18.12.1947
Efri deild: 40. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. —Það er viðurkennd staðreynd, að þjóðin átti í lok stríðsins ráð á meira fé í erlendri mynt en hún nokkru sinni áður hafði haft ráð yfir. Þá var sú stefna upp tekin að verja þessum fjármunum til þess að undirbúa betri framtíð og meiri atvinnu í landinu heldur en áður hafði átt sér stað. Þ,í var fyrir hendi í fyrsta skipti að verulegu leyti hér á landi afl þeirra hluta, er gera skal, þ.e.a.s. fjármunir til þessara hluta. Og þá voru hafin samtök um að hrinda af stað hinni svo kölluðu nýsköpun. Sjálfstfl. tók að sér það mikla hlutverk undir forystu formanns síns, Ólafs Thors, að ná pólitískum samtökum í þessu efni hjá stjórnmálaflokkunum, sem vildu sinna þessum málefnum undir forystu hans. Þegar sú samvinna tókst, var teningunum kastað í þessu efni. — Hafið var markvisst starf með stofnun nýbyggingarráðs til þess að þoka atvinnumálum þjóðarinnar í það horf, sem hér ræðir um, til þess að útiloka, ef verða mætti, hinn ömurlegasta vágest íslenzkrar alþýðu, atvinnuleysið. Þessi stefna fékk fylgi mikils meiri hluta þjóðarinnar, sem skildi, að rétt horfði. Síðan var á árunum 1944–1945 og allt árið 1946 unnið sleitulaust að framkvæmdum nýsköpunarmálanna. — Það skal viðurkennt, að þar sem hér þurfti ný átök á ýmsum sviðum og á ýmsum leiðum, gefur að skilja að störf nýbyggingarráðs höfðu að ýmsu leyti á sér svip frumbýlingsins og urðu því fyrir gagnrýni eftir á, er sagt var, að réttara mundi hafa verið að taka þetta málið eða hitt öðrum tökum hefur en gert var í nýbyggingarráði. En það hefur litla þýðingu í sjálfu sér viðkomandi heildarsvip þeirra átaka, sem þarna áttu sér stað. Drög voru þar lögð til stórkostlegra úrbóta svo að segja á öllum sviðum atvinnulífsins. Framkvæmd var m.a. að þess tilhlutun stórfelld og áður óþekkt efling fiskiskipaflota landsmanna, og að sama skapi var vélbátaflotinn stórum aukinn og endurbættur. Landbúnaðarvélar voru keyptar og settar í rekstur, svo og stórvirkar vinnuvélar og nýtízku iðnaðarvélar. Hraðfrystihúsin voru aukin og endurbætt og nýjum slíkum iðjuverum komið upp, einkum á þeim stöðum, er höfðu þeirra mesta þörf, víðs vegar um landið. — Á þessum tíma var einstaklingsframtakið stutt og hvatt til dáða í hvívetna, en jafnframt voru samtök manna í bæjum og sveitum, bæði með samvinnusniði og á annan hátt, látin njóta alls þess stuðnings, sem unnt var að láta í té. Komið var á fót sérstakri lánsstofnun til þess að standa undir lánum til fiskiskipanna. Ný, stórhuga löggjöf var sett um stuðning við landbúnaðinn. Drög voru lögð að stofnun sementsverksmiðju, og ýtt var undir betri hagnýtingu ullar en áður hafði átt sér stað. Þannig var reynt að styðja þann almenna vilja landsmanna til framtaks, sem nýsköpunarhugurinn hafði vakið. Við sjálfstæðismenn í landinu gengum að þessu verki, bæði sem einstaklingar hver á sínu sviði og sem stjórnmálamenn og leiðbeinendur í opinberum verkum, með fúsum huga og heilum. Við vitum samt, að þessi tæki. sem ég hef rætt um, og önnur framleiðslutæki koma fyrir okkur því aðeins að haldi, að hægt sé að gera atvinnuna arðbæra. Og því er okkur annt um, að þær meinsemdir atvinnulífsins, sem nú ógna arðbærri framleiðslu á sjávarafurðum, verði læknaðar. Ef ekki tekst að hamla því, að verðbólgan eyðileggi framleiðslu vora á útflutningsafurðum, kemur það að engu haldi, þótt við höfum allt fullt af nýjum vélum, skipum og öðru, sem í heilbrigðu þjóðfélagi er til ómetanlegs gagns. — Þeir, sem mest unnu að því að mynda nýja og hagkvæma aðstöðu til framleiðslunnar með nýsköpunarframkvæmdum, hljóta að óska þess og vilja vinna að því, að við missum ekki af strætisvagninum í þessu efni, verðum ekki undir í samkeppni um markaðina né töpum þeim kannske fyrir þeim, sem hafa lakari tekníska aðstöðu en við til framleiðslunnar. — Á sumum sviðum, sérstaklega að því er hina nýju togara snertir, er það þegar komið í ljós, hver lyftistöng þjóðarbúinu getur orðið að því framtaki, sem átti sér stað í þessu efni. Og það sama mun koma í ljós, hvað vélbátana snertir, þegar veiði sýnir sig og aflabrestur hverfur, eins og bezt kemur í ljós við Hvalfjarðarveiðina. Vélbátaflotinn hefur tæknilega séð miklum mun betri aðstöðu nú til að afla meira heldur en áður en endurnýjun flotans átti sér stað.

