02.03.1948
Efri deild: 72. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í C-deild Alþingistíðinda. (2916)

140. mál, fiskiðjuver í Höfn í Hornafirði

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson) :

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft þetta mál til meðferðar og afgreiðslu og haldið um það nokkra fundi og ekki getað orðið sammála um afgreiðslu málsins. Hv. 6. landsk. þm. (StgrA) vill láta samþykkja frv. óbreytt. og hefur hann gefið út sérálit um málið á þskj. 413 og mun gera grein fyrir sinni afstöðu í málinu. Hann vill láta samþykkja frv. óbreytt. En á það gat meiri hl. n. ekki fallizt.

Mál þetta var fyrst flutt á Alþ. hér á síðasta þingi og þá í sambandi við landshöfn í Hornafirði. Á þessu sama þingi var einnig flutt frv. um fiskiðjuver ríkisins á Ísafirði. Og enn fremur var þá flutt frv. um fiskiðjuver ríkisins. En þessi mál náðu engin fram að ganga.

Árið 1945 hóf fiskimálan. byggingu á fiskiðjuveri ríkisins hér í Rvík. Það var að vísu mjög dregið í efa, hvaða heimild fiskimálan. hefði til þess að ráðast í þá starfsemi, sem hún gerði þá á kostnað fiskimálasjóðs eða þess fjár, sem fiskimálan. hafði þá með höndum. En fiskimálan. mun þó telja, að hún hafi haft þá heimild í 14. gr. l. nr. 75 frá 1937. En þar er tekið fram, með leyfi hæstv forseta:

„Ríkisstjórninni er heimilt að veita stofnunum, félögum og einstaklingum lán eða styrk úr fiskimálasjóði til þess er hér greinir: 1. að koma á fót niðursuðuverksmiðjum fyrir sjávarafurðir eða styrkja niðursuðuverksmiðjur, sem fyrir eru: 2. að kaupa hraðfrystitæki í þau frystihús, sem samkvæmt áliti ráðherra og fiskimálanefndar eru vel sett og hæf til þess að frysta fisk til útflutnings; 3. að styrkja félög sjómanna, verkamanna og annarra til að kaupa í tilraunaskyni togara með nýtízku vinnslutækjum o. s. frv.: 4. að gera tilraunir til veiða með nýjum aðferðum eða nýjum veiðarfærum og leita nýrra aflamiða; 5. að verka fisk eða aðrar sjávarafurðir með nýjum aðferðum, leita nýrra markaða“ o. s. frv.

Það er tekið miklu nánar fram hér í l., til hvers má verja fé fiskimálasjóðs, en í aðaldráttum er verksviðið eins og ég hef tekið hér fram. — Í 5. tölul. þessarar gr. er enn fremur tekið fram: „Ríkisstjórninni er heimilt, ef henta þykir, að fela fiskimálanefnd einni ýmsar framkvæmdir samkvæmt framanskráðu, eftir nánari fyrirmælum ráðherra.“ Þetta er í raun og veru sú eina veika heimild, sem stjórn fiskimálanna hafði til þess að ráðast í þetta milljónafyrirtæki sem fiskiðjuver ríkisins er. Og það hefur mjög verið deilt um það, hvort ekki gæti talizt, að það þyrfti að fá aðra og meiri heimild til þess að koma slíku fyrirtæki á stofn. En út í það skal ekki farið nánar hér.

