11.11.1947
Neðri deild: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (2405)

69. mál, veiting prestakalla

Pétur Ottesen:

Út af því, sem hv. 1. flm. sagði um það, að ég hefði ekki andmælt þessu frv. neitt svipað því, sem ég hefði gert á síðasta þingi, og vildi draga af því þá ályktun, að ég hefði nokkuð linazt í afstöðu minni gagnvart þessu frv. frá því á síðasta þingi, þá vil ég segja það, að þetta er algerlega fjarri lagi. Mér fannst ekki ástæða til að taka upp þau rök, sem ég flutti, — þau eru í þingtíðindunum, — heldur aðeins drepa á nokkur atriði til viðbótar því, sem ég hélt þá fram. Ég vil aðeins gefa þessa skýringu, að þetta er misskilningur hjá hv. frsm. Afstaða mín til þessa máls er alveg óbreytt frá því, sem var í fyrra. Og eftir því, sem ég hugleiði þetta mál meira, því meir vex andstaða mín gegn þessu frv., og það er vitanlega sprottið af þeirri virðingu, sem ég ber fyrir trúaráhuga manna, og þess vegna legg ég alveg sérstaka áherzlu á það, að kosningafyrirkomulagið sé miðað við þetta fyrst og fremst. En þar virðist ég vera í andstöðu við hv. 1. flm. þessa máls, sem vill að því er mér virðist, ekkert tillit taka til þess, heldur loka augunum alveg fyrir þessu atriði málsins um leið og ákveðin er sú tilhögun, sem skuli viðhöfð við val prestanna.

Hv. þm. þótti vera mótsögn hjá mér í því, að jafnframt því, sem ég héldi þessu fram, þá bæri ég ekki fram till. um það, að söfnuðirnir fengju til þess leyfi að afsegja prestana, ef þeir væru í andstöðu við þá. Þetta geri ég ekki af því, að söfnuðunum er ekki lokuð leið að því að losna við samstarf við slíka presta. Og það er vitanlega ekki hægt að hugsa sér óeðlilegra fyrirkomulag en það, að prestur og söfnuður, sem eru í andstöðu hvor við annan, eigi að vera í samfélagi hvor við annan. Slíkt fyrirkomulag er vitanlega algerlega til þess að drepa trúarlífið í landinu. En við þessu hefur löggjöfin séð, því að það mikið trúfrelsi og athafnafrelsi ríkir hér í þeim málum, að þar sem slíkt ber við, þá hefur söfnuðurinn leyft til þess að segja sig úr öllum félagsskap við slíkan prest með því að stofna hjá sér fríkirkjufyrirkomulag og velja annan prest, sem er við þeirra hæfi og skoðanir, og þess vegna þurfti ekki að koma með till. um að slá varnagla við þessu, af því að hann er fyrir hendi og um það gilda ákveðin 1. En það, sem okkur ber á milli, mér og hv. 1. flm. þessa frv., er það að ég vil, að söfnuðirnir hafi til þess frjálsræði, hver einstakur meðlimur, að velja sér prest út frá sínu trúarlega viðhorfi, en hann vill fara um þetta eftir allt öðrum leiðum. Það felur ekki í sér, þó að ég haldi þessu fram, að ég vilji fara að leggja til, að það ætti að fara að kjósa lækna og sýslumenn, og það er af því að í því efni ber vitanlega að leggja aðaláherzluna á valið, þ. e., hvaða menntun menn hafa á því sviði, sem þeir eiga að starfa á, — læknar frá læknisfræðilegu sjónarmiði og sýslumenn á löggjafarsviðinu, — hvaða þekkingu þeir hafa til brunns að bera, og hefur náttúrlega heilbrigðismálastjórnin og landlæknir meiri þekkingu til þess að dæma um það en allur almenningur og hið sama er að segja um þau yfirvöld, sem að dómsmálum standa. En á trúmálasviðinu er það viðhorf einstaklingsins, sem markar afstöðu hans til prestavals, og á hann að hafa í landi, sem viðurkennir ófjötrað trúfrelsi, leyfi til þess. Hann á ekki að þurfa að segja sig úr l. við Þjóðkirkjuna til þess að hafa þennan rétt. Hann getur skapað sér hann, — hver einstaklingur, með því að segja sig úr Þjóðkirkjunni og í Fríkirkjuna, og þá velja fríkirkjusöfnuðirnir sér prest til sinnar þjónustu. Sams konar fyrirkomulag í þessum efnum á að ríkja innan Þjóðkirkjunnar hér á landi og ríkir nú, og þegar út af því hefur borið og stjórnarvöldin hafa gengið í berhögg við vilja meiri hlutans, þá hefur það alltaf valdið árekstrum og stundum orðið til þess að kljúfa söfnuðina, og það á ekki að vera með löggjöf að stofna til slíks, en það mundi verða gert með því fyrirkomulagi, sem hér er lagt til. Því að þótt það hafi átt sér stað, að komið hafi upp í bili nokkur reipdráttur innan safnaðanna milli meiri hlutans og minni hlutans, hefur það venjulega jafnazt aftur fljótlega. En þegar allur söfnuðurinn eða meiri hluti hans er kominn í andstöðu við veitingarvaldið, þá er ekki jafnlíklegt, að til samkomulags dragi, heldur mundi það verða til þess að koma á ósætt og sundrung, sem græfi um sig og leiddi til ófarnaðar fyrir alla.

Hv. 1. flm. sagði, að meðan veitingarvaldið hefði verið í höndum erlendra manna, hefði baráttan fyrir þessu verið sjálfstæðisbarátta. En það er hægt að berjast fyrir sjálfstæði á fleiri sviðum en að sækja það í hendur annarra þjóða. Það er líka sjálfstæðisbarátta frá hendi einstaklinganna að taka sjálfstæði í vissum málum til sín, eins og prestskosningum, frá því opinbera. Það er því til sjálfstæðisbarátta á fleiri sviðum en að sækja rétt sinn í hendur erlendra valdhafa og það er þetta sjálfstæði einstaklingsins í sambandi við prestskosningar, sem ég vil styðja og styrkja og finnst vera eðlilegt.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Ég vildi aðeins gera þessa leiðréttingu á þeirri ályktun hv. 1. flm., að það mundi eitthvað hafa dregið úr mér um afstöðu mína til þessa máls. Afstaða mín er óbreytt að öðru leyti en því, að eftir því sem ég hugsa betur um þetta mál, því meir vex andstaða mín gegn því og því varhugaverðara verður það í mínum augum.