23.02.1948
Efri deild: 67. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (2723)

62. mál, menntaskólar

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Menntmn. hefur rætt þetta mál á allmörgum fundum og í því sambandi aflað upplýsinga hjá skrifstofu fræðslumálastjóra. m. a. viðvíkjandi þeim spurningum, sem hv. 1. landsk. þm. (SÁÓ) kom fram með við 1. umr. málsins.

Ég vil fyrst svara þeim spurningum hans, sem hægt er að svara á þessu stigi málsins.

Í fyrsta lagi spurði hann um það, hve margir nemendur væru í menntaskólanum. Í menntaskólanum í Reykjavík eru 430 nemendur, þar af 64 í gagnfræðadeild, en í menntaskólanum á Akureyri 340, þar af 185 í gagnfræðadeild.

Í öðru lagi spurði hann að því, hvort þurft hefði að neita fólki um inntöku í skólana. Allra síðustu árin hefur þess ekki þurft.

Í þriðja lagi spurði hann að því, hve mikill hluti þjóðarinnar stundaði menntaskólanám. Samkvæmt upplýsingum fræðslumálaskrifstofunnar eru það um 4%. Það var líka spurt um það, hvort hlutfallstalan mundi vera svipuð hjá öðrum þjóðum, en fræðslumálaskrifstofan gat ekki gefið upplýsingar um það.

Ég vænti þess að hv. 1. landsk. þm. láti sér nægja þessar upplýsingar.

Þá vil ég víkja með nokkrum orðum að afgreiðslu n. á málinu. Skýrsla fræðslumálastjóra um það, hve mörg prósent landsbúa stunda menntaskólanám, er sundurliðuð fyrir einstaka bæi og sýslur. Sóknin til menntaskólanna frá hinum ýmsu kaupstöðum og sýslum er ákaflega misjöfn, allt frá því að vera 1,81% af íbúafjölda og niður í ekki neitt, þar sem erfiðast er að sækja. Það kemur í ljós, að fyrir norðan er hlutfallstalan í þeim sýslum, sem næstar eru Akureyri, fyrir ofan meðallag og hæst á Akureyri. Hins vegar er þetta ekki alveg sambærilegt, því að í gagnfræðadeildinni eru tiltölulega margir nemendur frá Akureyri, og hækkar það hlutfallstölu bæjarins. Aðrar sýslur á Norðurlandi eru yfirleitt líka fyrir ofan meðaltal. Hlutfallstalan á Vesturlandi og Austurlandi er mjög lág. Allar líkur benda til þess, að ástæðan sé sú, hve langt er til menntaskólasetranna frá þessum landshlutum.

Samkvæmt þessu hefur n. ákveðið að mæla með þessu frv. Hún telur, að hér sé um að ræða eðlilega þróun byggða á staðreyndum, sem þegar hafa komið fram fyrir mörgum árum, er menntaskólinn á Akureyri var stofnaður, og telur, að einnig beri að stofna menntaskóla í Vestfirðinga- og Austfirðingafjórðungi, til þess að jafna þann aðstöðumun, er nú er.

N. vildi þó ekki fallast á frv. algerlega óbreytt, en í því er gert ráð fyrir, að tveir menntaskólar verði stofnaðir strax, á Ísafirði og Eiðum, en menntaskóli í Sunnlendingafjórðungi verði stofnaður þegar fé verði veitt til þess í fjárl. N. tók þá leið að breyta þessu þannig, að stofnun allra hinna nýju skóla yrði bundin við það, að fé væri veitt til þeirra í fjárl. Það má ætla, að þetta verði framkvæmt þannig, að byrjað verði á framhalds námi og að menntaskólarnir verði stofnaðir smátt og smátt. (Forseti: Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm., hvort langt er þangað til hann hefur lokið máli sínu, þar sem ætlunin er að fresta umr.). Ég get lokið þessu fljótlega. Það verður eflaust ástæða til þess að koma nánar inn á málið síðar. Ég vil aðeins enda með að lýsa afstöðu n. Hún leggur til að menntaskólarnir verði stofnaðir smátt og smátt, en einn nm. var fjarstaddur, er þessi samþykkt var gerð, og annar hefur óbundnar hendur.

Ég mun svo ekki orðlengja þetta meira nú, þar sem hæstv. forseti hefur lýst yfir því, að fresta eigi umr.