29.04.1947
Sameinað þing: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (633)

12. mál, fjárlög 1947

Því tjáir ekki að leyna, að verðlag hér innanlands er nú orðið svo hátt, að miklum vandkvæðum er bundið að selja vörur landsmanna með eðlilegum hætti á erlendum markaði. Ég tel skyldu mína að skýra þjóðinni frá því, að verzlunarsamningar við aðrar þjóðir hafa gengið mun verr en vonir stóðu til. Mun ég að gefnu tilefni frá hv. Brynjólfi Bjarnasyni víkja nánar að þessum málum síðar í kvöld. Nú þegar vil ég aðeins geta þess, að örðugleikinn hefur alls staðar verið sá sami:

Hærra verðlag á íslenzkum vörum en sambærilegum vörum frá öðrum þjóðum.

Þessi hætta er ekki heldur ný. Menn hafa lengi vitað, að hún var þá og þegar yfirvofandi.

Sem betur fer, tókst fyrrv. stjórn undir forystu Ólafs Thors að verja verulegum hluta stríðsgróðans til nýsköpunar. Þess vegna stöndum vér nú um atvinnutæki betur að vígi, en nokkru sinni áður. Vegna þessara ráðstafana fyrrv. stjórnar getur Ísland nú átt glæstari framtíð, en nokkru sinni fyrr. ef vér kunnum með að fara. En þótt fyrrv. stjórn ynni með þessu ómetanlegt happaverk, þá sá hún þó ekki við öllu. Hún náði aldrei taumhaldi á dýrtíðaróhemjunni, enda var hún þá ekki orðin eins hættuleg og nú, því að atvinnutækin verða gagnslaus, ef verðbólgan gerir ómögulegt að selja afurðirnar, sem með þeim er aflað.

Hin öra eyðsla gjaldeyrisins undanfarið og sú þurrð á lánsfjárgetu bankanna, sem gerði vart við sig þegar um mitt s.l. ár, er hvort tveggja að verulegu leyti bein afleiðing verðbólgunnar.

Þá þegar var því skráð á vegginn, að snúast yrði til varnar gegn vágestinum. Núverandi stjórn er ekki að búa til kreppu eins og Sósfl. segir. Þvert á móti. Hún er mynduð til að berjast gegn þeirri kreppu, sem Sósfl. sá, að var í aðsigi, en vildi ekki leggja til raunhæfrar baráttu við.

Sósfl. fékkst til að vera í ríkisstj. á meðan fjármunir voru fyrir hendi til að kaupa ný atvinnutæki, en hljópst frá ábyrgðinni, þegar sýnt var, að verðbólgan og afleiðingar hennar mundu verða helzta viðfangsefnið í íslenzkum stjórnmálum nú um hríð. — Sósfl. hefur mikið talað um verðbólguna fyrr og síðar. En hann hefur aldrei fengizt til að gera neitt, sem orðið gat til raunverulegrar lækningar. Á meðan hann átti sæti í ríkisstj. átti hann að vísu þátt í að borga vísitöluna niður. Nú, þegar hann er kominn úr stjórninni, þá fordæmir hann hið sama, er hann áður studdi. Slík eru heilindin. En niðurgreiðslurnar eru engin varanleg lækning, hvort heldur núverandi stjórn eða fyrrverandi stjórn standa að þeim.

Þetta var öðrum flokkum en Sósfl. í fyrrv. stjórn fyllilega ljóst. Þeir skildu, að sjálf nýsköpunin var aðeins upphaf þess, sem gera þurfti. Þeir töldu að vísu ástæðulaust að hefja harmagrát yfir of háu verðlagi, á meðan afurðir landsmanna seldust erlendis með skaplegu móti. En þeim kom aldrei í hug, að hægt yrði að umflýja afleiðingarnar, þegar verðlagið í raun og veru reyndist of hátt og horfði til stöðvunar atvinnuveganna.

Þeirri staðreynd vildi bæði Sjálfstfl. og Alþfl. láta taka eins og menn, þegar á hólminn kæmi. En það var þá, sem hv. Sósfl. lagði niður rófuna og flúði af hólmi. Hinir flokkarnir vildu að vísu eiga þátt i, hvernig stríðsgróðanum væri eytt, og réðu, að mestum hluta hans var varið skynsamlega til undirbúnings framtíðinni. Hv. Sósfl. vill aðeins vera með í því að eyða. Þegar möguleikinn til þess var í bili búinn vegna þess, hve þrengjast var farið um reiðufé, þá var áhugi hv. Sósfl. til þess að vera í stjórninni á þrotum. Þá sagði hann sig úr leik með yfirskinsástæðum.

Hitt játa ég, að núverandi stjórn hefur enn ekki fundið framtíðarráðið í þessu. Mér finnst heldur ekki von, að hún finni á þrem mánuðum þau ráð, sem hvorki almenningur, Alþingi né ríkisstj. hafa fundið á s.l. sjö árum.

Á þessu stigi hlýtur aðalviðfangsefnið að vera það, að vekja þjóðina til vitundar um þá hættu, sem er á ferðum, og reyna að efla þau samtök, sem vænlegust eru til lækningar þessum og öðrum vanda með þjóðinni.

