14.11.1946
Neðri deild: 17. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í D-deild Alþingistíðinda. (5238)

316. mál, framleiðslutæki þjóðarinnar

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Það eru aðeins fáein orð út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að skýrslur þessar mundu verða byggðar að mestu leyti á skattaframtölum. En ég held þó, að þær hljóti að verða byggðar að verulegu leyti á öðrum gögnum en skattaframtölum, þ.e.a.s. byggðar á þeim gögnum, sem fyrir liggja um tekjur þjóðarinnar af framleiðslu til útflutnings. Það er auðvelt að draga saman nokkurn veginn ábyggilegar skýrslur um vöruútflutning frá landinu, og eru að sjálfsögðu til upplýsingar um útflutninginn annars staðar en í skattaframtölum. Ég tel þess vegna víst, að þessar skýrslur verði að verulegu leyti byggðar á öðrum gögnum en skattaframtölum, þó að gripið verði til þeirra að nokkru leyti við þessar skýrslugerðir.