27.11.1947
Sameinað þing: 26. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í D-deild Alþingistíðinda. (3316)

10. mál, dýrtíðarvarnir

Jónas Jónsson:

Það kemur glögglega í ljós við meðferð málsins, að þessi litla till., sem hefur verið svona lengi á leiðinni, hálft annað þing, hún hefur þó hreyft málinu það lítið, að hv. frsm. hefur nú látið í ljós þá skynsamlegu ósk, að það væri æskilegt, ekki aðeins að upplýsinga væri aflað, heldur einnig birtar almenningi á sínum tíma, og hæstv. forsrh. hefur líka talað í þá átt. En eftir er þá tvennt í þessum útskýringum, og þar sem þessir tveir menn í áhrifamiklum stöðum láta nú í ljós, að það væri ekki verra að hafa þessar upplýsingar, þá kem ég að því, hvers vegna stór þingn., sem sat 9 mánuði, lét það líðast einhverjum mönnum, sem hún bar svona till. undir, að stöðva málið. Þetta finnst mér táknrænt fyrir það, að ekki sé nægilegur áhugi hjá þeim mönnum, sem með þetta mál fara, til þess að afla sér þess grundvallar, sem hér er um að ræða. Í öðru lagi kemur það fram hjá hv. frsm. og hæstv. ráðh., að þeir leggja ekki verulega upp úr því, að borgararnir hafi um þetta glöggt yfirlit, því að það er vitanlega þýðingarlaust að kasta í allan almenning hálfmeltum tölum frá öðrum löndum, en ég sé ekki annað en það sé auðvelt að birta um það glöggt yfirlit, hvað t. d. einhver vara kostar, t. d. mjólk, hvað bóndinn fær fyrir hana, hvað hún er seld í borginni, hvað mikið er ríkisborgun o. s. frv. Ég tek bara þessa einu vöru. Enn fremur vil ég benda hæstv. ráðh. á það, sem hann talaði um, að við værum svo illa settir með byggingarefni og húsaleigan hlyti að verða dýrari hér heldur en annars staðar. En þessu hygg ég, að hæstv. ráðh. muni ekki halda til streitu, því að til lengdar er ekki hægt að borga hærri húsaleigu hér heldur en framleiðsla landsmanna getur staðið undir. Nú væri sjálfsagt ekki óhentugt einmitt fyrir húsaleiguna, ef það kæmi í ljós, hvað múrarar hafa í kaup á Íslandi, Noregi, Danmörku og Svíþjóð, því að við, sem búum í Reykjavík, verðum við það að búa, að daglaun þessara manna komist upp í nokkur hundruð krónur á dag undir vissum kringumstæðum. Þessu leyna stéttirnar, blöðin leyna því, og þingið leynir því. Það er aldrei talað um, að múrarar hafi 500 kr. á dag fyrir að byggja hús í Reykjavík, og það liggur náttúrlega ljóst fyrir hæstv. ráðh. eins og öðrum, að þessi þáttur í dýrtíðinni hér mun aldrei til lengdar verða réttlættur með því, að það þurfi svona mikið, heldur verður niðurstaðan sú, að þetta verður til þess að auka húsaleiguna og hún verður hærri hér heldur en í Englandi og Danmörku. Nú eigum við að keppa við margar þjóðir með okkar togara, og mér fyndist æskilegt, að það kæmi í ljós, hvort Bretar borga sínum hásetum 50–60 þús. kr. og skipstjórunum 100 þús. kr. Væri nokkuð á móti því, að íslenzka þjóðin vissi, hvernig dýrtíðin skapast hjá okkur? Ég trúi því ekki, að slíkur áhugamaður um málefni bænda eins og hv. 2. þm. Skagf. hafi neitt á móti því, að slík vitneskja fengist, því að vissulega mun hann ekki neita því til lengdar, að meðan þetta gerist, meðan kaup, húsaleiga, vinnulaun og skattar er svo uppskrúfað hjá okkur, að ekki er til fordæmi annars staðar, þá er ekki að furða, þó