Eins og skugga verðbólgunnar leggur nú yfir fjármálalíf þjóðarinnar, þá hefur skuggi sundurlyndisins um langa hríð hvílt eins og mara á stjórnmálum landsins. Alþingi reyndist þess ómegnugt 1942 að mynda þingræðisstjórn. Þá var utanþingsstjórnin sett. Þegar þingið loksins síðari hluta árs 1944 sá að sér og myndaði stjórn fyrir forystu Ólafs Thors, vonuðum vér flestir, sem þá áttum sæti á Alþ., að slík ófremd ætti ekki eftir að henda oss á ný, að Alþ. reyndist ómáttugt að gegna þeirri helztu skyldu sinni að sjá landinu fyrir lögmætri stjórn. En á s.l. vetri virtist sækja í sama horfið. Ef ekki var að gert, blasti við sundurlyndi og úrræðaleysi í einu og öllu. Ef ómögulegt reynist að mynda þingræðisstjórn á Íslandi á hverjum tveggja ára fresti, þá er þingræðinu áreiðanlega hætt. Völdum og virðingu þeirrar stofnunar, sem mestum ljóma hefur varpað yfir Ísland og Íslendinga, er búinn vís voði með slíku áframhaldi.

Í húfi er þó jafnvel ennþá meira. Enn eru mörg veður í lofti og ekki tryggt, hvort Íslendingum tekst að halda sjálfstæðu lýðveldi í landi sínu. Sjálfstæði svo lítillar þjóðar í jafnörðugu landi er fyrirbrigði, sem gengur kraftaverki næst, ef heppnast. Ég hef ætíð verið þeirrar skoðunar, að þetta kraftaverk yrðum vér að gera og íslenzku þjóðinni væri unnt að gera það, ef hún hefði samhug og vilja til að gegna þessu helgasta verkefni sínu. En ennþá er lýðveldi vort ekki annað en veikburða tilraun, sem á eftir að standa af sér storma tímans. Þrátt fyrir þá næðinga, sem nú leika í stjórnmálum heimsins, hefur tekizt að halda þannig á málum Íslands út á við, að lýðveldið stendur styrkara þar, en í fyrstu. Ísland hefur unnið sér álit og virðingu fyrir hófsama og skynsamlega framkomu í utanríkismálum þann stutta tíma, sem það hefur átt þar hlut að máli, þótt lítill sé. En því síður megum vér sjálfir verða niðhöggvar vors eigin lýðveldis.

En á hvern veg hefði fremur verið nagað undan frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar, en ef Alþ. hefði nú enn á ný gefizt upp við að sjá landinu fyrir lögmætri stjórn? Sannir unnendur lýðræðisins gera sér þess grein, að stjórn verður að vera í landinu, stjórn sem styðst við meiri hluta Alþ. og gerir Alþ. þar með starfhæft.

Einmitt í þessu sambandi vil ég segja við þá sjálfstæðismenn. sem eru óánægðir yfir, að upp var tekið samstarf við Framsfl.: Það var búið að reyna aðra möguleika til stjórnarmyndunar. Þeir fóru allir út um þúfur. Í þrjá mánuði hafði Sósfl. tekizt að hindra, að þingræðisstjórn yrði mynduð. Valið var þess vegna um það, hvort menn vildu þá þingræðisstjórn, sem hægt var að mynda, eða enga stjórn og þann glundroða og upplausn, sem er tvífari stjórnleysisins. Slíkt val var vissulega ekki vandasamt.

Ég hef aldrei farið dult með það, að ég hefði heldur kosið, að Sjálfstfl. hefði áfram farið með forystu í málum þessarar þjóðar undir forystu Ólafs Thors, fyrrv. forsrh., og ég vildi svo mikið til vinna, að ég mundi hafa sætt mig við, þótt hv., Sósfl. yrði einnig ásamt öðrum flokkum þátttakandi í slíkri stjórn, og var mér þó fyrir löngu ljóst, hvílíkur vandræðagripur sá flokkur er. En það kom ekki til. Þann flokk skorti þjóðhollustu til nýtra starfa, þegar menn uggði, að móti tæki að blása. Ég hef ekki heldur farið dult með það, að ég hefði haft sum atriði í stefnuskrá þessarar stjórnar með öðrum hætti, hefði ég einn ráðið, og sama veg mundi orðið hafa, ef flokkur minn hefði einn mátt mælast við. En úr því að ómögulegt reyndist, eins og sakir stóðu, að mynda stjórn undir forystu Sjálfstfl., varð að taka þann kost, sem hinum var næstbeztur.

Stefna þessarar stjórnar er og í öllum höfuðatriðum hin sama og orðið hefði, ef Sjálfstfl. hefði myndað stjórn á ný.

Nýsköpuninni verður haldið áfram og allra ráða leitað til að bjarga henni frá þeim voða, sem henni er búinn, ef ekki verður að gert.

Aukin menning, blómlegt atvinnulíf, heill og sjálfstæði íslenzku þjóðarinnar eru þau markmið, sem Sjálfstfl. keppir að með þátttöku sinni í núverandi ríkisstj.