16.12.1947
Neðri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. — Ég þarf ekki að minnast mikið á brtt. minni hl., hv. 2. þm. Reykv., þær eru allar úr frv. því, sem þessi þm. ásamt tveimur flokksbræðrum sínum hefur flutt, og eru þess eðlis, eins og áður hefur verið sagt, að þær eru fluttar eingöngu til þess að sýnast og ekki miðaðar við raunhæfa lausn. Það er lagt til, að dregið verði úr tekjum ríkissjóðs, samtímis því sem honum eru bundnir baggar. Ég get látið mér nægja að vísa til þeirra almennu ummæla, sem fallið hafa við 1. umr. um þetta frv. kommúnistanna, og einnig þess, sem vafizt hefur inn í umr. hér í sambandi við frv. stjórnarinnar.

En það, sem kom mér til að segja nokkur orð, var, að hv. 2. þm. Reykv. ofan á hneyksli sitt og óþinglega framkomu í gær sleppti sér í annað sinn og réðst með ókvæðisorðum og stóryrðum á hæstv. dómsmrh. Ég veit, að þeim þingheimi, sem heyrði í hv. þm. í gær, er hann greip fram í á dólgslegan hátt eins og götustrákur, hefur ofboðið, enda er slíkt framferði fátítt eða óþekkt á Alþ. En í sambandi við það, sem gerði hv. 2. þm. Reykv. svo vondan, er eitt atriði, sem hann nefndi í ræðu sinni og nefndi mig í sambandi við, og það er um, hvort hann fengi sæti í fjárhagsráði. Eins og hv. þm. gat um, orðaði hann það við mig tvisvar um miðjan maí, hvort hann yrði skipaður í fjárhagsráð. Ég sagði, að ekkert væri ákveðið um þetta, en skildi á orðum hans, að ekki væri um það að villast, að hann vildi gjarnan taka við þessu sæti og fá að vita það út til Noregs, ef svo yrði. Ég sagði, að ekkert væri ákveðið, en ef til þess kæmi, mundi hann fá að vita það út til Noregs. Ég verð því að láta þá skoðun í ljós, að hv. 2. þm. Reykv. hafi mjög eindregið óskað eftir að fá þetta starf og að samtal hans við mig hafi undirstrikað þá ósk. Ekki fór hann þó fram á að verða skipaður formaður, en hann sótti það jafnfast við fyrrv. stjórn að verða formaður nýbyggingarráðs, og lá við vábrestum, er það var sjálfstæðismaður og ekki kommúnisti, sem skipaður var formaður. Svo rís hann upp og segir, að hann hafi ekki sælzt eftir stöðum hjá þjóðfélaginu! Ég man líka það, að á sínum tíma var sótt fast eftir, að maður yrði skipaður bankastjóri Landsbankans, og sá maður var hv. 2. þm. Reykv. (EOl: Nú ætti hæstv. forsrh. að athuga, hvað hann er að segja.) Það þýðir ekki að mæla gegn þessu. Þetta var sótt fast af hálfu flokks hans.

Út af því, hvort það sé heppilegt yfirleitt, að allir flokkar þjóðfélagsins án tillits til þess, hvort þeir eru stjórnarflokkar eða ekki, eigi sæti í ráðum og nefndum, sem stjórnin skipar, má með nokkrum sanni segja, að í flestum tilfellum sé það eðlilegt. Þetta fer þó nokkuð eftir því, hvort búast má við því, að stjórnarandstaðan ætli aðeins að spilla vinnubrögðum og láta frá sér bera mál til eigin málgagna málunum til óþurftar. Ef stjórnarandstaðan er slík, þá er engri stjórn láandi, þótt hún skipi ekki fulltrúa frá henni í trúnaðarnefndir og ráð.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að hæstv. dómsmrh. hefði orðið uppvís að ósannindum í sambandi við afurðasölumálin. Mér er ókunnugt um þetta. Ég hef ekki orðið þess var, að hæstv. utanrrh. hafi skýrt þannig frá afurðasölumálunum, að ekki hafi verið nákvæmlega rétt. Ég staðhæfi, að svo sé. Hins vegar hafa kommúnistar verið með fullyrðingar og fleipur um afurðasölumálin, og hv. 2. þm. Reykv. hefur ekki verið þar eftirbátur annarra með slíkt fleipur.

Mér þótti það einkennilegt, að maður úr hópi íslenzkra kommúnista skyldi tala um, að hæstv. utanrrh, væri svo undir pilsfaldi eins stórveldis, að hann hagaði orðum sínum á Alþ. eftir því, sem einhver fulltrúi þessa stórveldis vildi. Mig undraði það, að þetta skyldi koma úr þessari átt. Það er staðreynd, að kommúnistarnir á Íslandi og annars siðaðar halda ætíð hlífiskildi fyrir ákveðnu stórveldi og nefna það hina fullkomnustu fyrirmynd. (Rödd frá pöllunum: Það er það líka.) Já, mér datt það í hug. Þetta er ein sönnun þess, að til eru þessir ofsatrúarmenn, sem horfa í blindni á eitt ákveðið stórveldi og taka það til fyrirmyndar. Þessir menn ættu allra sízt að tala nm, að aðrir lyppuðust niður og þyrðu ekki að hafa skoðanir. Einmitt af því, að í augum íslenzkra kommúnista er eitt stórveldi sérstök fyrirmynd, og af því, að hv. 2. þm. Reykv. bar sig upp undan því, að stjórnin vildi ekki þiggja starfsorku hans, ætti hann að minnast þess, að í fyrirmyndarríkinu er gengið fram hjá mönnum, sem ekki eru trúir, og margir eru auk þess í hættu um öryggi sitt, ef þeir játa ekki hina einu sönnu trú. Mikið má hv. 2. þm. Reykv. fagna því, að stjórnin hefur ekki tekið þessa hætti til fyrirmyndar.