að við séum í vandræðum. Ég vil mótmæla því hjá þessum tveimur ræðumönnum, hv. frsm. og hæstv. ráðh. — þeim hugsunarhætti, sem lá á bak við orð beggja, að það eigi ekki að leggja þessar upplýsingar fyrir kjósendur landsins. Ég vil ekki gera lítið úr okkur hér á Alþ., en við skulum bara gera okkur það ljóst, að það er ekki yfirdrifin trú á því hjá borgurunum, hvað við stöndum okkur vel. Borgurum landsins gengur illa að skilja, að við skulum þurfa 9 mánaða þingsetu og að þingið skuli þurfa að sitja í mánuð, áður en fjárl. eru lögð fram, einmitt fyrir það, hvað fjármál landsins og atvinnumál eru sjúk og að aldrei hafa komið fram frá neinni ríkisstj. glöggar yfirlitsskýrslur um það, hvernig okkar dýrtíð standi, t. d. borið saman við dýrtíð annarra þjóða. Það er t. d. alveg rétt hjá útvegsmönnum, að þegar gerðar eru þessar kröfur til þeirra, kröfur eins og þær, sem loftskeytamenn og skipstjórar gera, þá geta þeir ekki annað en verið í vandræðum. Heldur hæstv. forsrh., að kröfurnar til hans muni minnka við það, að kjósendurnir í landinu vita ekkert um það með sannindum, hvernig við stöndum. Það var sett hagfræðinganefnd í fyrra til að spekúlera, hvernig ætti að ráða við dýrtíðina. Einn hagfræðingur, sem ekki á sæti á þingi, talaði um það við mig nýlega með nokkru yfirlæti, að við þyrftum meira af þessum athugunum. Sá maður hafði lært í Svíþjóð, svo að ég benti honum á, hvað lítið gagn hefði orðið að þessum vísindum, þar sem eins mikill maður og Gunnar Mýrdal, sem er mikill hagfræðingur, ályktaði út frá hagfræðinni, en ekki út frá daglegu lífi, að Svíar skyldu gera samning við Rússa og lána þeim 1000 millj. Svo kemur í ljós, að vísindin geta ekki staðið við þetta, Rússar fá veröldina á móti sér og senda njósnara á Svía, og ráðstafanir, sem voru gerðar út frá þessu verzlunar- og innilokunarfyrirkomulagi, hafa í ýmsu reynzt á móti heilbrigðri skynsemi og hafa gefizt þannig í þessu ríka landi, að af því hefur leitt hin mestu vandræði. Þetta eru orðnir verstu samningar, sem gerðir hafa verið á Norðurlöndum. Það er ekki hægt að leysa þessi mál með þófi og duttlungum, þau verða að leysast af fólkinu sjálfu. Ég vil benda hæstv. forsrh. á það, að Svíþjóð mun eftir fyrra stríð hafa haft gagn af vissu fræðilegu skipulagi, og svo fór aftur svona nú. Þess vegna spái ég engu góðu, ég veit af reynslunni, að þessar bollaleggingar hagfræðinga um það, hvernig eigi að lækka dýrtíðina, það endar í tómri botnleysu. Það verður eins og með fjárpestarmálin. Það komu voðalega lærðir menn og belgdu sig út og sögðust vita, hvernig fjárpestirnar væru. Svo kom í ljós, að þetta var vitleysa, og eftir 12–15 ár eru þeir allir hlaupnir burt frá þessu, en bændur reyna að setja upp girðingar.

Vandamálin verða aldrei leyst með því að byggja skýjaborgir. Við höfum fetað upp dýrtíðarstigann og við verðum að feta niður aftur. Kommúnistar áttu drýgstan þátt í að skapa dýrtíðina með hinum fræga skæruhernaði og fleira. Þeir notuðu til þess heilbrigða skynsemi frá sínu sjónarmiði, en það er meira en hægt er að hrósa okkur borgurunum fyrir, við notuðum hvorki skynsemi né samtök gegn þeim út frá okkar sjónarmiði. Nú eigum við að hafa sömu aðferð og kommúnistar, er við förum að slökkva eldinn.