12.02.1948
Efri deild: 60. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í C-deild Alþingistíðinda. (2775)

66. mál, landshöfn í Höfn í Hornafirði

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Hv. þm. N-Þ. hefur nú gert grein fyrir, hvers vegna hann hefur skipt um skoðun á málinu og veit ég ekki, hvort þar er um einhverja samninga að ræða og skal ekki fara út í það, en hv. þm. virðist vera í kapphlaupi, þegar hann fylgir þessu máli.

Ef menn hafa haldið, að hv. 8. landsk. þm. (ÁS) hafi borið þetta mál fram af einlægni, hljóta menn að stórefast um það nú, eftir að hafa hlýtt á síðustu ræðu hans. Ef frv. væri flutt af einlægni, þá á ekki að halda svona ræður, því að þetta var hrein pólitísk agitasjónsæða um þessi óskyldu vandamál, og held ég því, að hér sé aðeins um auglýsingastarfsemi hjá hv. þm. að ræða. — Hann talaði um, að ríkisstj. hefði ekki meiri möguleika en fátækur hreppur úti á landi. Hefur hv. þm. gleymt allri þeirri aðstoð, sem ríkissjóður hefur veitt þessum hrepp? Það liggja fyrir 300 þús. kr., sem hreppurinn getur fengið að láni með fullri ábyrgð ríkissjóðs, og 60 þús. kr. beint framlag til framkvæmdanna. Það er því sannarlega ekki um fátækan hrepp að ræða, heldur aðila, sem hefur 100% ábyrgð ríkissjóðs á bak við sig. Eru þessir menn svo vesælir að þeir vilji ekkert leggja á sig til þess að útvega það lán, sem ríkissjóður ber fulla ábyrgð á? Mér er kunnugt um það, að Landsbankinn leggur mikið upp úr því, að héruðin heima fyrir standi að framkvæmdunum og einstaklingar þar leggi sparifé sitt í þær. Það hefur verið bent á, að komast mætti langt með 600 þús. kr. láni. Mundu menn heima fyrir vilja reyna að leggja eitthvað á sig og kaupa trygg skuldabréf? Ef svo væri, mundi Landsbankinn áreiðanlega lána, en ekki, ef enginn vilji er heima fyrir nema til þess að heimta allt af ríkissjóði. Og ég spyr hv. 8. landsk.: Er honum ekki kunnugt um allar þær göngur, sem fjmrh. hefur orðið að fara til Landsbankans til að fá lán? Veit hann ekki, að nota þarf fé víðar en á Hornafirði og að það eru aðrir aðilar, sem einnig þurfa aðstoð? Ef þetta hérað hefur einhvern vilja til að leggja eitthvað á sig, hefur það nú meiri möguleika en nokkur annar staður á landinu. nema Rvík. Við skulum bara hugsa okkur, hvað aðrir hafa gert. t. d. í Bolungavík eða Ólafsvík. Hverju hafa þeir áorkað með vilja og dugnaði? En það er búið að koma því svo fyrir í Hornafirði, að enginn vill skipta sér neitt af atvinnumálunum.

Hv. 8. landsk. sagði, að ekki hefði verið hægt að greiða byggingarefni, vegna þess að Landsbankinn hefði neitað um lán. Þetta segir hv. þm. þegar fyrir liggja 310 þús. kr. til að kaupa efni. Ég fullyrð, að þetta getur ekki verið rétt, því að vitamálastjóri tilkynnti, að hreppurinn hefð1.310 þús. kr. geymt fé. Það er þá lítið traust á þessum mönnum, ef Landsbankinn vill ekki afhenda þeim féð.

Þá talaði hv. þm. um. að hér væri aðeins lagt til að byggja landshöfn, en ekki fiskiðjuver. Ástandið er nú þannig í Hornafirði, að það þarf að flytja mikið af aflanum þaðan burtu, til stórtjóns fyrir útgerðina, og þetta yrði alveg eins, þótt þarna kæmu bryggjur og uppfyllingar., í Hornafirði eru því engin skilyrði til þess að gera aflann að verðmætt, og því eðlilegast, að landshöfnin komi ekki fyrr en fiskiðjuverið hefur verið reist. Um það, hvort byggja eigi landshafnir eða hafnir skv. hafnarl., þá er það hreint prinsipatriði. Ég tel hollara að byggja eftir hafnarl., því að þá ráða aðilar heima fyrir, hvernig framkvæmdirnar verða, og hraðanum geta þeir ráðið með framlögum sínum heima fyrir, því að sjaldan hefur staðið upp á ríkissjóð og greiða sín framlög á móti.

