21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

12. mál, fjárlög 1947

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Það eru ekki svo margir hv. þm. hér á bekkjunum, að það taki því að tala langt mál fyrir brtt., og ég verð að segja það, að ég undrast að sjá engan hæstv. ráðh. viðstaddan við þessa fjárlagaumr. Ég hef engan hæstv. ráðh. séð hér í dag, og þykir mér það einkennilegt, a.m.k. hélt ég, að hæstv. fjmrh. teldi ástæðu til að vera viðstaddur. En án þess að fara frekar út í þetta, þá hef ég nokkrar brtt., sem ég þarf að mæla með.

Á þskj. 560 eru þrjár brtt. frá okkur þm. Skagf. Í fyrsta lagi merkt rómverskum 22 á þskj. 560, um hafnarmannvirki á Hofsósi, að í stað „50.000“ komi: 75.000. Það var fyrir nokkrum árum, að byrjun var gerð að hafnarmannvirkjum á Hofsósi, og er þar nú vísir að fiskihöfn og tiltölulega auðvelt að gera þar góða höfn. Þó að búið sé að byrja vel, þá er svo komið nú, að ekki hvíla á þessu nema 40–50 þús. kr., og væri því hægt að hefjast handa á ný við verkið, ef ríkið vildi styrkja. Vitamálaskrifstofan gerir ráð fyrir, að lengja þurfi hafnargarðinn allt að 60 metrum, til að aðstaða yrði þar góð fyrir strandferðabáta og fiskiskip. Að fullgera það, en það mundi kosta 600–700 þús. kr., er meira en hægt er að gera í einu átaki, en áhugi er mikill fyrir þessum framkvæmdum, og við þm. Skagf. förum aðeins fram á hækkun um 25 þús. kr., svo að hægt sé að lengja hafnargarðinn. Ég er ekki í vafa um, að því fé er vel varið, sem varið er til að bæta hafnarmannvirki á Hofsósi. Þar eru góð skilyrði til að lífvænlegt þorp rísi upp með 600–1.000 íbúum, en nú eru þar um 300 manns. Skilyrði til ræktunar eru þar einnig ágæt, og skal ég ekki fara fleiri orðum um það, en víst er, að því fé, sem ríkissjóður veitir til hafnarmannvirkja á Hofsósi. er vel varið. Byrjun á þessu verki fyrir styrjöldina má telast ágæt og öruggt að sú viðbót, sem farið er fram á, kemur að þeim notum, sem vonir standa til.

