12.02.1948
Efri deild: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í C-deild Alþingistíðinda. (2771)

66. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið borið fram hér tvisvar sinnum áður, þó að í nokkurri annarri mynd hafi verið en það er nú borið fram á þskj. 79. Á hinum fyrri þingum var það þannig, að gert var ráð fyrir að byggja sameiginlega hafnarmannvirki og fiskiðjuver í Hornafirði og að ríkissjóður kostaði hvort tveggja, þ. e., að það yrði ákveðin landshöfn þarna, sem ríkissjóður kostaði að öllu leyti, og í sambandi við hana yrði svo byggt fiskiðjuverið. En í frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 79. er aðeins gert ráð fyrir að byggja á þessum stað landshöfn á kostnað ríkissjóðs, en í því frv. er ekki gert ráð fyrir, að byggt verði fiskiðjuver þar, enda er um það sérstakt mál hér á þinginu. Það er því nú raunverulega um það að deila. hvort Alþ. vill fallast á það fyrst og fremst, að Höfn í Hornafirði verði gerð að landshöfn, og það er það, sem hv. d. því, efnislega þarf nú að taka afstöðu til í þessu máli.

Sjútvn. hefur haldið um þetta fjóra fundi, og þótti henni rétt að senda málið til umsagnar nokkrum aðilum, þótt það hins vegar hefði verið sent til umsagnar á fyrri þingum. Var það nú sent til umsagnar vitamálastjóra, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Landssambandi íslenzkra útvegsmanna. L. Í. Ú. hafði ekki sent neinar umsagnir um frv., en vita- og hafnarmálastjórinn og Farmanna- og fiskimannasambandið sendu sínar umsagnir, sem eru prentaðar sem fskj. með áliti meiri hl. n. á þskj. 324. En þess ber að gæta, að þessi bréf eru einnig svör við því, að frv. um landshöfn á Þórshöfn var sent til umsagnar þessara aðila. N. þótti ekki ástæða til að birta þessi svör á báðum þskj., en lét því nægja að vísa til þessa.

Sjútvn. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Minni hl. n. lítur svo á, að það eigi að gera landshöfn í Höfn í Hornafirði. Þetta gat meiri hl. n. ekki fallizt á. N. hefur því klofnað, og minni hl. n. gefur því út sérstakt nál. hér á þskj. 311.

Ég skal leyfa mér að geta þess. að sömu aðilar fjölluðu um þetta mál á síðasta Alþ., og þá var málið afgr. frá meiri hl. n. með till. um rökst. dagskrá. Meiri hl. n. fylgdi þá þeirri dagskrártill. og einnig hv. þm, N-Þ., sem nú fylgir hv. minni hl. n. að málum um, að það eigi að gera Höfn í Hornafirði að landshöfn, og gerir hann sjálfsagt grein fyrir því, hvers vegna hann hefur tekið þá stefnu. sem kann að vera m. a. vegna þess, að nú er þetta skilið í sundur, sem fyrr var sameiginlega borið fram, — annars vegar, að koma skuli landshöfn í Höfn í Hornafirði. og hins vegar fiskiðjuver.