Kostnaður við stofnun þessarar stofnunar er hvorki meiri né minni en um 8 millj. kr. Og það hefur aldrei verið leitað annarra heimilda Alþ. fyrir þessum fjárútlátum heldur en þeirra, sem ég hef þegar lesið upp úr 14. gr. fyrrgreindra l. — Skuldir fiskiðjuversins í lok októbermán. s.l. munu hafa verið samkv. reikningum um 7.7 millj. kr. Og mér þykir rétt að lesa hér nokkuð upp, hvernig þessar skuldir skiptast hjá stofnuninni, með leyfi hæstv. forseta. Það er þá fyrst, að tekið hefur verið sem stofnlán lán hjá fiskimálasjóði 750 þús. kr. Fiskimálasjóður hefur fyrst lánað til þessarar stofnunar 750 þús. kr. og síðar annað lán, 515 þús. kr. Síðan hefur stofnunin fengið þriðja lánið, kr. 730689,85. Svo hefur fyrirtækið fengið lán, sem það skuldar, úr Stofnlánadeild sjávarútvegsins, og ég sé ekki, hvaða heimild er til þess. En úr stofnlánadeildinni hefur fyrirtækið fengið að láni kr. 3333000,00. Þá er eitt lánið víxill í Landsbankanum upp á kr. 800000,00, sem ríkið mun ábyrgjast, eftir upplýsingum, sem ég hef fengið. Svo er skuld við styrktar- og lánasjóð fiskiskipa 400000.00 kr.

Auk þess er skuld við ríkissjóð kr. 301817,00 og skuld við bæjarsjóð Reykjavíkur kr. 150000,00 Þessar skuldir er alls samtals kr. 6980506,85.

Allar þessar skuldir eru til komnar fyrir byggingarkostnað iðjuversins. En auk þess eru rekstrarlán, sem fyrirtækið skuldar, upp á 992600,00 kr. við Landsbankann, sem mér skilst, að ríkissjóður sé ábyrgur fyrir að mikla eða öllu leyti.

Þessar upplýsingar eru gefnar upp 27. ágúst 1947, og munu liðir þessarar skýrslu hafa eitthvað breytzt eða færzt til síðan. Byggingarkostnaður er 31. okt. 1947 alls 7705622,91. En þar er meðtalinn rekstrarhalli, sem orðið hefur á fiskiðjuverinu, 55 þús. kr. En auk þess eru óunnar aðkallandi framkvæmdir við fiskiðjuverið fyrir rúml. eina millj. kr., eftir því sem hér er upp gefið frá fiskiðjuverinu. Eftir upplýsingum, sem fyrir liggja, hefur fiskiðjuverið átt í mjög miklum fjárhagslegum erfiðleikum, sem heldur er ekki að furða sig á, þar sem svo mikil vaxtabyrði hlýtur að hvíla á fyrirtækinu, þegar tekið er tillit til allra þeirra lána, sem ég hef þegar bent á.

