15.03.1948
Neðri deild: 73. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Sigurður Guðnason:

Herra forseti. Ég tel rétt. að þetta frv. fari ekki svo í gegnum hv. þd.. að ég segi ekki um það nokkur orð, þar sem ég er annar í minni hl. landbn. ásamt hv. þm. A-Húnv. Þetta mál hefur orðið eins konar fylgifé þingsins síðan það kom hér fyrst fram, en það var, eins og tekið var fram af hv. frsm. minni hl., nokkurs konar afleiðing af orlofslögunum. Það er athyglisvert með orlofsl., að áður en þau voru sett, var orlofið orðið að föstum samningi milli verkamanna og atvinnurekenda, en þegar þetta mál kom fram, fannst fulltrúum einnar stéttar, bændanna, að þeir væru eitthvað settir hjá, en hins vegar voru menn alls ekki á einu máli um, til hvers féð ætti að nota. Ég hef áður bent á, að það er hættuleg leið, að gjöld í einhverjum félagsskap skuli vera lögboðin. Ég hafði þá reynslu, að ég vissi, að það var betra að vera búinn að ákveða, hvað gera skyldi með félagsgjöldin áður en þau væru lögfest. En um það hefur verið sífelldur skoðanamunur og ýmist orðið ofan á. Fyrst áttu gjöldin að renna til Búnaðarfélags Íslands, síðan til stéttarsambandsins, og 1946 var svo ákveðið, að þau rynnu til búnaðarsambandanna, en þau skorti fé til ýmis konar uppbyggingar, og virtist þá málið komið í höfn, þannig að bændur sjálfir ættu að fá féð til sinna nota. En nú er borin fram breyting á þessu, og ég verð að segja, að ég skil ekki þessa félagsuppbyggingu. Ég veit ekki betur en búnaðarsamböndin kjósi stéttarsambandsfulltrúana, þannig að stéttarsambandið virðist sambærilegt við Alþýðusambandið, en samböndin við verkalýðsfélögin. Og úr því að Búnaðarfélagið mátti ekki hafa féð, hvers vegna geta þá samböndin nú ekki fengið að skipta því? Og eru þetta ekki allt sömu mennirnir, í búnaðarsamböndunum, stéttarsambandinu og Búnaðarfélagi Íslands? Ég álít ekki heppilegt, að félagsgjöldin séu lögboðin, enda er sú hugmynd ekki runnin frá bændunum sjálfum, heldur er hugmyndin fram komin meðal alþm., að allt skuli vera lögboðið. En þannig verður enginn virkilegur félagsskapur byggður upp. Vegna þess, að þetta er félagslega röng aðferð og nær ekki tilgangi sínum, þá vona ég, að dagskrártill. okkar í minni hl. n. verði samþ., því að það er betra fyrir bændastéttina en að samþykkja það frv., sem hér er á dagskrá.