17.12.1947
Efri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1165 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Landbn. d. hefur orðið sammála um 2 brtt., sem hér liggja fyrir, brtt. á þskj. 184 og 197, en ég vil þó segja það um þá till., sem hér er á þskj. 184, að ég lít svo á, að hún sé ekki nauðsynleg. Ég held, að fyrir þessu verði talinn dómpraksis, að þótt uppboð væri, gilti það sama um forkaupsrétt og um aðra sölu, en n. var sammála um, úr því að gefinn væri út lagabálkur um þetta efni, að hafa svo augljós lagafyrirmæli, að ekki gæti verið vafi á, að forkaupsréttur gilti, þótt jörð væri seld á uppboði.

Um till. á þskj. 197 er einnig vafi á, hvernig dómstólarnir tækju upp þá reglu, þar sem makaskipti væru, en ekki peningasala, þegar fasteign væri seld, en skýr ákvæði eru ekki til um þetta og ekki dómvenja, svo að ég viti til. Því þótti n. rétt einnig að fara í því atriði eins langt og hún taldi fært, en því miður er eftir að komast fyrir það, þegar makaskipti eru, hvort verðið er rétt, og er oft farið kringum lagafyrirmæli í því efni. Eftir þessu lagafyrirmæli tilgreinir seljandi, hversu hátt hann metur hina fram boðnu jörð til peningaverðs, og hafa þá kaupréttareigendur heimild til þess að kaupa hana því verði. En náttúrlega er það, að þegar bæði er skipt jörð og húsum og það metið hærra en eðlilegt er, þá er erfitt að finna ráð til þess að tryggja það, að réttur forkaupsréttarhafa verði ekki fyrir borð borinn. Þetta er þó í áttina að reyna að tryggja rétt hans, og geri ég ekki ráð fyrir andstöðu gegn þessari brtt. Í n. var einnig rætt um að gera fleiri brtt., en n. gat ekki orðið sammála um að fella sig við fleiri en þessar.

Hér liggur fyrir brtt. frá þremur nm., en við tveir, ég og hv. 2. þm. Árn. (EE) gátum ekki fellt okkur við þá aðferð, sem þar er gert ráð fyrir. Við töldum, að það væri orðin gömul erfðavenja, að menn fengju að hafa nokkurn veginn rétt yfir þeim arfi, sem til félli. Við töldum fyrst og fremst rétt, að ætti að fara að breyta þessu atriði, þá yrði það gert með breyt. á erfðal. og að með slíkri breyt. yrði takmarkaður réttur útarfa, yfirleitt að erfðarétturinn næði ekki til eins fjarskyldra og nú er. Þá þyrfti ekki að hafa þetta ákvæði. Hitt töldum við erfitt fyrir menn, að geta ekki boðið forkaupsrétt, en að verða að hlíta því, sem jörðin er boðin þeim til arfs, og vera neyddir til að selja fyrir það verð. Ég held, að þetta sé ekki til bóta, en heldur til erfiðleika og óþæginda fyrir þjóðfélagið, og væri rétt að byrja á þeirri reglu að takmarka rétt útarfa og láta þá hverfa.

Auk þess vona ég, að flm. ráði bót á því, að þetta á aðeins við hreppsn., en ég hygg, að þeir hafi gert það, og sé ekki ástæðu til að tala um það. Ég álit samt, að þessi brtt. sé ekki til bóta, þvert á móti, enda klofnaði n. um hana.