21.03.1947
Sameinað þing: 37. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

12. mál, fjárlög 1947

Skúli Guðmundsson:

Ég vil minnast á brtt., sem ég á hér á þskj. 560. Það er 15. brtt. á því þskj. Ég legg þar til, að veitt verði fé til þess að brúa tvær ár í Vestur-Húnavatnssýslu. Þarna er ekki um stórar fjárhæðir að ræða. Það er í fyrsta lagi til brúargerðar á Austurá í Miðfirði kr. 27.000. Fyrir liggur hér áskorun frá 35 bændum í Miðfirði um, að fé verði veitt á fjárl. til þessarar brúargerðar. Þessi á, Austurá, er oft ill yfirferðar og mikil þörf á því, að hún fáist brúuð. Væntanleg brú á Austurá er á sýsluvegi, og því er hér lagt til, að ríkið borgi 3/4 kostnaðar við brúargerðina, en gert er ráð fyrir af verkfræðingum, að brúin kosti kr. 35.000. Brúarstæðið er sérstaklega gott, og er ekki ætlazt til, að brúin kosti meira en þetta, þó að þarna sé um töluvert vatnsfall að ræða.

Ég hafði gert mér vonir um, að hv. fjvn. sæi sér fært að taka þetta inn í sínar till., en það hefur ekki orðið.

Þá legg ég til í öðru lagi, að 35 þús. kr. verði veittar til brúar á Þórsá á Vatnsnesi. Sú brú er í brúal., og tel ég hentugt, að hún yrði brúuð nú, m.a. vegna þess, að á s.l. ári var brúuð önnur á, á Vatnsnesi, Tjarnará, og mætti þá nota timbrið, sem notað var þar til uppsláttar, einmitt við þessa brúargerð, enda þarf mjög fljótlega að brúa þessa á, til þess að hægt sé að halda áfram Vesturhópsvegi, sem liggur norður Vatnsnesið, norður í Hindisvík.

Fjvn. hefur lagt til í brtt. 542, að veitt verði samtals 21/2 millj. kr. til brúargerða. Ég tel ekki ósanngjarnt að óska þess, að 1–2% af þessari fjárhæð verði varið til brúargerða í mínu kjördæmi, og vænti ég, að á það verði fallizt.

Ég hef veitt því athygli, að á till. n. er lagt til að brúa ár, sem ekki eru á brúal. Ég vil benda á 10. lið, sem er Lambadalsá á Skógarströnd. Sú á er ekki á brúal., en þetta á ef til vill að vera Langadalsá. Á 13. lið er Skaftá undan Heiði. Hún er heldur ekki á brúal. Sömuleiðis hef ég ekki séð Haukadalsá, Kleifá í Dalasýslu eða Bakkadalsá í Arnarfirði. sem lagt er til, að brúaðar verði. Við þetta er ekkert að athuga, því að það getur verið jafnréttlætt að leggja til, að brúaðar séu ár, sem ekki eru á brúal., ef þær eru t.d. á sýsluvegum, en þá á ríkissjóður ekki að leggja fram nema nokkurn hluta kostnaðar, og vildi ég gera fyrirspurn um það til n., hvort þessar ár eru á sýsluvegum og hvort þessar upphæðir, sem lagt er til, að veittar verði, er aðeins sá hluti, sem ríkissjóði ber að greiða l. samkvæmt. Þetta vildi ég gjarna fá upplýst. Og ef það er þannig, vildi ég heldur, að sagt væri, hve mikill hluti þetta er af heildarkostnaðinum, eins og ég hef lagt til við brúna á Austurá.

Ég sé ekki frekari ástæðu til að tala um þessar till. mínar og mun ekki að svo stöddu gera fjárlagafrv. eða aðrar till. að umræðuefni.