Með ráðherrabréfi, sem gefið var út í byrjun febrúar 1947, er gerð sú skipan, að þáv. hæstv. sjútvmrh. skipar sérstaka stjórn til þess að annast rekstur fyrirtækisins, sem þá um leið er gert að sérstöku fyrirtæki með sjálfstæðu bókhaldi, en þeir, sem áður höfðu stjórnað fiskimálan., voru skipaðir í stjórn fyrirtækisins. Hvað sem segja má um þá heimild, er ég ræddi um áðan og taldi vafasama, þá var engin lagaheimild til þessarar ráðstöfunar, að reka þessa stofnun sjálfstætt. Til þess var alls engin heimild. En með l. nr. 89 23. maí s. l. er fiskimálan. lögð niður og skv. 1. gr. þeirra 1. getur ráðh. falið stjórn fiskimálasjóðs störf fiskimálan. Í nóvember s. l. er svo enn gefið út bréf þess efnis, að þeir, sem fari með stjórn fiskimálasjóðs, fari einnig með stjórn þessa fyrirtækis, en fyrir því var heldur ekki heimild. Það má því segja, að fyrirtækið sé í hrakningum, rekið heimildarlaust á kostnað ríkissjóðs. Nú hefur þetta ekki hjálpað neitt til við reksturinn, enda hefur verið erfitt að afla rekstrarfjár til fyrirtækisins, og er það raunar ekki að undra, þegar svona er um hnútana búið, í stað þess að setja heildarlöggjöf um reksturinn. Reksturinn hefur líka orðið þannig, að fyrirtækið hefur orðið að selja út eða ráðstafa ýmsum þeim umbúðum. sem það þurfti á að halda, vegna þess að það gat ekki leyst þær út sökum fjárskorts. En umbúðir eru eitt af því allra nauðsynlegasta fyrir slíkt fyrirtæki, og sýnir þetta ljóslega, hvernig reksturinn gengur. Að öðru leyti hefur fiskiðjuverið einhverja þá beztu aðstöðu, sem fengin verður hér á landi. Það hefur ágæta höfn og nægilegt hráefni að vinna úr allt árið um kring, ýmist þorsk, flatfisk eða síld. Það hefur beztan aðgang að vinnuafli, því að vinnuframboð er hér langmest, svo að ég held, að hvergi sé hægt að benda á stað með hagkvæmari skilyrði. Þá hefur það einnig fyrstu útskipunar- og uppskipunarhöfn, og þarf því ekki að reikna með umhleðslukostnaði, en samt sem áður er rekstrarhallinn 31. okt. s. l. 55 þús. kr. og fjárhagurinn eins og ég hef lýst. Enn þarf að verja stórfé til fyrirtækisins, ef það á að kallast starfhæft. — Þegar þetta er borið saman við Höfn í Hornafirði, þá er aðstaðan þar öll önnur og lakari. Þar eru að vísu nóg verkefni, meðan vertíð stendur, en það er þó ekki nema 4–5 mánuði ársins í hæsta lagi. Þó skal ég ekki fullyrða um, hvað verða mætti, en svona hefur það verið, og vera má, að eitthvað aflist þar á öðrum tíma ársins en vetrarvertíðinni, en fyrir því er ekki fengin reynsla. En þó svo væri að nægilegt hráefni fengist allt árið, þá er hitt augljóst, að öll önnur skilyrði eru þar verri. Hafnarskilyrði eru mun lakari og umskipun verður alltaf kostnaðarsöm. Þá er miklu erfiðara að fá vinnufólk og mjög erfitt að staðbinda sérfræðinga á þessum stað. Um það verður því ekki deilt, að aðstaðan er öll miklu verri en hér í Reykjavík, og rekstur fiskiðjuvers yrði því enn óhagstæðari þar. Nú er gert ráð fyrir því í 1. gr., að þetta hraðfrystihús skuli geta fryst um 30 tonn af flökum miðað við 8 klst. vinnu, og verður þá helmingi stærra en hraðfrystihús fiskiðjuversins hér eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið hjá dr. Jakob Sigurðssyni, því að hraðfrystihúsinu hér er ætlað að frysta 30 tonn miðað við 16 klst. vinnu. Þá á niðursuðuverksmiðja þess fiskiðjuvers, sem hér er lagt til að reist verði, að geta soðið niður um 10 tonn á sama tíma, og er það svipað því, sem er í niðursuðuverksmiðju fiskiðjuversins hér. Þá kemur til greina, hvort ekki þurfi enn stærri geymslur þar, því að líklegt er, að útskipun þaðan verði ekki eins ör og héðan, og er því auðséð, að þetta fyrirtæki mundi að minnsta kosti kosta 3 millj kr., en ekki 4 millj. kr., eins og gert er ráð fyrir í 2. gr. Þá bendi ég á, að í 6. gr. er ætlazt til þess, að fyrirtækið kaupi hráefnið af þeim, sem afla þess, eða útgerðarmönnum og sjómönnum fyrir verð, er miðist við markaðsverð, að frádregnum nauðsynlegum kostnaði, sbr. 8. gr., en 8. gr. kveður svo nánar á um þennan kostnað, — en hann er í fyrsta lagi allur venjulegur rekstrarkostnaður, í öðru lagi fyrningargjald, í þriðja lagi 2% gjald af keyptu efni í varasjóð og í fjórða lagi skattar og útsvör. Með öðrum orðum, að fiskimenn fái ekki annað en verðmætið sem út úr rekstrinum fæst. Áhættan er lögð á þá, sem selja aflann, og segi ég ekki, að það sé óeðlilegt, en þá er bara engin trygging fyrir því, að þeir vilji láta aflann. Það gæti svo farið, að ekki fengist nema hálfvirði fyrir hann. Hygg ég því, að fljótt kæmu fram kröfur um að afkoma þeirra, sem hráefnisins afla, yrði tryggð, ef frv. þetta verður að l. Það er staðreynd, að hér eru nú um 70 hraðfrystihús víðs vegar um landið, og eru þau ýmist í eign einstaklinga eða félaga, byggð með aðstoð hins opinbera. Hafa þeir, sem reist hafa slík hraðfrystihús, fengið hagstæð lán hjá fiskveiðasjóði, fiskimálasjóði og stofnlánadeild sjávarútvegsins, og hefur hið opinbera yfirleitt kostað kapps um að styðja slíka starfsemi. Að svo mörg hraðfrystihús hafa risið upp á síðustu árum, er annaðhvort af því, að um stórgróðafyrirtæki hafi verið að ræða, eða þá að styrkur hins opinbera hefur verið mikill, og hygg ég, að það síðara hafi jafnan ráðið. Í sambandi við hraðfrystihúsin hafa og verið reistar lýsisbræðslur og fiskimjölsverksmiðjur, eins og nauðsynlegt er. Sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að þróunin geti orðið sú sama á Hornafirði, — og að sjálfsögðu ber því opinbera að styrkja slíka starfsemi þar sem annars staðar. Þá vil ég taka það fram, að sumir nm. telja, að með þessu frv. sé farið inn á nýja braut. Það er ljóst, að fjöldi staða muni telja sig hafa aðra eins kröfu um fiskiðjuver eins og Hornafjörður. Ég bendi t. d. á Bolungavík. Þar verður ekki deilt um aflaskilyrði, því að þar fæst aflinn allt árið um kring. Sama má segja um Húsavík, Ólafsfjörð, Dalvík og Þórshöfn og svo ýmsa staði á Vesturlandi aðra en Bolungavík, og á öllum þessum stöðum væri það geysimikið atriði, ef ríkisstj. setti þar upp 4 milljóna króna fiskiðjuver án nokkurra skuldbindinga héraðanna — ég held við þær 4 milljónir, sem frv. gerir ráð fyrir, þótt ég hafi sýnt fram á, að verkið muni kosta a. m. k. 8 milljónir. — Það er eðlilegt, að reynt yrði að reka þetta á einhvern hátt, þar sem ½% brúttó arður rennur beint inn í hreppinn, og er þetta ekki svo lítill hagur. Ég gæti t. d. trúað, að þm. G-K. þætti ekki afleitt, ef ríkið setti upp fiskiðjuver í Grindavík, Sandgerði og Keflavík.

