24.11.1947
Neðri deild: 23. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (2172)

14. mál, vinnumiðlun

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég vil strax láta það koma fram, að það er of vægt að orði komizt í nál. minni hl., að fjárhagsráð hafi þetta mál, er hér er til umr., til athugunar, því að mér hefur þegar verið falið að leggja fyrir ráðið till. um breyt. á l. um vinnumiðlun. Ástæðan fyrir því, að fjárhagsráð telur breyt. á þessari löggjöf svo brýna, er sú, að mikill skortur er á upplýsingum um vinnuaflið í landinu og skiptingu þess milli atvinnuveganna. Það eina, sem nú er hægt að styðjast við í þessu efni, eru 10 ára gömul manntöl. Auk þess sem þessi manntöl eru 10 árum á eftir tímanum og þar af leiðandi algerlega villandi, þá verður eigi unnið úr þeim nema á mjög löngum tíma. Það er ekki til nokkur annar vísir að vinnuhagskýrslum en þessi gömlu manntöl, og verður það að teljast alveg óviðunandi. Fjölmennar þjóðir, eins og t. d. Bretar, leggja svo mikla áherzlu á vinnuhagskýrslur, að þeir geti vitað um, hvað margir menn starfi í hverri grein næstum því daglega, og má af því marka, hvort jafnfámennri þjóð sem við Íslendingar erum er ekki nauðsyn að geta fylgzt með sínu vinnuafli.

Nú er verkefni fjárhagsráðs að hlutast til um að hagnýta vinnuaflið eins vel og mögulegt er, en eitt fyrsta skilyrðið til þess er að vita eitthvað um það, hvar það er og hvernig það skiptist milli hinna ýmsu atvinnuvega. Þessar upplýsingar er líka sýnu erfiðara að fá, þegar fólksflutningar eru eins miklir milli byggðarlaga eins og raun ber vitni. Ástandið í gjaldeyrismálunum sýnir, að nauðsynlegt er að efla útflutnings-atvinnuvegina, og þar af leiðandi verður að beina vinnuaflinu til þeirra. En auk þess veldur nýsköpunin og hin mikla vélanotkun, sem henni fylgir, bæði til lands og sjávar, breyttu viðhorfi og annarri skiptingu á vinnuaflinu. Af þessum ástæðum er brýn nauðsyn, að hér verði gerðar nákvæmar vinnuhagskýrslur á sama hátt og hjá öðrum þjóðum.

Nú var í upphafi ráðgert, að vinnumiðlunarskrifstofurnar önnuðust þessa skýrslugerð, en við nánari athugun kom í ljós. að þær höfðu ekki nægilegt valdsvið til þess að óbreyttri löggjöfinni. Ef athugað er starf vinnumiðlunarskrifstofunnar í Reykjavík, þá kemur í ljós, að þau verkefni, sem hún leysir, eru að gera skrá um þá, sem atvinnulausir eru, ráða menn í störf hjá bænum og úthluta atvinnubótavinnu, þegar þannig er ástatt. En þessi starfsemi getur ekki leyst þau verkefni, sem ráð er fyrir gert í fjárhagsráðsl., til þess er valdsviðið of lítið og ýmsir erfiðleikar, sem stafa af miklum fólksflutningum og breyttum atvinnuháttum. Hins vegar held ég, að það sé heppilegra og mundi koma fyrr að gagni að auka valdsvið þessara stofnana, svo að þær gætu innt þessi störf af hendi, heldur en setja á stofn nýjar skrifstofur til þess. Auk þess er sannarlega nóg skriffinnska fyrir í okkar landi. Hvað viðvíkur því, sem frsm. meiri-hl. n. gerði að umtalsefni, þá vil ég geta þess, að ég hef fengið upplýsingar bæði hjá forstöðumanni vinnumiðlunarskrifstofunnar og ráðningarstofunnar. Forstjóri ráðningarstofunnar sagði, að sú stofnun hefði nóg að gera með það starf, sem henni væri ætlað, eins og starfsliðið væri nú. Hins vegar gaf forstjóri vinnumiðlunarskrifstofunnar mér upplýsingar um, hverju þyrfti að breyta í núverandi löggjöf um þessa stofnun, til þess að hún gæti tekið umrædd störf að sér, eftir þeirri reynslu, sem fengizt hefur. Það má geta þess í sambandi við þetta mál, að Reykjavíkurbær er nú að safna skýrslum um ástandið í atvinnumálum bæjarins, en bæjarstjórnin hefur ekki séð sér fært að láta vinnumiðlunarskrifstofuna annast þá skýrslugerð, heldur falið það hagfræðingi sínum með aðstoð sérstakrar n. Þetta sýnir, að bæjarstjórn hefur ekki talið það í verkahring eða á valdi vinnumiðlunarskrifstofu bæjarins.

Ég vil að lokum taka undir það með 4. þm. Reykv., að það er brýn þörf á að endurskoða þessi l., sem nú eru orðin 10 ára án nokkurrar endurskoðunar þrátt fyrir gjörbreytingu á atvinnuháttum þjóðarinnar. Þær endurbætur, sem gerðar verða á l., verða að miða að því, að þessar stofnanir geti gert vinnuhagskýrslur. sem hægt verði að nota sem grundvöll til þess að hagnýta eins og bezt verður á kosið vinnuaflið í landinu, og það má ekki rjúfa sambandið milli þessara stofnana og ríkisvaldsins, heldur verður að tryggja, að það geti verið sem allra nánast. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, vinnur að því að rjúfa það samband, sem fyrir er milli þessara stofnana og ríkisins, í stað þess að það samband þarf að treysta betur. Mér er ljóst, hvaða hvatir liggja til grundvallar þessu frv., en þær eru ekki réttmætar. Ég tel því illa farið, ef það músarholusjónarmið, sem felst í frv., verður ofan á í þessari hv. d.