19.02.1948
Efri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

45. mál, búfjárrækt

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Það er rétt hjá hv. þm. Barð., að ég gleymdi að minnast á kaflann um svínarækt og alifuglarækt. Þarna er settur inn nýr kafli, sem kom frá búnaðarþingi. Þegar Búnaðarfélagið hefur ráðið til sín ráðunaut í svínarækt og alifuglarækt, þá er samkvæmt þessum kafla heimilt að setja á stofn kynbótabú, sem rækti þessar tvær greinar. Það er nú búin að standa í l. í sex ár heimild til að ráða slíkan ráðunaut, en meðan svínin eru eins fá og er — þau eru ekki 1200 — hefur ekki þótt ástæða til að gera það. Öðru þarf ég ekki að svara hv. þm. Barð., en vildi geta þessa, af því að mér láðist að gera það áður.

Ég veit ekki, hvort mér auðnast að gera honum skiljanlegan þann mismun, sem er á starfi ráðunauts fyrir takmarkað svæði og hins, sem settur er fyrir allt landið. Það er kannske ekki von, að hann skilji þetta, en svona. er þetta alls staðar í heiminum. Það er sitt hvað að marka stefnuna og samræma hana fyrir allt landið og að framkvæma hana í einstökum héruðum. Ég hélt, að ég hefði áðan minnzt á þetta hvað nautgriparæktina snertir. Héraðsráðunaut í sauðfjárrækt ber að aðstoða sauðfjárræktarfélögin, gefa leiðbeiningar um val kynbótaskepna og fóðrun. Hann á að koma á bæina þrisvar, fjórum eða jafnvel sex sinnum á ári. Enginn, sem settur er fyrir allt landið, getur gert þetta. Ég hef farið sjö hringferðir kringum landið, en þó ekki haft tök á þessu, þar sem viðdvöl er svo stutt á hverjum stað venjulega hluti úr degi.

Hitt er rétt, að hér er um störf að ræða í búfjárrækt, sem geta orðið 25. Sýslurnar eru 22, og starfssvæðin geta orðið fleiri. En sé starfssvæðið minna en meðalsýsla, lækkar framlag ríkisins í hlutfalli við það. Hitt er svo annað mál, eins og ég sagði áðan, að ekki er áhugi fyrir því að fá þessa ráðunauta á sumum svæðum, og í öðru lagi eru mennirnir ekki til. En að takmarka l. við þá menn, sem nú eru til, og breyta þeim svo síðar, er hægt er að fá fleiri til starfsins, tel ég óráð. Það er sjálfsagt að hafa heimildina í l., ef áhugi skyldi verða fyrir því að fá þessa ráðunauta. Í kjördæmi hv. þm. Barð. er nú t.d. aðeins áhugi fyrir þessu í einum eða tveimur hreppum. Fyrst þegar hv. þm. Barð. hefur skapað áhuga á búfé í kjördæmi sínu, vilja þeir fá mann. Ef hann er svo duglegur að skapa þennan áhuga í allri sýslunni, og kominn er maður, sem starfinu er vaxinn, þá eru möguleikarnir fyrir. hendi, ef þessi heimild er í l. Ég vil, að þessi möguleiki sé til staðar, þótt af því leiði, að héraðsráðunautarnir verði fleiri og fleiri. Það líður langur tími áður en þeir verða 10, og enn lengri tími áður en þeir verða 20.

Það, sem hv. þm. var að tala um, að hv. þm. Dal. teldi sig koma aftan að búnaðarþingi, er misskilningur. Við teljum þó með lægri tölum; atvikin í landinu hafa gert það rétt. Ég held ég geti sagt, líka fyrir hönd hv. þm. Dal., að við þorum báðir að gera grein fyrir því.