20.12.1947
Sameinað þing: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (3131)

39. mál, gjaldeyrir til námsmanna erlendis

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég bjóst við, að n. mundi taka eitthvert tillit til þeirra óska, sem ég bar hér áður fram, um að hún aflaði sér upplýsinga í málinu. Ég benti þá á það, að þegar gjaldeyrir væri eins takmarkaður og hann er nú, þá væri mikil spurning, hvort ætti að láta gjaldeyri til náms, sem væri víst, að íslenzka þjóðin í náinni framtíð hefði ekkert með að gera. Ég benti þá á, að nú væri erlendis einn kjarnorkufræðingur, sem ríkið hefði styrkt. Eigum við að styrkja fleiri? Ætlum við okkur að setja upp einhverja þá stofnun eða starf, að við þurfum að fá fleiri? Það er ýmislegt fleira, sem má telja upp. Þess vegna álít ég, að bæði af þeim, sem úthluta styrknum til framhaldsnáms, og hinum, sem úthluta gjaldeyrinum, þurfi að taka tillit til þessa. Ég veit ekki til, að nokkurs staðar sé til yfirlit yfir það, í hvaða námi menn eru nú erlendis. Það er helzt hjá upplýsingaskrifstofu stúdentaráðs, hjá Lúðvík Guðmundssyni, og er þó fjarri því, að hann hafi um það fullkomna skrá. Þetta þarf að liggja fyrir, og þetta þurfa þeir menn, sem úthluta gjaldeyrinum og styrkjunum, að vita og taka eftir því afstöðu, þegar þeir taka ákvarðanir um veitingu styrkja. Nú er það svo, að á annað hundrað Íslendinga er við nám erlendis og a. m. k. þriðjungur þeirra gæti stundað nám hér heima. Ef þessi till. verður samþ. eins og hún liggur fyrir, yrðu þeir menn að hætta, sem stundað geta nám hér heima, en þeir eru margir, á því er enginn vafi. En þetta þætti mér ekki eðlilegt, þó að við viljum ekki byrja á því að styrkja nýja námsmenn til náms erlendis, ef þeir geta stundað það hér heima. Það er tvennt ólíkt, hvort veittur er styrkur til manna, þó að þeir geti stundað það hér heima, ef þeir eru byrjaðir á því og kannske komnir langt með það, eða láta nýja menn fara á stað með nám, sem þeir geta stundað hér heima.

Þá vil ég enn benda á það, að það er mjög misjafnt, þó að í sama landi sé, hvað námskostnaðurinn er mikill. Ég átti tal við námsmann, sem kom heim frá Ameríku í gær. Hann sagði, að gjaldið, skólagjaldið, væri frá því að vera ekki neitt og upp í 450 kr. á mánuði. Þess vegna er ekki hægt að miða við það eitt, í hvaða landi maðurinn er, heldur, hvaða aðstöðu hann hefur fengið í skólanum, sem hann stundar nám við.

Ég er mjög hræddur um það, hvort sem menntamálaráð verður sett sem nokkurs konar ráðgjafi, milliliður. eða ekki, að breyta þurfi vinnubrögðunum í þessari n., til þess að þessum gjaldeyri geti orðið úthlutað sæmilega vei og réttlátlega. Og ég er viss um það, að till., eins og hún er orðuð hér, veitir ýmsum þeim mönnum, sem eru við nám erlendis, sem hægt er að stunda hér heima, mjög mikið óhagræði, því að þeir verða þá að svelta, þar til þeir fara til sendiherranna og þeir láta þá hafa fyrir heimferðarkostnaði. Þessir menn geta ekki fengið styrk eða yfirfærslu, ef till. verður samþ.

Ég hefði því helzt af öllu talið heppilegast, að umr. um málið yrði frestað og n. fengi tíma til að verða við ósk menntmrh. um að ná saman mönnum, sem hefðu með þetta að gera, svo að þeir geti borið bækur saman, því að það er engin afsökun út af fyrir sig, að form. n. hafi haldið, að menntmrh. hefði svo mikið að gera, að hann hefði ekki tíma til að koma á fund.