Hin aukna véltækni við alla landvinnu, þar sem hún hefur verið tekin upp, einkum við sveitabúskapinn, hefur byrjað að skila af sér betri afköstum og gefur miklar vonir um bætta vinnuaðstöðu yfirleitt. Er það fyrir það, að að því var staðið, meðan þess var kostur, að verja drjúgum hluta gjaldeyrisforða landsmanna til að afla þessara tækja.

Þegar framfarahugur er svo ráðandi í aðgerðum þjóðarinnar eins og var á þeim tíma, sem ég hef rætt um, þá fylgir honum og verður jafnan að fylgja bjartsýni, sem verður fyrir vonbrigðum, ef eitthvað verulega ber út af. En að slíkt komi fyrir, er ekki óeðlilegt í þjóðfélagi, sem er háð jafn snöggum sveiflum í atvinnulífinu eins og okkar þjóðfélag. — Fjölmargir þeirra, sem hafa lagt í stórar og dýrar framkvæmdir, t.d. byggingu hraðfrystihúsa, hafa orðið fyrir vonbrigðum, að því er fjáröflun snertir til að standa undir byggingarkostnaði þessara fyrirtækja. Ef leita á nokkurrar einnar orsakar fyrir því, að svo fjarri fer því sem raun ber vitni, að lánsfjárþörfinni hafi verið fullnægt eins og til var ætlazt af Alþ., þegar sett voru lög um stofnlán og landbúnaðarlán í anda nýsköpunarinnar, þá teldi ég einna líklegast að benda á þá staðreynd, að á sama tíma hafa líka á öllum öðrum sviðum, t.d. í húsbyggingum, verið stigin stór spor og þar af leiðandi fjárfrekari heldur en nokkurn tíma áður í sögu þjóðarinnar. Tel ég rétt að benda á þetta sem eina helztu orsök þess, hve þröngt er um stofnlánin, því að enn er haldið áfram að narta í nýsköpunina af þeim, sem aldrei vildu hafa hana, og nú erum við, sem unnum að skipulagningu nýsköpunarinnar, bornir sökum á sumum stöðum fyrir það, að stofnlánasjóður hefur of lítið umráðafé til lánveitinga. Þessar ásakanir koma úr þeirri átt aðallega,. sem ávallt var á móti endurreisn atvinnuveganna, þeim, sem jafnan hafa afflutt allt það, sem af hendi hefur verið leyst, og ekki lagt annað en illt til nýsköpunarinnar.

