16.03.1948
Neðri deild: 74. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í C-deild Alþingistíðinda. (2500)

93. mál, útrýming villiminka

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Það liggja nú fyrir þrjár brtt. við frv. Í fyrsta lagi á þskj. 458 frá hv. þm. S-Þ., þar sem hann leggur til, að bannað sé minkaeldi í Norðlendinga- og Austfirðingafjórðungi. Þá er brtt. á þskj. 447 frá flm. frv., þar sem lagt er til. að þegar eftir gildistöku laganna skuli ríkisstj. leita álits allra sveitarstjórna í Rangárvalla-. Árnes-, Gullbringu-. Kjósar-, Borgarfjarðar-, Mýra-, Snæfellsnes- og Hnappadals- og Dalasýslum, svo og bæjarstjórna í kaupstöðum á þessu svæði um það, hvort leyfa skuli minkaeldi framvegis. Ef jákvæð svör berast fyrir septemberlok í haust, þá á stj. að hlutast til um, að öllum minkum verði lógað fyrir lok janúarmánaðar 1949.

Landbn. hefur á hvoruga þessara till. getað fallizt, en tekið upp meginefnið í till. flm. í brtt. á þskj. 523, sem er brtt. við brtt. á þskj. 447.

Það sem n. finnst óaðgengilegt í till. hv. þm. Árn. og hv. þm. Borgf., er tvennt. Fyrst er það, að bara skuli leita umsagnar nokkurra landshluta, sem orðið hafa fyrir barðinu á minkinum, því að vitað er, að ferðir þeirra eru ekki bundnar við eina eða tvær sýslur, og einkennilegt er það, ef leita á umsagnar Dalasýslu, en ekki Húnavatnssýslu. N. leit svo á, að það þyrfti að fá álit allra sveitarstjórna og bæjarstjórna í landinu. Síðan má dæma, hvernig skoðanir skiptast eftir landshlutum.

Þá getur n. heldur ekki fallizt á að afhenda löggjafarvald í hendur lítils meiri hluta sveitarstjórna í litlum hluta landsins og telur, að það geti ekki komið til mála. Það er nú ákveðið, að Alþ. komi saman 10. okt., en sveitarstjórnir og bæjarstjórnir eiga að hafa svarað fyrirspurnunum í septemberlok, einmitt um það bil er Alþ. kemur saman. Það er þá hlutverk þingsins að taka ákvörðun í málinu í samræmi við þær upplýsingar, sem fram hafa komið. En landbn. vildi ganga til móts við flm. á þeim grundvelli, er felst í till. n. á þskj. 523. Þar með er um leið skýrð afstaða n. til till. hv. þm. S-Þ., því að það liggur í hlutarins eðli, að ekki er ástæða til að banna sérstaklega minkaeldi í þeim landshlutum, fyrr en upplýsingar liggja fyrir.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta, vona að d. hafi skilið, út á hvað brtt. ganga.

Ég vil loks geta þess, að n. hefur talað við hæstv. atvmrh., og fellst hann á, að málið sé afgr. á þann hátt, sem n. leggur til á þskj. 523.