Um fjárhaginn í sambandi við þessar framkvæmdir í Hornafirði er það að segja, að samkvæmt bréfi frá vita- og hafnarmálastjóra, dags. 12. febr. 1948. þ. e. í dag, þá á Hornafjörður inni hjá ríkissjóði ónotað fé nú um áramótin s. l. 310500 kr. Það eru tillög frá 1944. 1945, 1946 og 1947. Auk þess hefur vitamálastjóri lagt til, að á þessa árs fjárl. verði lagt til Hafnar í Hornafirði 100 þús. kr., sem ég get ekki sagt um á þessu stigi, hvort verður samþ. En ef svo yrði, þá hefði Höfn í Hornafirði yfir að ráða fé, sem nema mundi meira en 400 þús. kr. Það verður því ekki séð, að það standi nokkuð á fjárframlögum frá ríkissjóði til þess að halda áfram framkvæmdum á mannvirkjum á þessum stað. En það má þá frekar segja, að það standi á framlögum frá hafnarsjóði á viðkomandi stað um að leggja fram fé á móti þessum rúml. 400 þús. kr., sem væntanlega verða til á þessu ári hjá því opinbera handa þessum stað. En ef farið verður eftir hinum almennu hafnarl. um framkvæmd á hafnarmannvirkjum á þessum stað, þá liggur fyrir, að ríkissjóður ábyrgist 60% af kostnaði við allar framkvæmdirnar. Svo að hér mætti vinna að hafnarmannvirkjum á þessum stað fyrir um eina millj. kr., ef hafnarsjóðurinn á þessum stað notfærði sér ákvæði hinna almennu hafnarlaga. En til þess þyrfti hafnarsjóður að sjálfsögðu að taka lán um 600 þús. kr. með ábyrgð ríkissjóðs. Ef nú yrði horfið að því ráði að gera landshöfn á þessum stað, þá lítum við, sem erum í meiri hl. n.. svo á, að það mundi ekki hraða neitt framkvæmdum hafnarmannvirkja á þessum stað, nema síður væri. Ríkissjóður mundi tæplega láta til þessara framkvæmda á þessu ári meir en rúmar 400 þús. kr., sem fyrir eru og ég gat um. Þær mundu geta verið handbærar til þess að leggja þær fram. Og með tilliti til annarra lántaka ríkissjóðs, þá sjáum við ekki, að hægara mundi verða fyrir ríkissjóð að taka lán til þessara mannvirkja en það mundi vera fyrir aðra að taka lán til þeirra með ríkisábyrgð. Ég þekki það frá síðasta ári, að peningastofnunum hefur yfirleitt verið miklu ljúfara að hjálpa einstökum héruðum til þess að fá fé að láni til ýmissa framkvæmda, þegar það hefur verið með aðstoð þeirra peningastofnana. sem heima eiga í þeim sömu héruðum. t. d. sparisjóðanna. Mér er kunnugt um, að Suðurfjarðahreppur er búinn að taka 500 þús. kr. lán með ríkisábyrgð, og hefur fengið það í gegnum sinn eigin sparisjóð með aðstoð Landsbankans. Og hafa ráðamenn Landsbankans tjáð mér, að sú peningastofnun sé miklu fúsari til þess að styðja framkvæmdir þannig, þegar eitthvað sé lagt af mörkum heima fyrir, eins og ég hef þegar lýst hér. Nú hef ég hugmynd um. að það muni enginn sparisjóður vera til í Hornafirði. Getur hv. 8. landsk. (ÁS) vafalaust upplýst, hvort nokkur sparisjóðsdeild er starfandi þar í kaupfélaginu. Því að það hefur verið horfið að því ráði víða í héruðum landsins nú, jafnvel þar, sem sparisjóðir eru fyrir, að kaupfélög hafa sett upp sparisjóðsdeildir hjá sér og safnað þannig til sín fé og jafnvel greitt á síðasta ári sums staðar hærri vexti en sparisjóður á staðnum hefur gert, til þess að draga fé til sín. Kann að vera, að slík deild sé til í Hornafirði, en það vona ég að fá upplýst. En með tilliti til þess, að hér á ekki aðeins að vera um að ræða framkvæmdir fyrir Hornafjörð sjálfan, heldur fyrir allt Austurland, þá sé ég ekki, að það þurfi að vera erfiðleikum bundið, ef áhugi er fyrir því á Austurlandi að fá höfn þarna, að Austfirðingar gætu þá staðið saman um að útvega, með fullri ábyrgð ríkissjóðs, lán að upphæð 600 þús. kr. á móti framlagi ríkissjóðs. Og ég álít, að þessi aðferð væri miklu heppilegri fyrir staðinn en ef farið væri að ákveða með 1., að landshöfn skyldi vera reist á þessum stað. Því að það að ákveða að gera þennan stað að landshöfn er ekki það sama og að tryggja, að hafnarframkvæmdir yrðu gerðar á þessum stað, nema síður sé. Það er einmitt að mínu áliti tryggara til þess, að framkvæmd verði á þessum stað hafnarmannvirki, að gera ráð fyrir, að það verði gert undir ákvæðum hinna almennu hafnarl. Því að ríkissjóður hefur ekki látið standa á sér með að leggja fram sinn hluta, þegar um hafnarframkvæmdir hefur verið að ræða, ef héruðin gera sitt eftir þeim almennu hafnarl. Það mundi einnig sýna sig í sambandi við þennan stað. Aftur á móti væri mjög vafasamt, hvort ríkissjóður léti það ganga fyrir öðrum framkvæmdum að leggja fram 100% framlag til þessara framkvæmda beint úr ríkissjóði, til þess að hrinda þessu verki í framkvæmd. Skal ég í því sambandi benda á framkvæmd landshafnarinnar í Njarðvíkum. Þar er eina landshöfnin, sem búið er að samþykkja á Alþ. Og síðan það var ákveðið með l., að þar skyldi verða landshöfn, hafa svo að segja alveg stöðvazt framkvæmdir hafnargerðar þar. Þetta fé, sem ríkissjóður hefur talið sig geta lagt fram til þeirrar hafnar, hefur að mestu leyti verið notað til þess að kaupa upp mannvirki, sem fyrir voru og lítið sem ekkert hefur verið gert að framkvæmdum þar. Og sá hæstv. ráðh., sem hefur með þetta að gera, hefur sagt mér, að stöðva yrði þær framkvæmdir vegna féleysis. Hann hefur einnig lýst yfir við mig, að hann teldi að ekki neitt verulegt fé fengist til landshafnarframkvæmda á öðrum stöðum, fyrr en búið væri að koma þessari einu landshöfn, sem búið er að ákveða, í viðunandi ástand. Og ég álít, að það væri hreinn bjarnargreiði gerður útvegsmönnum á Austfjörðum að eiga að hverfa frá því fyrirkomulagi, sem nú er um þessi mál, og ákveða, að þarna á Hornafirði eigi að verða landshöfn.