Við Íslendingar erum í fjármálum og atvinnumálum ekki meðal þeirra, er byggja á mestri reynslu og hagsýni. Við viljum á flestum sviðum hafa stórframkvæmdir með höndum og erum þess vegna meira í hættu fyrir því að reisa okkur hurðarás um öxl. — Svo er hitt, sem hefur afdrifaríka þýðingu um að gera allar okkar framkvæmdir fjárfrekari nú en þær hafa áður verið, en það er verðbólgan og dýrtíðin, sem þjóðin er búin að búa við allt frá því, er stríðshækkanir fóru að hafa áhrif á kaupgjald og verðlag, og til þessa dags. Öllum þeim réttmætu og glæstu vonum, sem við höfum alið í brjósti í sambandi við þá endurbyggingu atvinnuveganna, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, er bráð hætta búin af hinni sívaxandi verðbólgu, sem allir munu vera ásáttir um að telja böl, nema hv. sósíalistar öðru hvoru, en ekki eru allir sammála um, hversu frá megi bægja.

Átökin á milli stéttanna innanlands á þessum 7 árum um verðlag á landbúnaðarvörum og verðlag á vinnu hafa smátt og smátt magnað þetta vandamál þjóðarinnar. Þegar það spor var stigið á árinu 1940 að tengja órjúfanlega saman verðlag og kaupgjald með því að ákveða, að ávallt skyldi greiða fulla verðlagsvísitölu á hvers konar grunnkaup, þá var lagt smiðshöggið á þá dýrtíðarskrúfu, sem síðan hefur þjáð atvinnuvegina og sett gildi íslenzku krónunnar í sívaxandi hættu. Þrátt fyrir það að varið hafi verið tugum milljóna til þess með niðurgreiðslum úr ríkissjóði að vinna gegn eða létta áhrif dýrtíðarskrúfunnar, hafa þessi fjárframlög þó ekki megnað að breyta þeim straumi í þessum efnum, sem óhjákvæmilega hlýtur að bera að glötunarbarmi atvinnuveganna og þar með þjóðarbúskaparins.

Það er að vísu gott að láta hverjum degi nægja sína þjáningu, og við erum öll með þeim ósköpum fædd að einhverju leyti að hlífa sjálfum okkur við að horfast í augu við aðsteðjandi vandræði, meðan þau eru ekki orðin óbærileg. Hins vegar er þess að gæta, að til lítils væri það fyrir þjóðina að hafa varið hundruðum milljóna til að bæta atvinnuaðstöðu landsmanna til sjós og lands og til lítils fyrir einstaklingana að leggja á sig erfiði og sem betur fer marga hverja að hafa sparað saman ávexti erfiðis síns, ef svo gálauslega ætti ávallt fram að fara, að sýnt væri, að atvinnuaðstaðan og peningaeign sparifjáreigenda hyrfi sökum óforsjálni okkar sjálfra í ginnungagap óviðráðanlegrar verðbólgu og eyðilegðist þar með að öllu eða mestu leyti. Þegar svo væri komið, hlyti atvinnuleysið að halda innreið sína og minna okkur á það daglega, að við hefðum of lengi vanrækt að stöðva dýrtíðarskrúfuna, á meðan hún var enn viðráðanleg.

Það má að vísu með l. og alls konar samtökum ákveða innanlandsverðlag á því, sem fer til neyzlu landsmanna, og þeirri þjónustu, sem við innum af hendi hver fyrir annan. Þar má segja, að við mælumst einir við og getum haldið áfram að kroppa augun hver úr öðrum án þess að taka tillit til erlendra aðila, en sú framleiðsla og hvers konar þjónusta, sem við þurfum að selja öðrum þjóðum, er háð öðrum lögmálum. Verðlag útflutningsvörunnar verður aldrei ákveðið af okkur einum. Það er háð því, hvað kaupendurnir utan lands vilja og geta fyrir hana borgað. Þar mælast Íslendingar ekki elnir við. Þetta veit hvert mannsbarn, þó að oft virðist þörf á að minna á það.

