23.03.1948
Sameinað þing: 61. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

129. mál, fjárlög 1948

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 6. þm. Reykv., sem talaði hér áðan. mætti kalla litla tannhjólið. Það eina, sem hann hafði að segja til svara, var þetta, að miklir erfiðleikar væru þar, sem Eysteinn Jónsson væri. Hef ég varla heyrt þennan hv. þm. aumari í málflutningi sínum en nú. Ég vil aðeins segja það, að ég vorkenni þessum hv. þm. Ég vorkenni öllum, sem flæktir eru í einhverju neti. Ég veit, að hann hefur sagt hér marga hluti vegna þess, að hann er þvingaður til þess að tala móti sannfæringu sinni. Hann stendur í þeirri meiningu, að hann sé í hinum innsta hring kommúnistaflokksins en fær þó ekki að vita það, sem raunverulega skiptir máli.

Hv. 1. þm. Reykv., Pétur Magnússon, talaði nokkra stund, aðallega til að fræða okkur nokkuð um verk fyrrv. stj. Vildi hann gefa í skyn, að ekkert væri misráðið í ráðstöfunum hennar. Taldi hann, að þessum eina milljarði og 500 milljónum króna á þremur árum hefði verið ráðstafað fyrir nauðsynjavörur. Hann veit. að þetta getur ekki staðizt. Hitt er annað mál, að ekki var tómur óþarfi fyrir þetta keyptur. Og það hefur ekki verið gagnrýnt, þó að nauðsynlegir hlutir hafi verið keyptir sem undirstaða framleiðslunnar. Þá vildi hv. þm. ekki gera mikið úr því, að nú væri við erfiðleika að etja. En hann er sjálfur bankastjóri Landsbankans og veit, hvernig ástandið er með yfirfærslur. Við vonum, að úr megi rætast. En það er hart, að þessi hv. þm. skuli leyfa sér að halda fram, að það hafi verið fluttar inn tómar nauðsynjavörur fyrir þessar 500 milljónir á ári í þrjú ár, alls eitt þúsund milljónir og 500 betur. Það er létt verk að færa þær tölur mjög langt niður, annars vil ég bæta við, að ég tek undir það, sem komið hefur fram um þessi efni í sumum málgögnum þess flokks. sem þessi hv. þm. telur sig til, þar á meðal það, sem kom í Morgunbl. í sumar, að það mál þyrfti að ræðast vel og vandlega, hvort það megi kaupa tækin svona ört inn. Síðan segir þar orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„En skýrt dæmi þessa kemur nú t.d. fram í því, að nýsköpun atvinnuveganna hefur verið sett í verulega hættu með því að hrúga inn tækjum án þess að sjá um, að fé sé til þess að gera þau fullkomlega úr garði eða reka þau, og án annarrar fyrirhyggju, svo sem um mannafla, sölumöguleika o.s.frv.“ Og 20. ágúst í sumar stóð þetta í blaðinu: „Allt fjárhagslíf þjóðarinnar var orðið svo sjúkt, að góð síldveiði nú gat ekki veitt því varanlega lækningu heldur aðeins frestað um sinn yfirvofandi vandræðum. En á sama veg og góð síldveiði gat frestað þeim vandræðum, er allir heilskyggnir menn sáu að yfir hlutu að dynja fyrr en síðar, þá hlýtur aflabresturinn að verða til að auka vandræðin og gera óumflýjanlegt, að þau brjótist út nú þegar. Að undanförnu hafa Íslendingar átt við mikla efnahagslega velgengni að búa. Hitt hefur öllum ábyrgum mönnum lengi verið ljóst, að framleiðslukostnaðurinn var orðinn svo mikill, að voði hlaut að stafa af.“ Undir þetta get ég tekið.

Ég læt svo útrætt um þetta hér í kvöld. Góða nótt.