15.10.1947
Sameinað þing: 7. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í D-deild Alþingistíðinda. (3355)

6. mál, vinnufatnaður og vinnuskór

Samgmrh. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég get nú vel tekið undir það, sem hv. flm. sagði um það að vísa till. til allshn., en það verður að gera það áður en þessari umr. er lokið. Það verður þá að fresta umr. og fá það n. til athugunar.

Mér er að sjálfsögðu ekkert kærara en að athugað sé, hvað í þessum málum er hægt að gera. Till. er fyrst og fremst um það, að vinnufatnaður og vinnuskór séu undanþegnir skömmtun. Ég vil í því sambandi segja það, að ég álít, að það versta, sem hægt sé að gera þeim, sem þessar vörur nota, sé að gefa þær frjálsar, því að það þýðir, að vörurnar yrðu keyptar upp á svörtum markaði og verkamönnum gert ómögulegt að fá þær.

Ég vil einnig upplýsa, að það eru svo takmarkaðar birgðir af þessum vörum, að þær geta ekki orðið undanþegnar skömmtun, en ég hef gert ráð fyrir, að úthluta þurfi aukaskammti af þessum birgðum eftir því, sem til er hverju sinni. Ég hef hér bréf frá skömmtunarstjóra, og hann segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Gert var ráð fyrir því, þegar reglugerð þessi var sett, að veita þyrfti undanþágu með skammta til erfiðismanna, þannig að þeim gæfist kostur á að fá aukaskammta af slitfatnaði og slitskóm, þegar frá liði. Hitt var engan veginn auðsætt, og er raunar ekki enn, að þeir þyrftu þessara aukaskammta strax fyrstu viku skömmtunarinnar. Það hefur þó verið til athugunar hjá skömmtunaryfirvöldunum. frá því er skömmtunin var upp tekin, á hvern hátt þessum sérstöku þörfum erfiðismanna yrði bezt fullnægt í sambandi við skömmtunina.“

En það sem fyrir skömmtunarstjóra og þeim öðrum hefur vakað, var að fengið væri í byrjuninni form til þess að þær birgðir, sem til eru, kæmust í réttra manna hendur, en ekki í hendur bröskurum og hömstrurum. Ég ætlaði fyrir þessa umr. að vera búinn að afla mér upplýsinga um, hverjar birgðir væru til í landinu, — ég vissi fyrirfram, að birgðir væru takmarkaðar, — en mér hefur ekki tekizt að fá þessar upplýsingar enn. Ég vænti þess, að þær komi bráðum og geti legið hér fyrir hendi.

Ég vil undirstrika það, að ekki verði farin sú aðalleið, sem hér er stungið upp á, heldur verði farið eftir því, sem skömmtunarstjóri leggur til. Skömmtunarstjóri hefur upplýst, að þetta væri auðvelt að gera þannig, að menn kæmu í skrifstofuna, gæfu upplýsingar um störf sín og fengju skammt eftir þeim. Síðan væri færð skrá yfir það, hvað hver fengi, þannig að enginn fengi meira en væri í hlutfalli við atvinnu hans.

Hv. flm. minntist á peysur og vettlinga úr íslenzkri ull. Ég get upplýst það, að það hefur orðið að samkomulagi, að íslenzkt prjónles í hverri mynd sem er væri undanþegið skömmtun, þótt það hafi ekki verið auglýst enn, en hins vegar eru íslenzkir dúkar ekki undanþegnir skömmtuninni. Vænti ég, að það mál leysist. Þar sem um framleiðslu á vörum úr íslenzkri ull er að ræða, má búast við, að ekki verði eins hægt að kaupa þær upp og aðrar vörur, sem takmarkaðar birgðir eru af.

Ég vil segja það, að það var frá upphafi ljóst þeim mönnum, sem með þessi mál hafa farið, að verkamenn þyrftu að fá aukaskammt, og hefur verið hafinn undirbúningur að því — og var hafinn löngu áður en skömmtunin kom. Við þetta var miðað, þegar reglugerð um skömmtun var gefin út 23. sept. s. 1. Þar er heimild til þess, að þetta verði svo.

Ég get tekið undir það með hv. flm., að till. verði vísað til n. og þar verði leitað upplýsinga um það, hve miklar birgðir séu til af þessum vörum, og vænti ég, að þá upplýsist, hve miklar birgðir eru væntanlegar til áramóta, og getur þá skömmtunarskrifstofan ákveðið, hve mikinn aukaskammt hægt sé að veita af báðum þessum vörutegundum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta. Í löndum, þar sem tekið hefur verið upp strangt skömmtunarfyrirkomulag, hefur aukaskammtur á vinnufatnaði og vinnuskóm farið eftir því, hvort þær vörur hafa verið úr innlendu efni eða ekki og hvort innflutningur þess væri háður innflutningi viðkomandi lands. En í flestum tilfellum hefur það verið svo, að þessir vöruflokkar hafa verið undir skömmtun — og það meira að segja strangri skömmtun.

En það verður að vera okkur kappsmál. að þær litlu birgðir, sem við höfum, skiptist nokkurn veginn réttlátlega.