22.03.1947
Sameinað þing: 38. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

12. mál, fjárlög 1947

Helgi Jónasson:

Herra forseti. Ég bjóst ekki við, að röðin kæmi svona snemma að mér, og lofa ég að lengja ekki þessar umr. mikið úr þessu.

Það var auðheyrt á hv. frsm. fjvn., að það er orðið miklu lægra á honum risið en í gær, þegar hann hélt framsöguræðu sína. Það var auðheyrt, að hann var farinn að íhuga það nánar, að þau orð, sem hann viðhafði um þetta glæsilega útlit í fjármálunum. hafi ekki fundið þann hljómgrunn hjá hv. þm., að það hefði verið hyggilegt af honum að tala eins og hann gerði, enda megum við vel við una, að hann er nú farinn að sjá að sér í þessum efnum, því að það er skylda frsm. fjvn., að hann hafi yfirsýn um það, hvernig við stöndum. Hann talaði enn um það, hve mikinn stórhug fyrrv. ríkisstj. hefði sýnt með því, að því er hann sagði, að eyða öllum þeim tekjum, sem í ríkissjóðinn hafa komið á undanförnum árum. Jú, það var mikið rétt. Henni tókst að eyða öllum þeim stóru upphæðum — og miklu meira. Og það er það, sem við verðum að horfast í augu við, að við eigum enga varasjóði til þess að eyða, heldur verðum við að lifa af því, sem við öflum frá ári til árs. Varasjóðirnir, sem til voru, eru uppétnir, og má því búast við, að stórhugurinn fari eitthvað að minnka hjá þessum þm. og ýmsum öðrum. Og ég vil vara þm. við því að taka trúanleg ummæli hv. frsm. hér í gærdag, vara við því, að útlitið er ekki eins gott og hann vill vera láta. Ég vænti þess því, að hv. þm. hugsi sig vel um, þegar að atkvgr. kemur, og gæti hófs í að greiða atkv. með ýmsum till., sem hér hafa komið fram og miða til mikillar hækkunar frá till. n.

Hv. frsm. sagði, að við ættum mikil verðmæti í frystihúsunum kringum land. Við eigum þar mikil verðmæti, en því miður vitum við ekki ennþá, hve miklu þau verðmæti nema. Vonandi verður það há upphæð, sem við fáum þarna, en enn sem komið er getum við ekki byggt á því, þar sem allt er í óvissu um það, hve mikið við fáum fyrir þennan afla, sem við eigum hér í geymslu, en líka nógar holur til að taka við því fé, sem fyrir hann fæst.

Þá hélt hv. frsm. því fram, að það sæti illa á mér að tala um, að fjárhagsástandið væri ekki í lagi, því að ég hefði stuðlað að því með atkv. mínu á fyrra þingi, að hér hefði orðið ríkisgjaldþrot, hefði ég fengið að ráða. Átti hann við það, að ég hafði ásamt fleirum á fyrra þingi fyrir jólin í vetur greitt atkv. með því að veita bátaútveginum ríkisábyrgð og flutti þá jafnframt till. um það, að sams konar ábyrgð yrði tekin á öllum landbúnaðarafurðum. Ég fæ nú ekki skilið, hvernig þetta má verða. Við vitum, að landbúnaðarútflutningurinn er að verðmæti lítill hluti af því, sem við fáum fyrir sjávarafurðirnar. Ég býst við, að s.l. ár hafi þessi útflutningur numið 10–12 millj. kr., og þótt ríkisstj. hefði orðið að bæta einhverju við það verð, sem nú er á landbúnaðarafurðum, þá hefði það ekki getað orkað neinu gjaldþroti. Hitt er alvarlegast, þegar við verðum að taka ábyrgð á aðalútflutningsafurðum okkar, sjávarútveginum.

Þá hélt hv. frsm. því fram, að fjvn. hefði ekki verið í nauðvörn við afgreiðslu fjárl. Má vera, að við höfum ekki verið það, en satt að segja höfum við verið í algerðum vandræðum og erum það ennþá með að láta enda fjárl. ná saman. Risið á okkur er ekki hærra en það, að nú skilum við þessu nál. með 30 millj. króna greiðsluhalla, þótt tekjurnar hafi að mínu áliti hækkað allt of mikið frá því, sem fært er, þegar miðað er við reynslu undanfarinna ára. Hann hélt því fram, að núverandi stjórn hefði hvatt til að hækka útgjöldin. Það er rétt, en af hverju? Hún var neydd til þess, til þess að reyna að halda í horfinu og framkvæma þau l., sem Alþ. hefur sett s.l. tvö ár. Og þótt hækkað hafi verið t.d. framlag til skólabygginga, er það hvergi nærri nóg til þess að halda í horfinu, og verður þó að reyna að sjá til þess, að þær byggingar, sem þegar er byrjað á, stöðvist ekki. Undanfarin ár hefur oft verið hægt fyrir viðkomandi héruð að fá lán til framkvæmda út á væntanlegan styrk ríkissjóðs, en það er nú ekki hægt lengur, og verður ríkið þó að reyna að standa við loforð sin, að þetta geti haldið áfram, og þess vegna hafa þessi útgjöld hækkað frá því, sem var á frv.

Þá hélt frsm. því fram, að aðalárásarefni mitt á frv. ríkisstj. hefði verið, hvernig komið var með rekstrarhallann hjá landssímanum. Ég gat um Landssímann. tók hann sem dæmi um stofnun, sem alltaf hafði sýnt stóran rekstrarhagnað á undanförnum árum. En nú er svo komið með hann, eins og svo margar aðrar stofnanir, að hann verður ekki rekinn nema með halla. Það er það sama, sem liggur til grundvallar því og að svo var komið með útveg okkar fyrir áramótin, að engin fleyta vildi fara á flot nema fá ríkisábyrgð fyrir rekstrarhalla. Hv. þm. þótti undarlegt, að ég skyldi geta stutt núv. samgmrh., sem hefði stjórnað þessum málum áður, og spurði, hvort hann mundi hafa batnað við það að ég fylgdi honum, en þetta er ekki hans sök. Ég ætla ekki að fara að réttlæta hann hér, en vil benda frsm. á það, sem hann veit um, að gefin var út reglugerð, ekki af samgmrn., heldur af öllum ráðuneytum, sem segir bezt, hvernig komið er fjárhag Landssímans. Þetta veit form. fjvn., og ætti hann að taka það til athugunar.

Þá sagði hv. frsm., að fyrrv. fjmrh. hefði haft margs konar till. á prjónunum í dýrtíðarmálunum, sem aldrei hefðu fengið nægan byr hjá Alþ. Hverjar eru þær till.? Hann hélt því fram, að hann hefði vikið úr ráðherrastólnum vegna þessara till., af því að þær hafi ekki fengið nógu mikið fylgi. Hvar eru þessar till.? Ég hef a.m.k. ekki orðið var við þær. Hann hefur oft lýst yfir því, að stefnan, sem hann fylgdi, hafi verið ómöguleg. En ég man ekki eftir, að hann kæmi með nein ráð til þess að fá því breytt. Nei, ég held allir fjvnm. geti verið á einu máli um það, að gæta beri allrar varúðar með afkomu ríkissjóðs, og finn ég ástæðu til að vara mjög við því, að þær till., sem hér liggja fyrir, verði samþ.