04.03.1947
Sameinað þing: 34. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (5087)

287. mál, grafhellur á leiði þjóðskálda

Flm. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. Ég vil mælast til þess, að forseti gefi mér gott hljóð, því að ég er kvefaður og á því bágt með að láta til mín heyra.

Ég þarf nú ekki að fjölyrða mikið um þetta mál, en ég benti á eftir fjörkippinn árið 1944, að rétt væri að binda þá nútímann að nokkru leyti við fortíðina. Þó að þetta sé nú ekki stórmál, þá hefur okkur farnazt illa til þessa gagnvart verndun leifa stórmenna okkar, utan ef til vill hvað snertir leiði Jóns Sigurðssonar forseta og Sigurðar Breiðfjörðs skálds, en þeim hefur verið reistur minnisvarði í gamla kirkjugarðinum í höfuðstaðnum. Er mér nú helzt í huga, að Jónas Hallgrímsson lá lítils virtur í erlendu landi í áratugi og leiði Bjarna Thorarensens er vart þekkjanlegt, svo að vafi leikur á, hvar það er í kirkjugarðinum, en úr því mætti skera með því að grafa niður á kistuna, því að málmkrossi mun hafa verið komið fyrir á kistulokinu. Leiði Bólu-Hjálmars mun vera týnt, enda þótt það væri merkt um nokkurra ára bil. Leiði Gríms Thomsens er vart þekkjanlegt, og leiði Kristjáns Jónssonar að Hofi í Vopnafirði sést varla. Fyrir leiði Guðmundar Kambans hefur ekkert verið gert enn þá og heldur ekki skáldkonunnar Unnar Benediktsdóttur Bjarklind né Guðmundar Friðjónssonar.

Að lokum vil ég minna á, að landar okkar í Ameríku reistu Stephan G. Stephanssyni skáldi veglegan minnisvarða, en létu það þó ekki nægja, heldur komu leiði hans undir vernd ríkisins og vernda þannig minningu hans um óborna tíð. Þar er þó að vísu sá siður hafður, að ríkið verndar margt, en ég álít, að til þess að framkvæma þessa þáltill. þurfi um 20 þús. kr. til að gera legsteinana, og fornminjaverði yrði svo falið að hafa eftirlit með leiðunum.

Ég legg svo til, að málinu verði v ísað til hv. fjvn.