01.03.1948
Efri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í C-deild Alþingistíðinda. (2816)

73. mál, bindindisstarfsemi

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég get lýst yfir hvað mig snertir og meðnm. mína í allshn., að við höfum ekkert á móti því, að brtt., sem við höfum lagt fram, bíði til 3. umr. og get ég óskað þess þá, að það verði gert.

Ég ætla að taka mér betri manna dæmi og fara ekki að skattyrðast við hv. 3. landsk. (HV). Hann má ekki heyra brennivín nefnt, og það var varla brennivín nefnt, þegar hann þaut upp. Ég held, að slík uppþot hrindi ekki áfram byggingarmálum templara eða öðrum góðum málum.

Ég sé ekki, að ástæða sé til að ætla, að áhugi fari vaxandi hjá templurum fyrir brennivínssölu ríkisins, þó að þetta frv. verði að l., því að ég geri ekki ráð fyrir, að þeir séu svo skapi farnir, að ef þeir fá nokkrar krónur, þá agiteri þeir fyrir því, að það sé sem mest drukkið. Ég væni ekki heiðarlega templara um þá hluti.

Nú koma þessar brtt. hér ekki til atkvgr. í þetta skipti, og því er ekki ástæða til að skattyrðast neitt nú um þessa hluti sérstaklega. Mun ég geyma mér að svara frekar hv. 3. landsk. þm., þangað til við 3. umr. málsins. En eftir því sem keypt er fyrir meira fé vín, þá er hætt við því, að starfið verði meira fyrir þá menn, sem vilja halda uppi reglu og bindindisstarfsemi í landinu, og því er eðlilegt, að í því tilfelli fái þessir starfsmenn meira fé í hendur til starfsemi sinnar.

Við í meiri hl. n. tökum brtt. okkar aftur til 3. umr.