16.03.1948
Efri deild: 79. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

88. mál, fiskveiðar í landhelgi

Frsm. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. Frv. þetta um breyt. á l. frá 1922 um rétt til fiskveiða í landhelgi gengur út á það eitt að hækka refsingar fyrir brot á fiskveiðilöggjöfinni. Hækkanir þessar eru mismiklar eftir tegund brota, en eigi að síður er þarna um verulegar hækkanir að ræða. Þær refsingar, sem mestu máli skipta af þeim, sem í frv. þessu eru ákvæði um, þ.e.a.s. fyrir ólöglegar fiskveiðar eða fiskverkun á íslenzkum höfnum, eru fimmtugfaldaðar að lágmarki. eins og frv. var afgr. frá hv. Nd. Þær hafa verið frá 100 til 5 þús. kr. En hér er gert ráð fyrir, að þær verði að lágmarki 5 þús. kr., en hámarki 20 þús. kr. — Víðast annars staðar er um heldur minni hækkanir að ræða heldur en í þessu meginatriði löggjafarinnar.

Sjútvn. hefur haft þetta mál til athugunar, og hún gelur vel fallizt á, að ástæða sé til að hækka til muna refsingarákvæði fyrir brot á fiskveiðilöggjöfinni. Ég vil nú ekki segja, að a.m.k. allir nm. hafi þá tröllatrú á því, að hægt sé að fyrirbyggja brot á löggjöfinni með því að hækka refsingar fyrir þau upp úr öllu valdi, sem allur þorri manna virðist hafa nú. Þess er jafnan að gæta, að það er jafnan tvíeggjað að setja refsiákvæði hærra en góðu hófi gegnir, einmitt af því, að torvelt reynist að framfylgja refsingunni, ef refsingin stendur ekki í einhverju sennilegu hlutfalli við brotið, sem um er að ræða. Þetta hefur komið í ljós mjög greinilega m.a. í sambandi við fiskveiðilöggjöfina hjá okkur. Eins og kunnugt er, þá liggja mjög þungar refsingar við því að veiða með botnvörpu í landhelgi, hvort sem það gera innlendir menn eða útlendir. Þar er lágmarkið 10 þús. gullkrónur. Það gekk sæmilega að innheimta þessar sektir, meðan það voru aðeins stór veiðiskip, sem stunduðu þessa veiðiaðferð og gerðu sig brotleg við þessi ákvæði fiskveiðilöggjafarinnar. Það var um það mikið fjármagn að ræða hjá þeim fyrirtækjum, að það þótti fært að innheimta slíkar sektir hjá togurum. Þegar svo aftur á móti mótorbátarnir komu með sínar litlu vörpur og áttu að borga sömu sektir fyrir þessi brot eins og togararnir, þá hefur það farið svo í framkvæmdinni, að þær sektir hafa annaðhvort alls ekki verið eða þá að mjög litlu leyti innheimtar. Ef nú sú skoðun verður almenn, að slíkar sektir verði alls ekki innheimtar, þá er í raun og veru nokkuð sama, hvort höfð eru þessi gífurlega háu sektarákvæði gagnvart brotinu eða þá að það er engin sekt höfð við því, því að sannleikurinn er, að þegar menn ganga út frá því sem vísu, að sekt verði ekki innheimt, þá hættir sektarákvæði að verka sem hindrandi lögbrot. Menn setja það ekki fyrir sig, þó að þeir séu dæmdir, ef þeir vita fyrir fram nokkurn veginn með vissu, að þeir þurfi ekki að taka út refsingu. — Þessi sjónarmið hafa orðið til þess, að sjútvn. hefur þótt ákaflega hæpið að setja lágmarksrefsingu svo háa sem í frv. er gert ráð fyrir, þ.e.a.s. 5 þús. gullkrónur, sem mun vera milli 15 og 20 þús. pappírskrónur, eins og gildi þeirra er nú á móti gulli. Það geta líka verið þannig aðstæður, að brot sem þetta sé mjög afsakanlegt. Segjum t.d., að skip reki inn fyrir takmarkalínu landhelginnar í þoku og menn á því geri sér alls ekki ljóst, að skipið sé í landhelgi, og unnið sé þess vegna að fiskverkun inni í landhelginni. Ég býst við, að það muni þykja mjög erfitt fyrir jafnafsakanlegt brot eins og þetta að innheimta jafnháa sekt og hér er gert ráð fyrir. auk þess sem afli og veiðarfæri á að vera upptækt. — Sjútvn. hefur því orðið sammála um að leggja til, að lágmark sekta fyrir þessi brot verði fært úr 5 þús. kr. niður í eitt þús. kr., þannig að þetta sé tífaldað, en ekki fimmtugfaldað frá því, sem nú er ákveðið í gildandi l. Sjútvn. gerir því till. um, að í stað „5 þús.“ í 1. og 4. efnismálsgr. komi: 1 þús. Með þessari breyt. einni er sjútvn. sammála um að leggja til, að frv. verði samþ.