20.10.1947
Sameinað þing: 10. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (3277)

25. mál, Keflavíkurflugvöllurinn

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil að þessu sinni vera mjög stuttorður. Fyrir helgina svaraði ég fyrirspurnum hv. þm. Siglf. um innheimtu flugvallargjalda. Hv. þm. spurði, hvort borgað hefði verið gjald af benzíni og einnig lendingargjald, og svaraði ég, að svo væri. Nú er skylt að geta þess, að ég fékk um þetta rangar upplýsingar. Búið er að borga lendingargjöldin, en ekki benzíngjaldið, en ég er alveg sammála hv. þm. í því, að úr innheimtu á flugvallargjöldunum verður að bæta, enda mun það gert, og hún verður einnig auðveldari, eftir því sem fastari skipun kemst á þessi mál.

Ég vil út af ummælum hv. 4. þm. Reykv. segja örfá orð. Hann sagði, að hv. þm. Siglf. væri kennt um alla þá óreiðu, sem á þessum málum væri. Ég veit satt að segja ekki, hvers vegna hv. þm. segir þetta, þar sem hæstv. utanrrh. hefur gefið upplýsingar um öll atriði málsins. Hins vegar væri ekki að furða, þótt bent væri á þau atriði, sem sérstaklega heyrðu undir framkvæmd hans í þessu efni. Ég hygg, að ríkisstj. sé það ekkert áhugamál að draga athygli manna frá því, hvernig þessi mál standa nú. Það mætti benda á það, að reglugerðin um flugvallargjöld á Reykjavíkurflugvellinum var ekki sett fyrr en í marz 1947. Hv. þm. Siglf., sem þá var ráðh., lét sem sagt líða allan þann tíma — frá 7. okt. 1946 — án þess að setja reglugerðina. Ég verð að segja það, að ég varð hissa á þessu. Ég segi þetta í tilefni ummæla hv. 4. þm. Reykv., þar eð hann sagði, að verið væri að ásaka einn mann út af öllu þessu. Ég skal ekkert um það segja, hverjum eru að kenna þær misfellur, sem komið hafa í ljós í sambandi við þetta mál, en þetta er a. m. k. hv. þm. Siglf. að kenna.

Hv. 4. þm. Reykv. minntist nokkuð á framtíð þessa samnings. Ég greiddi samningnum atkvæði mitt á sínum tíma og segi nú ekki annað en það, að rétt er að athuga, hvernig hann reynist, og sjá svo til, hvað til mála getur komið að gera síðar í þessum efnum.

Ég tel það eðlilegt og sjálfsagt, að við reynum að búa þannig út flugmál okkar, að við getum orðið undir það búnir að taka þau að öllu leyti í okkar hendur. Ég skildi hv. 4. þm. Reykv. ekki, þar sem hann sagði, að það hefði komið fram í ræðum manna og einnig blöðum, að framkvæmd samningsins væri vandalaus. Mér virðist þetta alveg talað út í bláinn og hæstv. utanrrh. hefur hér einmitt gert mikið úr því, hvílíkt vandaverk framkvæmd hans væri, og ýmsar reglur það varðandi hefðu ekki verið settar strax, vegna þess að það var vandaverk, sem krafðist reynslu.

Ég mun ekki fara fleiri orðum um þetta að sinni. Ræða hæstv. utanrrh. var skýr og skorinorð, og tel ég mig í bili ekki hafa fleira að segja varðandi þetta mál.