.

Það er krafa Sósfl., að svo fljótt sem unnt er verði gerður samningur við Sovétþjóðirnar og aðrar meginlandsþjóðir um sölu sjávarafurða okkar.

Það er krafa Sósfl., að í vitundinni um þessa markaðsmöguleika verði tafarlaust gerðar ráðstafanir til, að hvert einasta fiskiskip fari á veiðar. Að tafarlaust verði útvegaðir peningar til að fullgera þau hraðfrystihús og fiskvinnslustöðvar, sem nú eru í byggingu, svo að þau geti tekið til starfa á vetrarvertíðinni.

Það er krafa Sósfl., að nýsköpunin verði framkvæmd.

Að því vill flokkurinn vinna, og um það er hann reiðubúinn til samstarfs við hverja þá, sem fáanlegir eru til að gera þær ráðstafanir til framkvæmda nýsköpuninni, sem fengin reynsla sýnir, að nauðsynlegar eru.