Reynslan hefur sýnt, að það er á allan hátt heppilegast, að héruðin eigi sjálf hafnir sínar, en ekki landið. Ef landið hefði t. d. tekið Reykjavíkurhöfn, þá væri það út af fyrir sig ekki leiðinlegt. Í byrjun voru veittar til hennar 400 þús. kr., en nú er Reykjavíkurhöfn milljónafyrirtæki, sem gefur milljónir í tekjur á ári hverju. Málið liggur því svo fyrir, að ef gera á landshafnir um allt land, verða hafnirnar eign ríkisins og þangað renna síðan hafnargjöldin, en héruðin fá ekkert af þeim í hafnarsjóði. Undir þeim gjöldum mundu ekki aðeins Hornfirðingar standa, heldur allir Austfirðir, og reynslan hefur sýnt það, að í innheimtu hafnargjalda er farið eins langt og hægt er, og fyrir hefur það komið bæði á Austfjörðum og annars staðar, að reynt hefur verið að níðast á landlegubátum.

Hv. 8. landsk. þm. talaði mjög um, að hæstv. ríkisstj. hefði andúð á þessu máli. Ég hef nú ekki orðið var við slíkt. og held ég, að það sé ofmælt hjá hv. þm. Er það andúð ríkisstj., ef hún greiðir úr ríkissjóði 300 þús. kr. til þess að reka iðjuver í Höfn í Hornafirði? Það merkilega er, að hæstv. ríkisstj. virðist hafa mikla samúð með Hornfirðingum, þrátt fyrir ágalla þeirra.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að út af Hornafirði væru fiskimið mjög auðug, en mannvirki væru léleg og ófullkomin í landi til nýtingar aflans. Þetta virðist nú lítið koma máli þessu við, sem hér er um rætt, og það er ekkert skilyrði, sem mælir með því að byggja landshöfn í Hornafirði, þó að auðug fiskimið séu úti fyrir. Alþ. hefur þegar viðurkennt, að nauðsyn sé að bæta lendingarskilyrði með því að styrkja hafnargerð þar. Það breytir því ekki neinu um fiskimiðin, þau eru viðurkennd. En það, sem hér greinir á um, er það, hvaða leið skuli farin.

Höfuðrökin, sem færð eru fyrir landshöfn í Höfn, eru þau, og ekki önnur en þau, að menn vilja ekki leggja á sig þær byrðar og bera sinn kross sem önnur héruð. Þetta er einna líkast því, sem kom fyrir á Eskifirði, þegar Eskfirðingar vildu ekki setja niður kartöflurnar, sem ríkisstj. sendi þeim um árið, en seldu þær suður allar, þar sem þær voru étnar.

Hv. 8. landsk. fullyrðir, að fiskimiðin út af Hornafirði verði ekki notuð, ef þetta frv. verður ekki samþ. Ég mótmæli þessu. Fyrsta skrefið er að koma upp atvinnutækjunum og koma þeim í gang. Nú er þar ekkert nema lélegar verbúðir. Það er ekki einu sinni frystihús þar. Nú eru 70 starfandi frystihús í landinu. Hvernig stendur á því, að Hornfirðingar hafa ekki haft manndóm í sér til þess að koma sér upp frystihúsi eins og önnur héruð? Þá hefur vantað víðsýni. Hún hefur nú ekki verið meiri en þetta. Þeir hafa ekki haft manndóm í sér til þess, þó að þeir búi við mjög auðug fiskimið, og því er Hornafjörður í aumingjaskap. Fyrsta skilyrðið til þess, að réttmætt sé að byggja þar höfn, er það að í landi séu mannvirki, sem vinni úr aflanum. Hafnarbygging hlýtur að stranda, þar til einhver vegur er til þess að hagnýta aflann, er á land kemur.

Hv. 8. landsk. segir, að hreppurinn hafi ekki fjármagn til þess að standa undir hafnarbyggingu. Ég vil benda á, að það er fé ríkissjóðs, sem ráðstafað er. Ef Hornfirðingar eru þeir vesalingar, að þeim er ekki treystandi til þess að ráðstafa fé ríkissjóðs, þá er þeim vart bjargandi. Ríkissjóður leggur fram 40% kostnaðar við byggingu hafnar, samkv. 1. um hafnargerðir, en eftirstöðvunum, eða 60%, gengur ríkissjóður í ábyrgð fyrir. Hv. þm. virðist ekki treysta Hornfirðingum, en nokkuð finnst mér varhugavert af 8. landsk. að mæla svo.