Þá er 2. brtt. okkar þm. Skagf. undir rómv. 22 á sama þskj., þar sem við leggjum til, að til hafnarmannvirkja á Sauðárkróki verði veittar 300 þús. kr. í stað 200 þús. kr., sem fjvn. leggur til. Ég skal geta þess, að það hafa orðið nokkru meiri áföll á Sauðarkróki, en á Hofsósi. Á árunum fyrir styrjöldina voru gerð þar hafnarmannvirki, sem kostuðu um milljón kr. Afstaðan þar er nokkuð erfið, þar sem þorpið er fyrir opnu hafi, en erfiðast er það, að þegar búið er að gera hafnargarðinn, þá kemur í ljós, að möl berst inn í höfnina, og er svo komið nú, að engin skip geta lagzt við hafnargarðinn, og verður að flytja vörur í land á smábátum. En nú telja sérfræðingar, að gera megi þessi mannvirki fær um að sinna sínu hlutverki, en til þess þarf allmiklar endurbætur. Það, sem vitamálaskrifstofan leggur til, er að lengja hafnargarðinn um 40–50 m til þess að beina sandstraumnum frá, og mundi það kosta 240 þús. kr., eftir því, sem áætlað er. Í öðru lagi þarf að moka upp sandi úr höfninni. Nú er von á uppmokstursskipi bráðlega, og við gerum okkur vonir um, að það verði látið moka fyrst á Sauðárkróki. Vitamálaskrifstofan áætlar, að kostnaður muni verða um 200 þús. kr. til að gera höfnina aftur skipgenga venjulegum skipum. Þriðji liðurinn í hafnargerðinni er að koma upp síldarplani. og er kostnaðaráætlun við það 360 þús. kr. Það er því um að ræða 860 þús. kr., sem áætlað er, að þyrfti til að tryggja höfnina fyrir sandi, moka upp þeim sandi, sem fyrir er, og í þriðja lagi að gera síldarplan til að auknir söltunarmöguleikar verði á Sauðárkróki. 200 þús. kr. er svo lítil upphæð, að við þm. Skagf. sjáum okkur neydda til að bera fram till. um, að framlagið verði hækkað í 300 þús. kr., og auk þess gerðum við okkur vonir um að fá styrk til viðbótar úr hafnarbótasjóði. Sauðárkrókur hefur farið varhluta af hinni margumtöluðu nýsköpun á síðari árum, og ég tei, að ríkið og Alþ. geti ekki látið hjá líða að verja nokkurri upphæð til þess að hægt sé að athuga skip á Sauðárkróki, þar sem varið er tugum milljóna til að skapa nýja borg hinum megin við skagann, og er ekki nema gott til þess að vita, en þá verður líka að leggja nokkurt fé í að bæta skilyrði á Sauðárkróki. er telur um 1.000 íbúa og hefur lítil atvinnuskilyrði, eins og nú er. Kröfur okkar þm. Skagf. eru svo hófsamlegar, að ég skil ekki annað en að Alþ. samþykki þetta, ef hv. þm. vilja á annað borð athuga, hve mikil nauðsyn þetta er. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, en tel einsýnt, að Alþ. geti fallizt á að hækka framlag til hafnarmannvirkja á Sauðárkróki úr 200 þús. í 300 þús. kr.

Þá er þriðja till. á þskj. 560, rómv. 24, og er hún um lendingarbætur í Haganesvík. að til þeirra sé varið 25 þús. kr. Haganesvík er mikilsverður viðkomustaður frá Siglufirði. og þó að vegur opnist yfir fjallið, þá er hann opinn aðeins 3–4 mán. úr árinu og er því nauðsynlegt að gera lendingarbætur í Haganesvik, svo að þar geti verið örugg viðkoma. Kröfur um þetta eru ákveðnari og meiri, einmitt eftir að vegurinn er opnaður, því að Fljótamenn auka þá mjólkurflutninga, og er því nauðsyn fyrir öruggan veg til Siglufjarðar. Það er ekki ákveðið enn af vitamálaskrifstofunni, hvernig lendingarbótum skuli hagað. En fyrir styrjöldina voru veittar nokkrar þús. kr. á fjárl. Þær kr. hafa aldrei verið notaðar, en eru nú geymdar. Vitamálaskrifstofan hefur nú lofað, að tekin skuli ákvörðun um, hvernig lendingarbótum í Haganesvík verði bezt hagað, og eru rannsóknir á því langt komnar. Þess vegna höfum við þm. Skagf. leyft okkur að leggja til, að nýr liður komi í fjárl. um 25 þús. kr. framlag til lendingarbóta í Haganesvik. Það er svo ekki ástæða til að fara fleiri orðum um þessar til., sem við þm. Skagf. höfum flutt við fjárl. að þessu sinni. Við höfum ekki flutt fleiri till.. þótt nauðsyn kynni að hafa verið, en í þessum tilfellum er brýn þörf, að eitthvað sé að gert, sérstaklega á Sauðárkróki, Hofsósi og einnig að hafizt verði handa um lendingarbætur í Haganesvík.

