10.12.1947
Neðri deild: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (1471)

45. mál, búfjárrækt

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta mál mikið. Ég sé, að hv. n. hefur lagt í þetta mál allmikla vinnu, og þá sjálfsagt fyrst og fremst hv. 2. þm. Skagf. (JS). En ég vil segja, að þar sem það er heiður okkar íslenzku bænda að hafa viðhaldið okkar móðurmáli, þá ætti Alþ. að endurskoða þetta frv. með tilliti til þess að hafa það á góðu máli. En það er nú síður en að svo sé. Ég veit, að oft brestur á það í lagasmíðum frá hæstv. Alþ., að íslenzku máli sé eins mikill sómi sýndur og skyldi. En hér í þessu frv. virðist mér svo mikið bresta á, að málfærið sé gott, að ég held, að hér ætti að hverfa að því ráði um þetta frv. að fá málfróðan mann til þess að fara í gegnum frv. í heild og lagfæra það. Vil ég skjóta þessu til hv. landbn.

En ég get ekki látið hjá líða að gera að umtalsefni eina orðalagsbreyt., sem n. vill koma fram í frv. Henni virðist vera illa við gamla orðið graðhestur og hefur lagt til, að alls staðar komi í staðinn fyrir það orð orðið stóðhestur. Ég hygg, að miðað við fornaldarmál þýði þetta hvort tveggja hið sama. En í daglegu máli þýðir það ekki nú það sama. Hér er talað um, að ótækt sé að láta stóðhesta ganga lausa. A.m.k. hygg ég, að í flestum sveitum landsins sé með orðinu stóðhestur átt við einstakan hest, sem gengur laus í fjalli eða á afréttum, og gildi þá einu, hvort kynið er, og ef um karlkynið er að ræða hvort það er graðhestur eða vanaður hestur. Ég held, að þessi breyt., sem n. leggur til á frv., sé hæpin. Og úr því að ég legg til, að gagngerð endurskoðun verði látin fram fara á þessu frv. að því er málið snertir, þá hygg ég, að það ætti að athuga þetta líka. Því að hér hygg ég, að orðið stóðhestur sé notað í annarri merkingu en almennast er í nútímamáli.