26.01.1948
Neðri deild: 46. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í C-deild Alþingistíðinda. (2612)

128. mál, ullarverksmiðja í Hafnarfirði

Flm. (Hermann Guðmundsson) :

Herra forseti. Um þetta mál, sem hér liggur fyrir, virðist ekki þurfa að flytja langa framsöguræðu, þó að málið sé mjög nauðsynlegt að mínu áliti og efalaust margra annarra, því að frv. fylgir ýtarleg grg. ásamt skýrslu og áætlun um verksmiðjuna. En mér virðist nokkurn veginn augljóst mál, að í sambandi við ullarframleiðsluna í landinu eru allmargir og miklir annmarkar á þeirri framleiðslu, sérstaklega í sambandi við hagnýtingu ullarinnar. Á hverju ári hefur borið á því, að annmarkar eru á því að fá markað fyrir þá ull, sem ekki er unnið úr í landinu sjálfu. Stundum hefur gengið vel, en stundum hefur líka gengið illa með sölu á þeirri ull, sem hefur orðið að leita markaðs fyrir í útlöndum. Á þessu ári og sérstaklega á síðustu árum hefur ullarþörf landsmanna verið meiri til fatnaðar heldur en áður. Sérstaklega er þetta í augu stingandi nú fyrir okkur Íslendinga, þegar við vegna ýmissa utan að komandi erfiðleika höfum orðið að grípa til þess að skammta ýmsar nauðsynjar og einnig fatnað, að þá skulum við þurfa óbeinlínis að skammta þá vöru, sem við gætum haft nóg magn af, ef framleiðslumöguleikar væru fyrir hendi í þessu efni, og á ég þar við vörur, sem hægt er að vinna úr ull, bæði til innri og ytri fatnaðar. Á síðustu árum hefur heimilisiðnaður Íslendinga ekki verið í því ástandi, sem æskilegast er. Hygg ég, að þar sé ekki því um að kenna, að minni ull sé framleidd heldur en áður, heldur hinu, að í kaupstöðunum hafa verið mjög miklir erfiðleikar á útvegun hráefna, sem nauðsynleg eru til þess að hægt sé að halda heimilisiðnaði uppi. Ástæðan fyrir þessum erfiðleikum hefur verið fyrst og fremst sú, að við höfum ekki möguleika til þess að vinna úr ull þeirri, sem hér hefur fallið til á hverju ári, fjarri því. Það virðist því liggja í augum uppi, að það þurfi að skapa skilyrði til þess að vinna úr þeirri ull, sem til fellur í landinu á hverju ári. En þau skilyrði hafa ekki verið fyrir hendi, svo að fullnægjandi hafi verið. Það hafa að vísu verið gerðar ráðstafanir til þess að auka möguleikana fyrir heimavinnu úr ullinni með því m. a. að stækka Gefjuni. En það er þó ekki nægilegt, til þess að það dugi til þess að koma þessum málum í gott horf. Það er frá mínu sjónarmiði ekki nóg úrræði, heldur álít ég, að það þurfi að koma hér hjá okkur ný og stór ullarverksmiðja. Það getur verið, að menn deili um það, hvort sú verksmiðja eigi að vera reist af einstaklingum, af ríkinu eða bæjum. Ég slæ því föstu, að það eigi að vera ríkisrekstur á þessu fyrirtækt, sem er vegna þess, að ríkið hefur nú þegar tekið í sínar hendur rekstur á framleiðslu á ýmsu því, sem til fellur og úr sjó fæst, svo sem með rekstri á síldarverksmiðjum, niðursuðuverksmiðju ríkisins o. fl. Það virðist því ekki óeðlilegt, að ríkið taki líka í sínar hendur rekstur til þess að hagnýta þessa framleiðsluvöru, sem fæst af landbúnaði, ullina.