Þegar rætt var um þetta frv. í Nd., sagði einn af fulltrúum Sósfl. m.a., að núverandi stjórn hefði verið duglaus, sem hann kallaði það, í afurðasölumálunum, og einatt hefur það klingt við í vetur í ræðum sósíalista, að þegar kæmi að umræðunum um afurðasölumálin, þá skyldi stjórnin fá kúluna kembda.

Mér þykir rétt að draga fram fáeinar staðreyndir viðvíkjandi afurðasölunni í þessum umræðum, eins og afurðasalan hefur verið, síðan núverandi stjórn tók við.

Kommúnistar höfðu séð fyrir því í tíð hæstv. fyrrv. stjórnar, að stjórnin sem heild gat engar nægilegar ráðstafanir gert til að undirbúa afurðasölu ársins 1947 eins og skyldi. Fyrrv. hæstv. atvmrh., Áki Jakobsson, náði, sem kunnugt er, í rússneskan starfsmann, afskipunarmann, sem var hér staddur til að sjá um afskipun á þeim vörum, sem Rússar keyptu hér, og í einfeldni sinni hélt ráðh., að hann hefði þar náð í þann rétta aðila, sem hægt væri að slá sér upp á í afurðasölumálum. Hann gekk í þetta sjálfur og hafði framan af lítil eða engin samráð við sér betri menn, og útkoman varð sú, að framleiðendur voru fengnir til að trúa því, að selja mætti til Rússlands bróðurpartinn af sjávarafurðum landsmanna árið 1947 fyrir afar hátt verð. Þessi rauða stjarna, sem ráðh. hugðist hafa krækt i, átti að auðkenna hann sjálfan og sýna öllum landslýð, hve djúpt stæðu ráð þeirra kommúnista og hve tilþrifamikil verk þeirra í afurðasölumálunum væru. Þetta varð til þess m.a., að menn stóðu í þeirri trú, að allur saltfiskurinn, sem framleiddur var á vertíðinni, mundi verða keyptur af Rússum við dýru verði og margt og margt fleira, sem reyndist hugarburður einn, þegar fram á árið kom. Í fyrsta lagi var það upplýst síðar meir af sendiráði Rússa hér, að samningamaðurinn, sem ráðh. hafði náð í, hafði ekkert umboð til að semja að neinn leyti um vörukaupin. Í öðru lagi kom það í ljós, eins og áður segir, að þær hugmyndir, sem ráðh. og þessi maður höfðu gert sér um möguleika á sölu íslenzkra afurða á rússneskum markaði, voru rammskakkar, því að reynslan varð sú, að Rússar keyptu við þessa samninga ekki aðrar vörur en þeir höfðu keypt áður.

Þetta er nú eitt dæmi þess, hvernig staðið er að því þýðingarmikla máli, afurðasölunni, af hálfu kommúnista, þegar þeir hafa valdaaðstöðu í þjóðfélaginu til að vera þar í fararbroddi. Ég gæti nefnt fleiri átakanleg dæmi um mistök manna úr þessum flokki, þegar þeir hafa komið nálægt sölu á afurðum, mistök, sem eru svo átakanleg, að það er furðulegt, að þeir skuli yfir höfuð reyna að bera jafn þungar sakir á núverandi ríkisstj. og aðra þá, sem hafa staðið að afurðasölunni á þessum árum, eins og þeir gera. Nú þykjast þeir þeim vanda vaxnir að vera forsjón annarra í afurðasölumálunum, aðrir eins labbakútar og þeir hafa reynzt þar sjálfir og nú er lýðum ljóst.

