20.12.1947
Sameinað þing: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (3009)

124. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti. Það er nú næstum komið fram að jólum og þm. þeir, sem búa utan bæjarins, óska að sjálfsögðu eftir því að geta komizt til heimila sinna, áður en jólin byrja. Það var því einsætt, að fundum þingsins yrði ekki haldið áfram lengur nú að þessu sinni. Hins vegar hefur ríkisstj. orðið þess vör, að margir þm., sem búa utanbæjar, vildu gjarnan hafa nokkru rýmri tíma en fram yfir nýár til þess að annast skyldustörf sín hver á sínum stað, ekki sízt í sambandi við áramótin. Eins er ríkisstj. það ljóst, að áður en verulega geta hafizt störf um fjárl. á Alþ., þarf að gera á þeim mjög miklar breyt. í sambandi við þau l., sem voru afgr. héðan frá Alþ. í dag um dýrtíðarráðstafanir. Bæði fjmrn. og eins fjvn. þurfa því að hafa með höndum allmikinn undirbúning, og af þessum ástæðum öllum þótti rétt að leggja til, að það verði ekki ákveðið, að Alþ. komi saman til funda fyrr en um 20. jan. En samkvæmt 23. gr. stjskr. má ekki fresta fundum Alþ. lengur en 14 daga í senn og ekki nema einu sinni á ári, án þess að Alþ. sjálft samþ. Ég hef því leyft mér að leggja til, að till. sú, sem hér liggur fyrir, verði nú afgr. og ákveðið verði, að frá deginum í dag skuli störfum þingsins frestað um sinn og það kvatt saman til funda eigi síðar en 20. jan. n. k.

Vil ég vænta þess, að hv. alþm. geti orðið þessari till. samþykkir og hún nái fljótt að ganga gegnum hæstv. Alþ.