26.01.1948
Neðri deild: 46. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í C-deild Alþingistíðinda. (2591)

121. mál, Reykjavíkurhöfn

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki ástæða til þess að tala mikið um þetta mál við 1. umr. En ég vil gera grein fyrir því, að ég er ekki flm. að þessu frv., sem annars er flutt af flestum hv. þm. Reykjavíkurbæjar. Eins og kunnugt er, þá hafði ég um nokkuð mörg undanfarin ár reynt að vinna að því að samræma löggjöfina um hafnargerðir og lendingarbætur í landinu. Það voru til hér eitthvað upp undir 80 sérlög fyrir hafnir og hafnargerðir og lendingarbætur, og var talsvert ósamræmi í því öllu saman. Það varð svo að ráði í mþn., sem ég var í, að sú n. semdi og bæði ráðh. að koma á framfæri frv. um almenn hafnarl., þar sem væri eiginlega gerður rammi fyrir hafnir og lendingarstaði alls staðar á landinu. sem mætti síðan fylla frekar út í með reglugerðum, eftir því sem staðhættir krefðu. Nú, þegar til þess kom að fá flm. að frv. þessu, sem hér liggur fyrir, var mér skrifað og ég beðinn að vera meðflm. að því. Ég var ekki til þess viðbúinn. Ég var ekki í vafa um, að ýmislegt gerði það að verkum, að Reykjavík þurfti að hafa sérákvæði í l. viðkomandi höfninni, en mörg eða margbrotin geta þau alls ekki verið. Og að óathuguðu máli vildi ég ekki opna aftur fyrir sama farganinu. sem hér var að því leyti, að hver einasta lækjarspræna svo að segja á Íslandi heimtaði að hafa sérstök hafnar- eða lendingarlög fyrir sig. Nú vildi ég athuga, hvort ekki væri hægt að leiðrétta þessi mál fyrir Reykjavíkurhöfn með lítilfjörlegri breyt. á almennu hafnarl. eða með reglugerðarákvæðum. sem samræmdust hinum almennu hafnarl. — Af því að ég býst við. að málinu verði vísað til þeirrar n., sem ég á sæti í, get ég látið mínar aths. bíða, þangað til ég ásamt öðrum nm. hef fengið tækifæri til þess að athuga þetta mál.