Það var eitt af fyrstu verkum núverandi ríkisstj., eins og kunnugt er, að koma af stað samningan., bæði til Rússlands og Bretlands, til að semja um sölu afurða þar, og hún hefur síðan unnið sleitulaust að því að gera samninga um sölu á þessum afurðum, eftir því sem möguleikar hafa staðið til og bezt hefur hentað, bæði að hennar dómi og dómi þeirra mörgu manna, sem henni hafa verið hjálplegir í þessum sökum. Það var ekkert sérstaklega ánægjulegt að taka við öllum saltfiskinum óseldum í vor, eftir að bezti sölutími saltfisksins var liðinn vegna vonar þeirrar, sem vakin hafði verið um sölu í Rússlandi og dokað hafði verið við eftir í 3 mánuði, en árangurslaust. Það er dálítið kynlegt, að þegar þessir sérfræðingar kommúnista í afurðasölumálunum hér á Alþingi brýna sem mest raustina um það, hvað hægt væri að selja og hvar vanrækt hafi verið að selja, þá eru þeir oftast með markaði á vörunum, sem þeir virðast trúa mest á, markaði, sem íslenzkar afurðir hafa ekki verið seldar á áður nema í litlum stíl. Þeir hafa talað mjög um Tékkóslóvakíu, sem getur verið góð, og þeir hafa talað þráfaldlega um Frakkland sem sérstaklega gott afurðasöluland, en eins og kunnugt er, hafa Íslendingar aldrei haft mikil viðskipti við Frakka eða selt þangað mikið af vörum. Það hefur að vísu heppnazt að selja þangað dálitið af hraðfrystum fiski, en þó hvergi nærri það, sem fram hefur verið boðið. Ég get t.d. nefnt það, að eitthvað um þriggja mánaða skeið er Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna búin að vinna að því að reyna að koma í kring sölu á 1000 tonnum af hraðfrystum fiski í Frakklandi og hefur haft til þess fullt leyfi íslenzkra yfirvalda, en þetta hefur enn ekki tekizt. Um markað í Tékkóslóvakíu er það kunnugt, að hann hefur tekið við dálitlu magni af hraðfrystum fiski, en þó með þeim skilyrðum að fá aðrar vörur frá Íslendingum, sem hvarvetna eru seljanlegar gegn greiðslu í sterlingspundum eða dollurum, og svo er það með það land, að þangað er ekkert hægt að selja nema með því að taka iðnaðarvörur í staðinn, sem eru í flestum, ef ekki öllum tilfellum, dýrari heldur en ef þær væru keyptar í Englandi, Ameríku, eða á Norðurlöndum. Þannig er nú það raunverulega ástand í þeim löndum, sem þeir eru sérstaklega að halda fram, en út af gömlu markaðslöndunum skammast þeir og kölluðu samninginn við Breta, sem eru okkar mesta viðskiptaþjóð, smánarplagg, þegar hann var gerður.

Einn kommúnisti hefur sagt í umr. um þetta mál eftirfarandi varðandi afurðasöluna:

„Það er enginn grundvöllur til fyrir því, að ekki megi selja fyrir ábyrgðarverð á næsta ári.“ Enn fremur sagði hann: „Það hefur tekizt að knýja fram hærra verð en útlit hefur verið fyrir undanfarið fyrir harðvítuga baráttu.“

Það væri fróðlegt að spyrja hv. fulltrúa sósíalista um það, þegar hér er nú verið að ræða um afurðir þessa árs og því haldið fram, að það hafi tekizt að knýja fram hærra verð en búizt hafði verið við fyrir harðvítuga baráttu, hverjir það væru, sem að þeirra áliti hefðu háð þá baráttu. Það er sem sé vitað, að ríkisstj. hefur staðið í þessum málum öllum undantekningarlaust, síðan hún tók við, og þó að hún hafi notið aðstoðar margra ágætra manna, eins og allar stjórnir hafa gert á undan henni, þá hefur hún þó a.m.k. orðið að taka allar ákvarðanir um málin. Í öðru lagi væri gaman að spyrja, hvernig á því stæði, að þessi duglausa afurðasölustj., sem þeir tala einatt um, hafi þó að dómi þeirra sjálfra háð harða baráttu fyrir sölu á afurðunum og sigrað. Eða voru það kannske kommúnistar, sem háðu þessa baráttu? Nei, ef barátta hefur verið háð, þá var hún háð einmitt af þessari ríkisstj., sem kommúnistar eru að deila á fyrir ódugnað.

