11.11.1947
Efri deild: 17. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1694)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Eiríkur Einarsson:

Mér heyrðist eftir ræðu hv. þm. Dal., að um nokkurn misskilning sé að ræða, er hann segir, að brtt. mín sé til þess að ala á úlfúð, og að ég vilji stofna til ófriðar. Ef hann hefur skilið till. rétt, held ég, að þetta séu óþörf orð. Þótt brtt. mín væri samþ., stendur samt óbreyttur sá skiptigrundvöllur, sem frv. gerir ráð fyrir. Satt að segja kom það flatt upp á mig, að hann skyldi líta þessum augum á þetta, að ég væri samkomulagsbrjótur. Ég vil endurtaka það í áheyrn hæstv. landbrh., að ég vil í engu hagga hér aðalatriðum. Búnaðarþing er óeðlilegur aðili að annast þetta, en skiptigrundvöllurinn stendur óbreyttur, þótt varzlan sé í höndum Búnaðarfélags Íslands. Málflutningur hv. þm. Dal. sýnir vel, hve smáskítlegir menn geta verið í hugsunarhætti. En svona smáskítlegheitum eigum við þm. að reyna að venja okkur af. Ég sagði áðan, að ég vildi ekki gera þetta að neinu herkjumáli, enda játa ég mig samþykkan öllu því, sem mestu máli skiptir.