Vitamálastjórinn sagði hér í bréfi sínu, er hann var spurður frá n., hvort hann teldi, að yfirleitt ætti að fara inn á að gera hafnir að landshöfnum, í staðinn fyrir að byggja framkvæmdir upp á hinum almennu hafnarl., — sagði hann að þar, sem svo hagaði til, að nauðsyn væri á að gera höfn vegna þjóðarbúskaparins, en hreppsfélögin væru fátæk og hefðu ekki getu til þess að framkvæma það, þá væri réttlátt að ríkið byggði hafnir og iðjuver. Nú lít ég svo á, að hafnarsjóður í Hornafirði geti sjálfur staðið undir þessu, með þeim lagafyrirmælum, sem fyrir eru. Fyrst og fremst ætti ekki að vera þörf á að fara með í framkvæmdir 5 millj. kr., eins og vitamálastjóri áætlar. Það er vel hægt að gera sæmileg hafnarskilyrði fyrir 1½ millj. kr. Það er ekki ástæða að fara inn á alla þá dýpkun, sem hann talar um. og sízt af öllu þær uppfyllingar, sem hann talaði um. Það eru fleiri staðir en Hornafjörður, sem verða að beygja sig undir það að geta ekki lokið fullkomnum hafnarmannvirkjum á einu ári. Ef það er nauðsynlegt að dýpka til þess að bátur geti haft þar viðlegu, er ekki nauðsynlegt að reikna með allri þeirri uppfyllingu, sem hann gerir, sem er 150 þús. kúbikmetrar. Það mætti draga mikið úr þeim kostnaði.

Sama má segja um hafskipabryggju. Á fyrsta ári þarf að gera bátabryggju, nægilega stóra fyrir þau skip, sem þar eru. Þá er ekki fé á einu ári nema 750 þús. kr., og verður því að byggja hana á fleiri árum, eins og annars staðar. Ég er þess fullviss, að þó að höfnin yrði gerð að landshöfn, hefur ríkissjóður ekki þegar fé til að ljúka henni á einu ári.

Það má segja, að hafnarsjóður sé enn þá svo fátækur í Hornafirði, að hann gæti ekki staðið undir vöxtum og afborgunum af þeim lánum, 600 þús. kr., sem þarf til að byrja á framkvæmdum. Sá, sem tekur að sér að ábyrgjast lán, tekur líka að sér að ábyrgjast vexti og afborganir. Og hvernig sem málið fer, virðist hagkvæmast, að héraðið heima fyrir geri þetta.

Ég vil benda á stórkostlegt atriði um reynslu í þessu, sem er í Njarðvík og víðar. Þegar búið er að ákveða að gera þar landshöfn, hækkar landið í verði og útilokað að fá það fyrir sanngjarnt verð. Nú, í Hornafirði á ríkið landið, en það hefur ekki umráðarétt yfir því. Mér skilst, að það sé leigt hjá ákveðnum aðilum, sem geti sett stólinn fyrir dyrnar. Sama eins og í kaupstöðum. Þar á ríkissjóður landið. Hver er reynslan? Sú, að ríkissjóður hefur orðið að kaupa leiguréttinn á landinu, sem það á sjálft, fyrir mikið fé. Ætli það fari ekki eins hér í Hornafirði? Með tilvísun til þeirra raka leggur meiri hl. n. til, að frv. sé fellt, en leggur hins vegar til, að fjárveitingarvaldið hér á þingi leggi þessu máli allt það lið, sem hægt er.

Eins og ég gat um áðan, eru fyrir rúm 300 þús. kr., sem ekki eru notaðar.

Ég vænti, að menn sem fylgja þessu, séu úti um, að á þessu ári verði lagt til hafnarmannvirkja á Hornafirði eins og ákveðið er til slíkra hluta.

Ég sé ekki annað en að málinu sé fullkomlega borgið, — eða betur en mörgum öðrum höfnum á landinu, sem hafa átt við mikla fjárhagserfiðleika að etja, eins og málið horfir nú við.

Ég veit ekki, hvort öllum flutningsmönnum er það ljóst, að það er til fé inni, sem er óeytt. Ég sé ekki annað en að það mundi verða til hins lakara fyrir Hornafjörð, ef horfið væri að því að samþykkja l. um landshöfn, því að það mundi tefja fyrir nauðsynlegum hafnarframkvæmdum í staðinn fyrir að flýta fyrir þeim, sem ég geri ráð fyrir, að vaki fyrir flm. Meiri hl. n. leggur því til, að frv. verði fellt.