Það er ekki í fá skipti, sem það hefur klingt við í ræðum sósíalista, að stjórnin vilji ekki selja afurðirnar eins háu verði og hægt væri. Það þarf í sjálfu sér ekki æði mörg orð varðandi svo fáránlega ásökun. Hvaða stjórn er nú hugsanleg, sem væri þannig, að hún vildi ekki selja afurðirnar frekar við betra verði en við lægra verði? lin spursmálið er: Hvers vegna álpast svona endemis fullyrðingar út úr þessum mönnum? Ég held, að þetta komi til af því, að svona vitleysur eru nokkurs konar óhjákvæmileg afleiðing hjá þeim af öllum þeim vitleysum, sem þeir eru búnir að halda fram í sambandi við sömu mál, og séu eitt af baráttumeðulum þeirra til að reyna að berja því inn í þjóðina gegn betri vitund, að það stafi engin hætta af verðbólgunni og að öll afurðasala geti gengið óhindruð þrátt fyrir hana. Þess vegna mega þeir ekki viðurkenna, að það sé of hátt framleiðsluverð í landinu og afurðir okkar of dýrar á erlendum markaði. Þegar það samt sem áður sýnir sig, að ekki er hægt þrátt fyrir þá harðvítugu baráttu stjórnarinnar, sem kommúnistar hafa lýst, að selja afurðirnar svo hátt, að það greiði framleiðslukostnaðinn á Íslandi, þá er hlaupið yfir í næstu fullyrðingu, sem ég minntist á áðan og er eitthvað á þessa leið: „Þetta væri hægt að selja allt við framleiðsluverði og yfir ábyrgðarverði, ef íslenzka stjórnin fengist til þess að selja á réttum stöðum og réttum löndum, en ríkisstj. er bara svo vond, að hún vill ekki selja þeim, sem bezt borga, heldur hinum, sem verr borga.“ Svona tala þeir jafnan þessir sérfræðingar kommúnista í afurðasölumálunum. Þeir selja mest í greinum Þjóðviljans, þá er fiskurinn jafnvel ofar en ábyrgðarverð og allt í lagi.

Eins og hæstv. utanrrh. lýsti, hefur það tekizt undir forustu núverandi ríkisstj. að fá talsverða sölu á íslenzkum afurðum í Hollandi og enn fremur að ná samningi um sölu á fiski og síld til Þýzkalands, og mun það, ef þær vonir rætast, sem ástæða er til að tengja við þessa samninga, sýna sig, að hér er um mjög þýðingarmikla samninga um afurðasölu að ræða.

Áður en frv. það, sem hér liggur fyrir, var lagt fram, voru miklar bollaleggingar í blaði kommúnista eða Sósfl., Þjóðviljanum, um það, hvað ríkisstj. ætlaði að gera í dýrtíðarmálunum. Annað veifið voru gleiðletraðar fyrirsagnir um það, að ríkisstj. hefði ákveðið stórfellda gengislækkun, og þá um leið dregnar hæfilegar ályktanir af þeim níðingsskap að þeirra dómi, og hitt veifið var talað um önnur úrræði, sem þeir hafa talið. að hugsanlega gætu komið til mála, og hvert eitt og einasta þeirra var fyrir fram rægt og svert í augum almennings. Til hvers? Auðvitað til þess að vekja andúð á hverju því, sem ofan á kynni að verða í þessu máli. Það er vitað, að atvinnurekendur til sjávarins höfðu gert róttækar kröfur um breyt. á vísitölunni, allt niður í 200 stig, og um leið 20% gengislækkun á íslenzku krónunni, sem þeir töldu sér nauðsynlegt til þess að geta haldið áfram atvinnurekstri sínum. Þegar þannig er sýnt og sannað, að áður en nokkurt frv. kom frá ríkisstj., voru kommúnistar búnir að rægja allar hugsanlegar tilraunir fyrir fram, þá undirstrika þeir með því það sama sem þeir með frv. sínu á Alþingi sýndu, þar sem þeir lögðu til, að fiskábyrgðarverðið yrði tekið, en hins vegar að dýrtíðin fengi að halda áfram að magnast, eftir því sem verða vildi. Þar kemur fram kjarninn í stefnu þess flokks, að flagga með ábyrgð á afurðunum til þess að gera sínar hosur grænar fyrir sjómönnum og útvegsmönnum, en leyfa dýrtíðinni að magnast eftir vild, því að þá vita þeir, að hvaða aðrar ráðstafanir sem kynnu að verða gerðar yrðu gagnslausar og bæri að því einu marki, sem þeir hafa fyrir augum, fjárhagslegu hruni þjóðarinnar.

