20.12.1947
Efri deild: 43. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Það er aðeins í sambandi við ummæli, sem fram komu við brtt. við 14. gr., sem ég ætla að segja nokkur orð. Mér virðist, að hjá samherjunum, hv. 1. þm. N-M. og hv. þm. Barð., gæti nokkurs misskilnings. Sérstaklega virtist mér hv. þm. Barð. leggja mikla áherzlu á það, að ef þessi till. yrði samþ., mundu allir þeir, sem starfa utan heimilis síns, njóta góðs af hlunnindum þeim, sem hún gerir ráð fyrir, og virtist mér hv. þm. setja það fyrir sig, að þessi hlunnindi kæmu starfsfólki sjúkrahúsanna að gagni. (GJ: Ég nefndi það bara sem dæmi.) Hv. þm. segist hafa tekið það sem dæmi, en hann setti það fyrst og fremst fyrir sig.

Ég get sagt það, að mér er ekki fullkomlega kunnugt, hvernig hagar til í sjúkrahúsum landsins um þessa hluti, en eftir því sem ég bezt veit, þá á starfsfólk sjúkrahúsanna þar heimili. Þar borðar það, og þar hefur það íbúð. Það starfar því ekki utan heimilis síns. Eftir því sem ég bezt veit, er þessi regla tvímælalaus. Mér er þetta dálítið kunnugt, þar sem ég hef orðið að fara inn í íbúðir þessa fólks til þess að meta þær til peningaverðs. Mér er kunnugt um, að á kleppi og Kópavogi býr það. Þetta fólk býr því a heimili og mundi ekki falla hér undir.

Þá minntist hv. 1. þm. N-M. á hróplegt ranglæti, sem skapaðist með þessari brtt. Hann talaði um, að samkvæmt þessari till. ætti að draga fæðispeninga frá þeim mönnum, sem störfuðu utan heimilis. Þarna á ekki að draga frá, en hins vegar á að láta vera að bæta við.

Annars vil ég segja það, að till., eins og hún var í frv. upphaflega, var ranglát, en það ranglæti er leiðrétt með brtt., eins og hún liggur fyrir. Frv. gerir ráð fyrir, að þeir einir, sem teljast forsjármenn heimilis, skuli falla hér undir. Við sjáum dæmin, ef við lítum um borð í skip. Þar vinna menn hlið við hlið, en frv. gerir ráð fyrir, að þar skuli menn dregnir í dilka eftir því, hvort þeir teljast vinna fyrir heimili eða ekki. Það er gert ráð fyrir, að skipshöfnin sitji ekki öll við sama borð. Þetta finnst mér ranglátt. Mér finnst, að skipshöfnin eigi öll að meðhöndlast eins.

Hv. 1. þm. N-M. taldi, að erfitt yrði að framkvæma þessa till., ef hún yrði samþ. Mér finnist það vera að snúa hlutunum við. Ef till. verður felld, verða erfiðleikar á framkvæmdum, en ef hún verður samþ., lagast þetta. Það verður matsatriði, hvenær maður teljist forsjármaður heimilis, allur vafi í þeim efnum verður talinn skattgreiðanda í hag. Þarna eru markatilfelli, sem mundu valda erfiðleikum eða deilum, en með till. er línan dregin hrein, þannig að þar eru engir erfiðleikar.

Hv. 1. þm. N–M. segir, að oft sé erfitt að komast fyrir það, hvort til fæðishlunninda sé stofnað utan heimilis eða ekki. Þetta er misskilningur. Skattan. á að vita um heimilisfesti skattgreiðandans, þannig að þetta er ekki erfitt.

Ég get ekki séð, að brtt., sem hér liggur fyrir, hafi í sér fólgna hættu, og það, sem hv. þm. Barð. talaði um í sambandi við hjúkrunarfólkið og starfsfólk spítalanna, eru smámunir. Það mundi ekki verða nema um 10–12 þús. kr. á ári, svo að það er smáræði eitt, auk þess sem svo virðist, að þetta falli ekki undir l. Ég sé ekki nokkra hættu í að samþykkja þessa till., og hún mundi ekki baka ríkissjóði neitt tjón. Það er réttlátt að hafa málið svona, en ekki erfitt í framkvæmd.