Hv. frsm. minni hl. færði fram þau rök á móti mínum, að ég hefði barizt fyrir, að byggð yrði þurrkví í Rvík. Ég vil benda hv. þm. á það, að Rvík er heimilað með hafnarl. að fá 40% ríkisstyrk til byggingar á þurrkví, sem mun kosta um 15 millj. kr. Ég nefni þetta vegna þess, að fyrir Reykjavíkurhöfn liggja framkvæmdir, sem kosta munu 12 millj. kr., og Rvík fær enga aðstoð til. Ef Rvík fengi 40% þessa fjár úr ríkissjóði, sem þarf til hafnarbygginga, og 60% lánað á ábyrgð ríkisins, þyrfti ekki mikið fé til þurrkvíar í Rvík. Rvík kemst af vegna mikilla tekna af hafnargjöldum. Þessar tekjur af höfninni hefur Rvík notað til þess að stækka og endurbæta höfnina smátt og smátt. Til sama er ætlazt af Hornfirðingum. Og þar sem höfn í Hornafirði mundi verða notuð af flestum þeim bátum, sem stunda veiðar á þessum miðum, ættu tekjurnar af höfninni ekki að verða svo litlar. — Hv. þm. talaði um, að hreppsfélagið hefði nóg að gera með peninga sína. Það kemur ekkert þessu máli við, þó að hreppurinn hafi ómagaframfæri og önnur útgjöld sem önnur hreppsfélög. Það er allt annað mál. Hér er um tvennt að ræða með aðskildu reikningshaldi, og ef hreppurinn getur ekki staðið undir ómagaframfæri sínu, þá er ekki að furða, þá að Landsbankinn vilji ekki lána nema ríkisstj. skrifi á víxil fyrir öllu saman.

Þá lagði hv. frsm. minni hl. mikið upp úr ummælum, sem borizt hafa frá vitamálastjóra, en þau eru nú ekki alltaf positív, og ég get ekki annað séð en ummæli vitamálastjóra geti gert máli hv. 8. landsk. skaða, sé farið eftir till. hans, og er ekki nema rétt að birta hér ummæli vitamálastjóra, þó að það sé ekki í hag hv. þm.

Í bréfi, sem vitamálastjóri sendi fjvn. í haust, tekur hann alls ekki Höfn í Hornafirði í 1. flokki, en leggur til, að nokkrar hafnir fái hækkun á ríkisframlagi úr 209 þús. kr. í 250 þús. kr., en Höfn í Hornafirði 100 þús. kr. Álit vitamálastjóra rekst því nokkuð á það, sem segir til um í nál., og ég er viss um, að bygging hafnar í Höfn mundi taka skemmri tíma, ef framkvæmdir fara eftir almennu hafnarlögunum, en ef ákveðið yrði, að um landshöfn væri að ræða.

Hvað viðkemur ummælum hv. 8. landsk. um það, að hæstv. samgmrh. hefði andúð á málinu, þá er enginn snefill fyrir þeirri staðhæfingu. Hæstv. ráðh. hefur einmitt samúð með málinu, en telur því bezt borgið undir hinum almennu hafnari., sem ég og fleiri aðilar, sem sent hafa umsagnir sínar. Frá Fiskifélaginu hefur borizt sú umsögn, að það sé skoðun þess, að ekki eigi almennt að framkvæma hafnargerðir sem landshafnir, heldur undir hinum almennu hafnarl. Það er stundum vitnað í ummæli þessara aðila, sem ég hef minnzt hér á, en stundum ber nú skoðunum þeirra ekki saman við það, sem stendur á öðrum skjölum. Stjórn Fiskifélagsins leggur t. d. til, að ekki verði horfið frá þeim ákvæðum, sem segir á hinum almennu hafnarl. Þegar l. voru til umr. og afgreiðslu á Alþ., voru þau þrauthugsuð, og þá var talað um að setja inn í þau ákvæði um 1. flokks landshafnir, sem Alþ. gat ekki fallizt á, og er ekki heppilegt, að fleiri landshafnir verði samþ., þó að byggð verði landshöfn í Njarðvíkum. Umsögn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands um það, hvar kæmu til greina landshafnir, var sú. að þeir bentu á Akranes, Skagaströnd, Þórshöfn, Húsavík og Vestmanneyjar, en Höfn í Hornafirði kom ekki til greina. — Ég er ekki að minnast á þetta vegna þess, að þessar till. séu einhlítar, eða til þess að færa þetta fram sem sterk rök. Þvert á móti. Ég bendi aðeins á það, hve umsagnirnar geta verið mismunandi og að einn aðili rífur niður það, sem annar byggir upp.

Ég skal ekki deila frekar um þetta. Mál þetta er vel upplýst og liggur mjög ljóst fyrir. Hér er aðeins deilt um það, hvort víkja eigi frá þeirri stefnu, sem Alþ. hefur þegar tekið, eða ekki. — víkja frá héraðshöfnum í landshafnir. Um þetta munu atkv. ganga og úr skera, og ég vil mælast til þess við hæstv. forseta, að hann fresti atkvgr. um málið, þar eð svo fáir þdm. eru viðstaddir. Það er réttast í svo stóru máli sem þessu, að sem flestir þdm. séu viðstaddir, er málið er borið upp til atkv., svo að þingviljinn komi sem allra skýrast í ljós og álit einstakra þm.