Það má segja, að ekki sé meiri áhætta að byggja fiskiðjuver en t. d. síldarverksmiðjur, en bæði er það, að rekstur síldarverksmiðja ríkisins hefur farið alla vega, og er t. d. alveg vafasamt, að tekjur séu af rekstri þeirra í vetur, og ýmis ríkisrekstur gengur ekki betur en hjá einstaklingum, t. d. var 150 þús. kr. tap s. l. ár á rekstri samgangna milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, og var þetta þó eitt af allra eftirsóttustu sérleyfunum fyrir fáum árum og talið, að einn af bílakóngum landsins hafi grætt mest á þessari leið: En nú er 150 þús. kr. tap. Áður hef ég minnzt á önnur dæmi, og tel þau ekki upp, en þeir menn, sem telja varhugavert, að ríkið fari langt inn á þessi svið, hafa markað að nokkru af því afstöðu sína til þessa máls. Með tilvísun til þess, sem ég hef rakið, og með tilvísun til þeirrar skoðunar meiri hl. n., að risið geti á Hornafirði atvinnufyrirtæki með aðstoð hins opinbera eins og annars staðar, þá legg ég til, að málið verði afgreitt með rökstuddri dagskrá, er hljóðar svo:

Með því að ljóst er, að skilyrði til að reka fiskiðjuver í Hornafirði á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í frv., eru á margan hátt lakari en þau, sem fiskiðjuver ríkisins í Reykjavík á nú við að búa, en það á samkv. gögnum, sem fyrir liggja, í mjög miklum fjárhagslegum örðugleikum, og í trausti þess, að athugað verði, á hvern hátt annan ríkissjóður geti veitt útgerð í Hornafirði fjárhagslega aðstoð, er að gagni mætti koma, en væri ríkissjóði ekki jafnfjárfrek og áhættusöm, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.