26.01.1948
Efri deild: 48. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Það er nú orðið langt um liðið, síðan þetta frv. var hér til umr. Það var fyrir þinghléið, og var þá 3. umr. frestað, en nokkrir höfðu þá verið búnir að tala í málinu.

Af því, hvað langur tími er liðinn, vil ég sem frsm. frv. fara nokkrum orðum um það. Ég var áður búinn að lýsa því yfir fyrir hönd landbn., að hún er sammála um þær brtt., sem eru á þskj. 184 og 197, en um brtt. á þskj. 196 er dálítið öðru máli að gegna. Þrír af nm., meiri hl., kom fram með þessa brtt. Við í minni hl. höfum litið þannig á, að þessi brtt. ætti ekki beint heima í þessu frv., því að það atriði, sem hér er um að ræða, er á þá leið, að ef fjarskyldir erfi, geti forkaupsréttarhafar gert kröfu til þess að fá sér jarðeignina útlagða með því verði, sem hún er lögð erfingjum til arfs. Í þessu tilfelli er ekki um að ræða kaup eða sölu, en alls staðar annars staðar í frv. er um það að ræða og forkaupsrétt í því tilliti. Hér á aðeins að verða yfirfærsla á eignarréttinum, án þess að það fari fram nokkur athöfn, sem sé kaup eða sala. Ég tel einnig mjög vafasamt, hvort þetta ákvæði stappi ekki nærri því að rekast á stjskr., því að það á að vera þörf fyrir að taka þetta. Þetta er ekki að ganga inn í kaup, heldur að taka eignarnámi, og þá þarf að vera þörf fyrir það og komi fullt verð fyrir, en í þessu frv. getur verið vafi á því, hvort þörf er fyrir þessar aðgerðir og hvort fullt verð komi fyrir. Ég skal ekki fullyrða, hvort árekstur yrði af þessu, en vil vara hv. d. við slíkum árekstri, ef svo væri.

Aftur er önnur leið, sem liggur opin fyrir. Ég álit, að eins og sakir standa og eins og ættarböndin voru, þar sem fjórmenningar eða — eins og það var eftir eldri l. — fimmmenningar voru skyldir til framfærslu, sé nú orðin sú breyt. á, að það sé ástæða til þess að fara að gera þá breyt. líka að láta erfðaréttinn ekki ná lengra en til afa og ömmu, en nú nær hann til langa-langafa og ömmu og þeirra niðja. Ég tel rétt að breyta erfðatilsk. frá 1850. Ef henni yrði breytt, þyrfti aldrei að koma til þess arna, sem rætt er um í brtt. Þetta vildi ég taka fram. Ég er ekkert hrifinn af því, að útarfar svo fjarri að skyldleika taki við eignum frá arfleifanda, og að því leyti er ég meðmæltur þessari brtt., en hitt er það, að ég tel aðra leið til þess að fá þessa breyt. fram miklu eðlilegri en þá að fara að neyða hana inn í l., sem ekki eiga við um það atriði.

Ég vildi óska þess, að flm. vildu taka aftur þessa till., og ég skyldi ekki hafa á móti því að ganga til móts við þá um að takmarka erfðaréttinn eins og ég drap á og ég tel réttara og heppilegra.