05.03.1948
Neðri deild: 69. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í C-deild Alþingistíðinda. (2243)

7. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Það má segja, að l., sem sett voru um hvíldartíma háseta á íslenzkum botnvörpuskipum, séu nokkuð einstök í sinni röð og eigi sér í raun og veru ekki neina hliðstæðu í íslenzkri löggjöf, því að það finnst hvergi nema í þessum l., að stétt manna sé löghelgaður hvíldartími. En þessi l. voru sett, þegar sjómannasamtökin og verkalýðssamtökin í landinu voru mjög veik og þegar sjómenn voru ofþjakaðir á togurum. Nú hefur þetta breytzt ákaflega mikið að því leyti, síðan þessi l. voru sett, að vinnutíminn í landinu er ákveðinn með frjálsum samningum í flestöllum greinum þannig, að samningar eru gerðir milli atvinnurekenda og verkamanna eða annarra launþega um 8 tíma vinnu á sólarhring, en stundum meira. Hins vegar hefur ekki orðið veruleg breyting á vinnutíma sjómanna, hvorki togaraháseta né annarra á þessum sama tíma. Ég hefði því að mörgu leyti óskað þess að athugun sú, sem sett hefur verið í gang, hefði verið nokkuð víðtækari og næði til fleiri sjómanna heldur en togarasjómanna einna, vegna þess að á sama tíma sem vinnutími þeirra, er í landi vinna, hefur stytzt, hefur engin breyting orðið á vinnutíma sjómanna yfirleitt. Eins og sakir standa, stunda togarar ísfiskveiðar og það er vitanlegt, að verulegur hluti háseta af þeim eru í landi, meðan aðrir sigla út með fiskinn, eða aðeins hluti af þeirri áhöfn, sem þarf á togarann þegar hann er við veiðar hér við land, þannig að þeir geta þannig hvílzt á milli og kemur þetta nokkuð upp á móti styttingu vinnutímans hjá öðrum stéttum. Hins vegar er nokkur hætta á því að ef togarar ættu að sækja á löng mið eins og stundum kemur fyrir, þegar veitt er í salt, gæti vinnutíminn orðið nokkuð langur og því of mikil áreynsla lögð á sjómennina.

Ég spurðist því fyrir um í sjútvn., hvort ekki gæti náðst samkomulag innan n. um það að n. flytti till. um skipun mþn. til þess að athuga yfirleitt vinnutíma og vinnukjör sjómanna, og undir þessa till. mína tók fulltrúi Framsfl. í sjútvn., hv. 2. þm. N-M. Þetta er orðið ákaflega mikið alvörumál, því að bæði lítur út fyrir að vinnutími sjómanna sé óvenjulega langur miðað við annarra stétta og vinnukjörin alls ekki þannig, að þau séu sambærileg. Um þessa till. mína náðist þó ekki samkomulag, því að hv. þm. Siglf. skarst úr leik, þar eð hann taldi óþarft að gera athugun á vinnutíma nokkurra annarra sjómanna en togaraháseta og vildi samþykkja frv. eins og það liggur fyrir. Fulltrúar Sjálfstfl. í n., hv. 5. þm. Reykv. (Sh) og hv. þm. Borgf. (PO), sem höfðu lagzt gegn málinu í fyrra, gátu hins vegar til samkomulags við okkur tvo aðra nm. fallizt á, að þessu máli yrði vísað til ríkisstj. til frekari athugunar ekki til að svæfa það, því að ég hef rætt þetta mál við hæstv. forsrh. og hann hefur lofað, ef óskir kæmu fram um það frá n., að þetta mál yrði athugað að það skyldi gert og þá væntanlega með skipun sérstakrar n.

Nú er það svo, að fyrir þessu máli virðist vera allmikill áhugi meðal sjómanna og að þeir vilji fá Alþ. til þess að setja um þetta löggjöf, án þess að þeir hafi beitt fyrir sig sínum samtökum í þessu máli. Hins vegar eru mótmæli gegn þessu mjög ákveðin af hálfu togaraeigenda. og telja þeir tormerki mikil á, að hægt sé að koma slíkum vinnutíma í framkvæmd. — Við erum nú að eignast nýja og stóra togara, og má vel vera að sjósóknin breytist eitthvað af þeim ástæðum en reynsla af því fæst ekki strax. Þeir sem halda því fram, að nauðsynlegt sé að setja um þetta löggjöf, ættu því ekki að taka illa í, að þetta mál yrði tekið til sérstakrar athugunar. Ég vildi fyrir mitt leyti — án þess að ég tali þar fyrir munn n. eða meiri hl. hennar — mælast til þess við hæstv. forsrh., að hann gefi hér á þingfundi yfirlýsingu um það, á hvern hátt hann muni láta þessa athugun fara fram. Ég tel nauðsynlegt, að þetta mál sé mjög vel undirbúið og að reynt sé að komast að samkomulagi milli togaraháseta og togaraeigenda um fyrirkomulag á vinnutíma á hinum nýju togurum. Eins og hv. þdm. er kunnugt, eru þetta ákaflega stórvirk tæki og nauðsynlegt að þau séu rekin þannig að þau beri sig og gefi arð í þjóðarbúið. Í öðru lagi er nauðsynlegt að vinnutíma sé sem allra haganlegast fyrir komið með tilliti til heilsu þeirra, sem við þau vinna. Það er því síður en svo, að lagzt sé á móti málinu með því að vísa því til ríkisstj., heldur væri það því til mikils framdráttar, ef árangur þessarar athugunar yrði sá, að togarahásetar og togaraeigendur kæmu sér saman um vinnutilhögun á þessum stórvirku tækjum.

Hv. þm. Siglf. komst þannig að orði, að afstaða mín í fyrra til þessa máls hefði verið þannig að ég vildi fella frv. Í það eina skipti, sem málið kom á dagskrá eftir að málið kom frá n., ef það kom þá nokkurn tíma þaðan, var ég ekki viðstaddur og lét enga skoðun uppi um málið. Þá sagði hv. þm., að málið hefði þokazt nokkuð fram á leið með þeirri afgreiðslu, sem hér er fyrirhuguð á því, en á hinn bóginn hélt hann því fram, að verið væri að drepa málið með því að vísa því til ríkisstj. Þetta er dálítið einkennilegur málflutningur. Annaðhvort er málið drepið og þá kemst það ekkert áfram. eða það fer til ríkisstj., og þar þokast það eitthvað áfram.

Ég hef þá öruggu trú, að málinu sé betur borgið á þann hátt sem meiri hl. n. stingur hér upp á heldur en að láta frv. koma nú til atkv. og þannig stofna því í þá hættu að verða fellt. — Ég vil svo vænta þess, að hæstv. forsrh. gefi yfirlýsingu um það að hann muni láta fara fram þá athugun í málinu, sem meiri hl. n. hefur óskað eftir.