Í þessu frv. er því slegið föstu, að bygging þessarar verksmiðju og starfræksla fari fram á ákveðnum stað, sem þar er til tekinn, þ. e. Hafnarfirði. Ég geng að sjálfsögðu þess ekki dulinn, að fleiri staðir koma til greina um val á stað til þessa. En að þessi staður hefur verið valinn af mér, er fyrst og fremst vegna þess, að mér virðist, að Hafnarfjörður hafi marga kosti, sem slíkur staður þyrfti að hafa, sem ullarverksmiðju væri komið upp á. Sú orka, sem þarf til þess að starfrækja slíka verksmiðju sem þessa, er þar fyrir hendi. Í öðru lagi er þar vatnsmagn nóg. Og í þriðja lagi virðist mér staðurinn vel á landi settur hvað samgöngur snertir og þá sérstaklega við Suðvesturland.

Ég skal viðurkenna fullkomlega. að mig skortir þekkingu og kunnugleika til þess að dæma um hina teknisku hlið þessa máls. Það, sem orsakað hefur það fyrst og fremst, að ég hef fundið mig knúinn til að flytja þetta frv., er að mér virðist ástandið í þessum málum vera svo slæmt, að ekki verði við unað. En vegna þessa skorts míns á þekkingu á hinni teknisku hlið málsins um byggingu þessarar verksmiðju og möguleikunum fyrir því, að hún geti borið sig fjárhagslega í rekstri, þá hef ég leitað til vel fróðs manns í þessu efni, Þorvalds Árnasonar ullarmatsmanns, sem er einn helzti sérfræðingur okkar á þessu sviði. Hans orðum um þetta hefur ekki verið gefinn nógu mikill gaumur frá mínu sjónarmiði séð. Í því áliti, sem hér liggur fyrir sem fskj. með frv., rekur hann, á hvern hátt hægt sé að koma upp þessari verksmiðju, svo og á hvern hátt hægt sé að reka slíka verksmiðju og hvað muni kosta að byggja hana. Hann hefur miðað við tilboð, sem hann hefur eftir umsögn fagmanns. Og niðurstaða hans er, að byggingarkostnaður slíkrar verksmiðju muni verða rúmlega tvær millj. kr., ef byggt er úr steinsteypu, en mun minni, ef byggt er stálgrindahús samkvæmt tilboði h/f Héðins. Verksmiðjuvélar til þessarar verksmiðju, telur hann að muni kosta eftir tilboðum erlendis frá tæpar þrjár millj. kr. Hann gerir ráð fyrir því, að stofnkostnaður við þessa verksmiðju muni verða rúmar fimm millj. kr., ef byggt er úr járnbentri steinsteypu, en annars einni millj. kr. minni, ef byggt er járngrindahús. — Um rekstur verksmiðjunnar er það að segja, að Þorvaldur Árnason gerir ráð fyrir, að þetta fyrirtæki muni geta skilað mjög verulegum hagnaði. Og í þessum rekstrarútreikningi hans, sem hér liggur fyrir, segist hann hafa gert ráð fyrir hærri útgjöldum en reikna megi með, til þess að nokkurn veginn öruggt sé, að þessi áætlun hans geti staðizt.

Ég sé svo ekki þörf á að orðlengja frekar um þetta mál, nema sérstakt tilefni gefist til. Ég tel, að hér sé um mjög mikilsvarðandi nauðsynjamál að ræða, sem hv. þm. þurfi að gefa gaum. Hér er ekki um nýtt mál að ræða, heldur er hér um að ræða tilraun til að ráða bót á þeim vanda, sem liggur fyrir hendi að leysa á þann hátt, sem flm. frv. telur haganlegt.

Vil ég mælast til þess. að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. iðnn., en vel getur þó verið, að það sé matsatriði, hvort því beri að vísa til þeirrar n. eða hv. landbn., þar sem þetta mál snertir bæði landbúnað landsins og iðnaðinn. Ég tel þó rétt, að því verði vísað til hv. iðnn., vegna þess að hér er fyrst og fremst gert ráð fyrir iðnaði.