Jafnvel þó að til þess bragðs hefði verið tekið að verða við kröfunum á þessu stigi málsins um stórfellda gengisbreyt., hefði það ekki orðið nema skammgóður vermir með aðferð kommúnista, þeirri að láta dýrtíðarvísitöluhjólið halda áfram að snúast í sífellu.

Í grg. fyrir sínu eigin fiskábyrgðarfrv. viðurkenna kommúnistar það í öðru orðinu, að dýrtíðin sé orðin atvinnuvegunum ofurefli, því að þeir halda því þar fram, að vísitalan megi ekki vera öllu hærri en 300 stig. En þegar ríkisstj. ber fram frv. um, að hún skuli miðast við 300 stig, þá hrópa þeir til þjóðarinnar um arðrán og þrælalög, sem verið sé að setja á með þessu móti. Öll málafærsla þeirra í þessu máli sem öðrum hefur verið þrungin af þeirri sömu tvöfeldni sem þeir sýna í afskiptum sínum af öllum málum á Alþingi, sem koma misjafnlega við annaðhvort sjómenn eða launþega í landinu. Þeir leika jafnan tveim skjöldum í þeim tilgangi að villa hvorum tveggja þessum aðilum sýn. Þetta kom einnig glöggt fram í hinu nýafstaðna járnsmiðaverkfalli. Kommúnistar stóðu þar eins og annars staðar með hækkun kaupgjalds járnsmiðanna og hrósuðu því sem stórum sigri, sjálfsagt fyrir sjálfa sig, í Þjóðviljanum, þegar járnsmiðirnir eftir tveggja mánaða stöðvun fengu kröfum sínum framgengt. Á sama tíma voru þessir menn eða þeirra fulltrúar, sem tala aðallega við útvegsmenn, að bölsótast yfir verðlagi á skipa- og vélaviðgerðum og töldu það allt of hátt og ósanngjarnt, af því að þeir vita, að bátaflotinn stendur undir hinu háa verðlagi, sem er á öllum viðgerðum hjá járnsmiðunum.

Þegar um er að ræða ráðstafanir til að lækka taumlausa dýrtíðarólgu eins og þær, er hér liggja fyrir, er vissulega hægt að finna ágalla á þeim, ekki sízt þegar það er gert út frá því sjónarmiði einu að vekja óánægju frá sjónarmiði einnar eða annarrar stéttar. Á öllum þeim stéttaráðstefnum, sem haldnar hafa verið í haust. hefur þess jafnan fljótlega gætt, að fulltrúar stéttanna hafa beint eða óbeint að því vikið, að þeirra stétt, hver svo sem hún hefur verið, væri nú ekki þannig á vegi stödd, að hún ætti að bera þær byrðar, sem þó allir vita, að þarf að bera í sambandi við tilraunir til að fá viðunandi grundvöll fyrir framleiðsluna, og í því frv., sem hér liggur fyrir, er um það að ræða, að allir landsbúar beri byrðarnar. Þeir, sem hér mæla sterkast á móti frá stéttarsjónarmiði, kommúnistarnir, mættu þó hafa það í huga, að í hagfræðinganefndarálitinu, sem gefið var út í fyrra og fyrrv. stjórn stóð að, var fulltrúi þeirra sammála hinum hagfræðingunum, er að því stóðu, um þá ályktun, að í fyrsta lagi yrði að vinna gegn verðbólgunni og í öðru lagi væri nauðsynlegt, að allir tækju á sig nokkrar byrðar í því skyni.