Ég mun ekki ræða till. hv. þm. mjög mikið, en þó eru tvær eða þrjár till., sem mig langar til að segja nokkur orð um. Í fyrsta lagi vil ég geta þess. að hv. fjvn. hefur lagt til, að lækkun verði á framlagi til skógræktar. Ég tel ekki rétt að lækka framlag til skógræktar frá því, sem gert er ráð fyrir í fjárl., þó að þar sé veitt hærri upphæð en áður hefur verið. Skógræktin er þess eðlis, að með henni er leitazt við að græða landið að nýju og friða skóglendið, og ég veit, að skógræktinni veitir ekki af því fé, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., að veitt verði. Ég mæli því með, að brtt á þskj. 560. XXXVI. tölulið, frá fjórum hv. þm., um hækkun til skógræktar, verði samþ., og skal ég ekki fara fleiri orðum um það.

Þá vil ég aðeins minnast á eitt atriði. sem um getur í nál. fjvn., og það er um framlög til endurbyggingarstyrkja. Það er eins og hv. þm. vita. að nú eru veittir endurbyggingarstyrkir samkv. l. frá 1937. Hin nýju l. um landnám og nýbyggðir gera ráð fyrir, að þetta falli niður, en í stað þess verði fáanleg hagkvæm lán, og er gert ráð fyrir, að á miðju þessu ári verði búið að ganga frá þessu. Nú telur nýbýlastjórn, að þurfi 600 þús. kr. til þessarar starfsemi, en í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að veittar séu 300 þús. kr. Það, sem ég vildi taka fram, áður en fjvn. gerir till. við 3. umr., er, að þessar 600 þús. kr., sem farið er fram á, að veittar séu, er sú lægsta upphæð, sem hægt er að veita. Ég legg því áherzlu á, að upp verði tekið 600 þús. kr. framlag til þessara hluta. Að láta þetta ógert er aðeins að svíkja sjálfan sig, því að ríkið þarf að greiða þetta hvort eð er. Nýbýlastjórn hefur þótt þessi áætlun of lág, en hún mun ekki gera hærri kröfur, en leggur áherzlu á, að 600 þús. kr. séu veittar nú, til að hægt sé að ljúka þessum málum á miðju þessu ári. eins og l. mæla fyrir.

Þá er eitt atriði, sem ég sé ástæðu til að nefna. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að veittar séu 40 þús. kr. til búreikningaskrifstofu. Hv. fjvn. hefur lagt til, að þessi upphæð verði nú lækkuð niður í 20.000 kr. Ég sé ástæðu til að minnast á þetta, því að ef þetta verður samþ., er það sama og láta þessa starfsemi niður falla. Þetta hefur verið unnið fyrir lítið fé. Guðmundur Jónsson hefur fengið mjög lítið fyrir að sinna þessu, en gert var ráð fyrir, að með þessu ári fengi hann aðstoðarmann til að sinna þessari starfsemi, og ef styrkur þessi er færður niður í 20 þúsund. nægir það á engan hátt til þess, að hann geti fengið sér aðstoðarmann í þessu skyni. Ég hef veitt því athygli, að á þskj. 545 hefur verið borin fram till. um að veita til búreikningaskrifstofu 59.250 kr. Ég er ekki í neinum vafa um það, að það veitir ekki af því fé til að koma þessari starfsemi á góðan grundvöll, en það er hækkun frá því, sem er í frv. En ég tel það alveg fráleitt, ef Alþ. færi að lækka þá upphæð, sem er 40.000 kr. Þetta getur nú ekki munað ríkissjóðinn neinu á þessum fjárl.. en mundi lama þessa starfsemi, svo að ég teldi, að ef þetta verður samþ., verði hún sama og engin. Ég mun greiða atkv. með till. á þskj. 545, en mundi sætta mig við þá upphæð, sem er í fjárlagafrv.

Ég hef nú minnzt á þær brtt., sem ég flyt hér með öðrum og þau önnur atriði, sem mér hefur þótt ástæða til að minnast á. Ég er að vísu meðflm. að einni till. enn, en hv. 1. flm. hefur mælt svo ákveðið fyrir henni, að þar hef ég engu við að bæta og læt máli mínu lokið.