17.02.1947
Neðri deild: 75. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (5034)

281. mál, landhelgi Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Það er í sambandi við og í tilefni af ummælum, sem hér féllu við umr. í Sþ. um landhelgi Íslands, að þá lét hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, svo um mælt, að brezka stjórnin hefði gert það að skilyrði fyrir viðurkenningu íslenzka lýðveldisins 1944, að samningurinn um landhelgi Íslands frá 1901 yrði viðurkenndur af Íslendingum, en sá samningur var, svo sem kunnugt er, nauðungarsamningur, sem dönsk stjórnarvöld gerðu að okkur forspurðum.

Ég hafði ekki heyrt þess getið, að þetta hefði komið fram frá Bretum, að þeir hefðu sett þetta skilyrði, og kom þetta mjög á óvart. Hins vegar lét ég því þá ómótmælt, því að verið gat, að svo hefði verið, þó að mér hefði ekki verið um það kunnugt, en ég gerði þegar ráðstafanir til þess, að það yrði athugað, hvort nokkur gögn væru fyrir þessu í utanrrn. Skrifstofustjórinn þar sagði mér, að svo væri ekki. Það er því eitthvað málum blandað, sem hv. þm. segir í Þjóðviljanum í gær, að hann hafi fengið þar upplýsingar, sem sönnuðu hans mál, að brezka stjórnin hafi farið fram á þess konar staðfestingar af Íslendinga hálfu.

Af þessum ástæðum þykir mér rétt að skýra hér frá því, að því fer svo fjarri, að þetta fái staðizt, að brezka stjórnin hafi sett nokkur skilyrði um viðurkenningu þessa né annarra samninga fyrir því að viðurkenna lýðveldið Ísland, heldur var þessi umleitan bein afleiðing af lýðveldisstofnuninni.

Málinu sést fyrst hreyft í utanrmn. þann 20. okt. 1944, og þá þannig, að fram kom ósk frá brezku stjórninni um, að þessi og fleiri samningar yrðu endurskoðaðir, og var þáverandi utanrrh., Vilhjálmur Þór, þá á fundi, og segir svo um þetta í fundagerðabókinni, með leyfi hæstv. forseta:

„Utanríkisráðherra tilkynnti, að borið hefði á góma milli sendiherra Breta og sín, að með niðurfelling sambandslaganna mætti draga í efa, hvort samningar Íslands við önnur ríki, er gerðir hefðu verið fyrir gildistöku sambandslaganna, væru eigi úr gildi fallnir. Sendiherra Breta hefði lagt til samkvæmt fyrirmælum frá ríkisstj. sinni, að með nótuskiptum yrðu allir samningar, sem um gæti verið að ræða, látnir gilda áfram til bráðabirgða, þar til hægt væri að ganga frá þeim málum endanlega. Til skýringar gat ráðherra þess, að norska ríkisstj. hefði árið 1905 gert slíka bráðabirgðasamninga við Breta. Ráðherra skýrði enn fremur frá því, að það mætti telja æskilegt að hafa alla samningana í gildi áfram, nema ef til vill samninginn frá 1901 um fiskiveiðalandhelgina. Sá samningur væri væntanlega sá eini, sem vafi gæti leikið á um, hvort gott væri að framlengja. Ráðherrann kvaðst hafa viljað hreyfa þessu máli við nefndina, til þess að hún gæti látið í ljós skoðun sína um það, hvort rétt væri að gera slík nótuskipti við Breta eða ef til vill líka við fleiri ríki.“

Síðan verða nokkrar umr. um þetta í utanrmn., sem lýkur með því, að þáverandi utanrrh., Vilhjálmur Þór, sagði, að það skipti engu máli, hvort málið væri afgreitt nú eða eftir 14 daga, en hann hefði þó viljað hreyfa því á þessum fundi, því að það væri kurteisi við þá erlendu þjóð, sem hér væri aðili, að afgreiða málið fljótt. Hann minntist enn á, að athugandi væri að gera slíka samninga við fleiri ríki en Bretland.

Þann 25. okt. fær ríkisstj. svo nótu frá brezka sendiherranum, þar sem farið er fram á endurskoðun samninganna. Nóta þessi var send til hæstaréttardómara og fleiri sérfræðinga til umsagnar.

Málið er svo aftur tekið fyrir í utanrmn. 12. jan. 1945, og voru þá allir ráðh. viðstaddir, en ekki hv. 2. þm. Reykv., og hann var ekki heldur á fyrri fundinum 20. okt. Utanrrh., Ólafur Thors, skýrði frá því, að síðan mál þetta hefði verið til umr. í n., hefði það verið lagt fyrir hæstaréttardómara og fleiri sérfræðinga. Las ráðherrann svo upp uppkast að svari til brezka sendiherrans, og var það samþ. með öllum greiddum atkv. Svo daginn eftir var send nóta til brezka sendiherrans, og var þar staðfest, að Íslendingar væru fúsir að fallast á, að í gildi væru allir þeir samningar, en óski, að þeir yrðu teknir til endurskoðunar, er stríðinu væri lokið, og að þeirri endurskoðun yrði lokið eftir þrjú ár.

Þetta eru aðalatriðin, sem fyrir liggja í málinu. Ég hef átt tal við Vilhjálm Þór um þetta mál, og hann kannast ekki við það, að þetta skilyrði hafi verið sett af Breta hálfu, hvorki um þennan samning né annan, og hitt er víst, að engin gögn eru fyrir hendi í ráðuneytinu, sem sýni það, og fundargerðirnar sýna að mínum dómi, að slíkt skilyrði hefur ekki verið sett af Breta hálfu, því að málið kemur ekki fyrir utanrmn. fyrr en mörgum mánuðum eftir, að búið er að viðurkenna lýðveldið, og þá sem bein afleiðing af þeirri viðurkenningu.

Ég held því, að ekki verið komizt hjá því að telja, að ummæli hv. 2. þm. Reykv. hvíli á misskilningi, en hér er um viðkvæmt utanríkismál að ræða, sem hætt er við, þegar svona er á tekið, að spilli sambúð okkar og þessa stórveldis. Ég taldi því rétt, að það kæmi hér fram, að þessi ummæli eru með öllu úr lausu lofti gripin.