Þetta frv. reynir að sameina alla til þess að byrja „þá löngu reisu“, sem þjóðin á fyrir hendi á þeim vegi.

Lítið hefur verið á það minnzt við þessar umr., að á eignamenn þjóðfélagsins er lagður mikill skattur, þar sem eru ákvæðin um eignaraukaskatt. Hann skal lagður á það, sem menn hafa aukið eignir sínar frá 1940 og til loka yfirstandandi árs. Mörgum munu þykja þær byrðar allverulegar, en þetta er gert m.a. vegna þess, að það hefur frá upphafi, síðan umr. um þetta mál hófust, verið viðurkennt, að allir verði að taka á sig nokkrar byrðar. Kommúnistar hafa líka tekið undir þetta, en vilja nú hlaupa frá þeirri skoðun sinni sem öðrum, ef þeir telja sér af því pólitískan stundarávinning.

Verðhjöðnunarleiðin, sem hér er reynd, verður ekki farin í loftköstum. Það mundi valda truflunum og ýmiss konar röskun í atvinnu- og fjármálalífi þjóðarinnar. Sú leið, sem hér hefur verið valin, er byggð á því, að í þessu máli sem mörgum öðrum sé krókur betri en kelda. Hún er enn fremur byggð á þeirri sannfæringu stjórnarvaldanna, að þjóðin skilji, að einhvern tíma, og nú er ekki seinna vænna, verði að byrja að stemma á að ósi, stöðva þá framvindu, sem verið hefur vatn á dýrtíðarmylluhjólinu, með því að festa vísitöluna. Hér er þó svo hóflega í þá festingu farið, að enginn, sem undir það játast, að byrðin verði að berast af öllum, enginn, og ekki heldur hv. meðlimir Sósfl., vilji þeir ekki ómerkja yfirlýsingar sinna beztu manna, getur annað en játað, að rétt sé stefnt og stillt af stað farið.

Hv. 4. landsk. greip til þess, sem honum er alltaf næst hendi, að hóta verkföllum, óróa og æsingum. En hverju er hv. 4. landsk. að hóta með þessum aðgerðum í rann og veru? Kjarni þess, sem hann sagði, þegar æsingaumbúðirnar eru teknar utan af, er sá að koma af stað þeim aðgerðum, sem hefðu í för með sér hrun íslenzkrar krónu. Ræða hans var dulbúin hótun um að fella gengi krónunnar, því að þegar búið væri að koma öllu í öngþveiti með æsingum og verkföllum, þá yrði að lokum ekki annað úrræði fyrir hendi til þess að koma afurðunum nokkurn veginn í sæmilegt verð en að feila krónuna. Við höfum ekki viljað fara þessa leið, eins og frv. sýnir. Margir hafa verið þeirrar skoðunar, að ef til vill hefði verið réttara að fella eitthvað gengi krónunnar og lækka vísitöluna að einhverju leyti. Þessu hefur verið haldið fram í ræðu og riti, en þetta frv. fer ekki þá leið. Það hefur þótt rétt að reyna fyrst aðrar leiðir.

Hér er ekki treyst á harkalegar aðgerðir né lagt út á hálar brautir, en hér er treyst á heilbrigða dómgreind fólksins, sem á allt sitt undir því, að blómlegt atvinnulíf haldist í landinu. Og þetta fólk veit það, að ef verðbólgan heldur takmarkalaust áfram að vaxa, er afkoma þess í voða, og þeir fjármunir, sem það hefur eignazt, hljóta að tortímast í eldi verðbólgunnar.

Þess vegna ber að treysta svo heilbrigðri dómgreind þjóðarinnar, a.m.k. meðan annað er reynt, að hún taki vel í það að leggja eitthvað að sér sinni eigin framtíð til tryggingar.

Þar sem ég er síðastur á mælendaskrá og umræðum um þetta mál í kvöld er þar með lokið, vil ég nota þetta tækifæri til þess að óska öllum þeim, sem mál mitt heyra, gleðilegra jóla og góðs komandi árs. — Góða nótt.