06.02.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (5062)

284. mál, síldarbræðsluverksmiðja í skipi

Flm. (Hermann Guðmundsson):

Herra forseti. Þýðing síldarútvegsins fyrir afkomu landsmanna hefur fyrir löngu verið viðurkennd af alþjóð, og árlega er varið fjárhæðum til þess að tryggja þennan útveg. En síldveiðin er löngum ótrygg, og iðulega hafa ráðstafanir þær, sem gerðar hafa verið, ekki komið að tilætluðum notum. Auðvitað getum við aldrei ráðið við síldargöngurnar, en hagnýting síldar þeirrar, sem veiðist, væri æskileg betri. Að vísu hafa margar og góðar síldarverksmiðjur verið reistar víða um landið, og hafa þær vitanlega gert geysimikið gagn, eins og allir vita. Þá eru síldargöngurnar misjafnar og á misjöfnum stöðum í kringum landið. Afleiðingin er sú, að sums staðar á landinu vantar síldarverksmiðjur, en á öðrum stöðum gera þær ekki fullt gagn. Það er skoðun okkar flm. og reyndar margra annarra, að skip með síldarverksmiðju mundi bæta mjög úr þessu. Slíka fljótandi síldarverksmiðju mætti sennilega starfrækja á vorin fyrir Austurlandi, þegar þar er síldveiði, fyrir Norðurlandi á sumrin og í Faxaflóa á haustin og veturna, þegar síldveiði er slík sem verið hefur á þessum vetri. T.d. — má taka, að ef slíkt skip hefði verið til, hefði verið hægt að hagnýta mikið af þeirri síld, sem farið hefur forgörðum s.l. tvær síldarvertíðir. Núna undanfarið hefur verið mikil veiði hér í Hvalfirði og Kollafirði, en illmögulegt hefur reynzt að flytja veiðina norður til vinnslu. Hér syðra er að vísu ein síldarverksmiðja, þ.e.a.s. síldarverksmiðjan á Akranesi, en hún kemur að litlu gagni, þegar um mikla veiði er að ræða. Í Berufirði eystra hefur verið mikil síld mörg undanfarin ár. og mundi það gerbreyta aðstöðu til þess að h:agnýta þessa síld, ef hægt væri að koma henni í bræðslu jafnhliða því, sem hún væri hagnýtt á þennan hátt. Þess vegna hefur mönnum dottið í hug, hvort ekki mætti samrýma þörf allra landsfjórðunganna fyrir síldarverksmiðju með því að byggja skip með verksmiðju, sem gæti svo verið þar, sem þörfin á aðstoð þess er mest í hvert skipti.

Ég vil drepa á eitt atriði, sem ekki er getið um í grg., sem sagt, hvort ekki mundi þarflegt að eiga eitt stórt skip, eða fleiri, um það bil 10 þús. tonn, sem fylgdi síldveiðaflotanum eftir og tæki aflann af skipunum, a.m.k. af þeim smæstu, til þess að flýta fyrir. Í þessu sambandi má benda á, að Norðmenn hafa séð sér hag í að hafa slík skip hér við land. Ég hef þó heyrt, að þetta hafi ekki komið að jafngóðum notum og til var ætlazt, en þar með er ekki sagt, að ekki gæti orðið mikið gagn að því hér við land, þar eð vegalengdirnar eru þar miklu minni en t.d. milli Noregs og Íslands. Ég ætla þá ekki að fara fleiri orðum um þetta að sinni, en vænti þess, að hm. taki till. vel og veiti henni stuðning.