19.12.1947
Efri deild: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

102. mál, almannatryggingar

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég vil leyfa mér fyrst og fremst að þakka heilbr.- og félmn. fyrir það, hve rösklega hún hefur afgr. þetta mál, eftir að það kom til d. Í annan stað vil ég að gefnu tilefni í ræðu hv. frsm. lýsa yfir því, að því er snertir endurskoðun heildarlöggjafarinnar, að ég mun fyrir mitt leyti greiða fyrir því, eftir því sem kostur verður á, að sú endurskoðun verði framkvæmd sem allra fyrst. Annað og meira er ekki hægt að segja um það, því að ég veit ekki, hve tímafrek sú endurskoðun yrði, þegar þar að kæmi.

Varðandi fyrirspurn sama hv. þm. út af 6. lið frv. skal ég lýsa yfir því, að iðgjöld þau, sem þar um ræðir, verða ekki innheimt með hærra vísitöluálagi en nauðsyn ber til og ekki yfir 310.

Vil ég svo vænta þess, að þessu máli geti orðið lokið hér sem allra fyrst.