13.02.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í D-deild Alþingistíðinda. (5030)

281. mál, landhelgi Íslands

Flm. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. — Það fer að vonum, að þessari till., sem er áhugamál allra þm., þó við tveir höfum orðið til þess að bera hana fram, hafi verið vel tekið. Ég þarf ekki að benda á mörg atriði í þessum umr.

Ég vil segja það út af ummælum hv. þm. Borgf. (PO), að það er vitanlega rétt, að það hefur verið mikið rætt um rýmkun landhelginnar, þó umr. hafi snúizt um friðun Faxaflóa og ekki eins almennt og ætti að vera.

Í annan stað tel ég rétt að taka það fram út af ummælum, sem hér hafa komið fram — og ég sagði í upphafi, — að það kynni að reynast erfitt að fá landhelgina stækkaða úr þrem sjómílum upp í fjórar sjómílur. Ég orðaði það þannig, að það mundi valda meiri erfiðleikum en að fá Faxaflóa friðaðan. En það er sérstakt atriði, sem hér er rætt um, sem sé uppsögnin á samningnum frá 1901. Það er gert ráð fyrir tveggja ára uppsagnarfresti. Ég er því fylgjandi, að rannsakaðar séu allar leiðir í utanríkismálan., og munum við allir að sjálfsögðu vilja, að málið fari þangað og verið rannsakað þar. En eitt vil ég benda á, ........ vegna þess að við höfum viðurkennt, að samningar, sem gerðir voru milli Dana og stjórnar Bretlands, væru áfram í gildi.

Viðkomandi uppsögninni á samningnum vil ég segja þetta: Við verðum að gera okkur ljóst, að þegar við ætlum að sækja þennan rétt, er það vegna almennra umræðna um stækkun landhelginnar og friðun fiskstofnsins, sem ekki var til staðar árið 1901. Þá var auðveldara að sækja þetta mál. Við erum fiskveiðiþjóð, sem á stórkostleg auðæfi, sem brezka þjóðin og fleiri þjóðir líta hýru auga til. Það er vitað, að Bretar geta nú ekki safnað auði frá eins mörgum uppsprettum og áður, og það er ekki neitt launungannál, að þeir munu leggja meiri áherzlu á fiskveiðar en áður. Bretar eru ekki rík þjóð, og fiskveiðisvæði eru ekki mikil í nágrenni við þá. Þar á móti höfum við Íslendingar auðlindir, sem þeir vilja nota, og ef við segjum ekki upp samningnum frá 1901, verðum við að leita fyrir okkur með þær leiðir aðrar, sem hugsanlegt er að fara. Leiðirnar, sem hugsanlegt er að fara, eru: 1) að semja við Englendinga um að breyta samningnum, að semja við þá um, að við fáum rýmkun landhelginnar. 2) að lýsa því yfir, að við rýmkum landhelgina. — Ég geri ráð fyrir, að erfitt verði að sækja þessa samninga við Breta, og sömuleiðis geri ég ráð fyrir, að okkur þyki ekki fært að gefa út yfirlýsingu um landhelgina. Við hljótum því að hafa augun á þriðju leiðinni: Bandalagi hinna sameinuðu þjóða. Ég vil þó ekki fara nánar út í þetta og tek það fram, að ég tel ekki rétt að fara inn á það mál á meðan það er ekki tekið fyrir í n. En ég álít, að á meðan við segjum ekki upp, lokum við a.m.k. einni af þeim leiðum, sem hugsanlegt væri að fara, því ef við förum til Sameinuðu þjóðanna og krefjumst aðstoðar í þessu efni, virðist mér eðlilegt, að þeir segi við okkur: „Þið hafið samninginn frá 1901, og þess vegna er ekki eðlilegt, að málið verði tekið fyrir, þar sem samningnum hefur ekki verið sagt upp: Þess vegna hef ég hugsað málið þannig, að uppsögn sé eðlileg til þess að hafa opna þá möguleika. sem sérstaklega eru fyrir hendi í þessu máli.

Ég skal svo ekki ræða um það — enda ekki til þess búinn á þessu stigi málsins — hvort samningurinn frá 1901 er í samræmi við alþjóðalög og reglur í þessu efni. Ég býst ekki við, að alþjóðalög og reglur í þessu efni séu í algerlega föstum skorðum.

Það er rétt, að Bretar fengu þessum reglum breytt eftir miðja 19. öld, og samningurinn frá 1901 er einn árangurinn af þeim breytingum. Hitt er óhætt að fullyrða, að hvergi eru til reglur um landhelgi, sem er naumari en landhelgi Íslands. Ég tel mig hafa nokkuð áreiðanlegar heimildir fyrir því, m.a. frá Matthíasi Þórðarsyni og fleirum, sem hafa athugað þetta mál, — en hjá Matthíasi er beinlínis tekið fram, að sumar þjóðir, eins og Canada, Bandaríkin og Norðmenn, hafi rýmkað landhelgi sína. Ég man ekki, hvað Lófótfjörðurinn er þreiður, en hann mun vera um 17–20 sjómílur — og hann er varinn, og aðrir firðir í Noregi, sem eru álíka breiðir, eru líka varðir.

Það er ekki hægt að neita því, að við gjöldum þess áreiðanlega mjög, að við sáum ekki sjálfir um samningana 1901. Aðrir hagsmunir komu þar til, og það var þung pressa á Dönum vegna hagsmuna frá þjóð, sem hafði hér hagsmuna að gæta, Englendingum, og í skugga alls þessa eru samningarnir gerðir.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta mál. Ég hygg, að það fari bezt á því, að það fari til utanrmn., þar sem það væri rannsakað gaumgæfilega.