10.10.1947
Sameinað þing: 5. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (3395)

9. mál, markaðsleit í Bandaríkjunum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Flm. beindi þeirri fyrirspurn til mín, hvort mér þætti ekki þetta mál þess virði, að það fengi betri og hraðari afgreiðslu en það fékk á síðastl. þingi. Það kemur líka fram í grg. nokkur þungi til fyrrv. fjvn. út af afgreiðslu málsins á síðasta þ., og vildi ég því gefa upplýsingar í þessu efni.

Fjvn. tók þetta fyrir á mörgum fundum, ræddi það við fiskimálastjóra og kallaði til sín á fund stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og forstjóra Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda.

N. var ljóst, að málið hafði legið um mörg ár í höndum n., sem heitir fiskimálan. eða fiskimálasjóður, því að fiskimálasjóði ber skylda til að stuðla að markaðsleit, og ef litið er á l. frá síðasta þ. um fiskimálasjóð, þá er talað um, hvert verkefni fiskimálasjóðs skuli vera. Í 4. gr. e-lið segir, að fiskimálasjóður veiti styrki til markaðsleitar. Samkvæmt 2. gr. eru tekjur fiskimálasjóðs þessar:

1. Eignir fiskimálasjóðs, er starfað hefur samkvæmt lögum um fiskimálanefnd, útflutning á fiski, hagnýtingu markaða o. fl., nr. 75 31. des. 1937.

2. Útflutningsgjald af sjávarafurðum, öðrum en saltaðri síld, er nemi ½% — hálfum af hundraði — af verðmæti þeirra miðað við fob. verð. Þó getur ríkisstjórnin ákveðið að undanskilja þessu gjaldi fisk og fiskafurðir, sem sendar eru til útlanda í tilraunaskyni.

3. Árlegt framlag úr ríkissjóði, eftir því sem ákveðið er í fjárlögum, allt að einni milljón króna á ári næstu 10 árin frá gildistöku laga þessara.

4. Vextir og aðrar tekjur af eignum sjóðsins. Heimilt er stjórn fiskimálasjóðs með samþykki ríkisstjórnarinnar að taka allt að 10 milljóna króna lán til starfsemi sjóðsins. Ríkisstjórninni er heimilt að ábyrgjast lán þetta fyrir hönd ríkissjóðs.

Allt þetta var n. ljóst í fyrra. Þetta frv. var þá komið fram og líkur til, að það næði fram að ganga, enda varð það að l. Þess vegna leit fjvn. svo á, að málinu væri bjargað með þessum l., þar sem fyrirskipað er, að þessi aðili skuli verja svo miklu fé til markaðsleitar.

Ég vildi gefa þessa skýringu á, hvers vegna n. sá ekki ástæðu til að afgr. málið á því stigi. Hitt er annað mál, að mikið er um það deilt, hvort fiskimálan. hafi ekki vanrækt þessa skyldu sína í sambandi við markaðsleit undanfarin ár. Það er m. a. upplýst, að 1946 hefur ekki verið varið nema eitthvað 38 þús. kr. til þeirra hluta og eitthvað álíka 1945, en verið teknar milljónir til annarra framkvæmda, sem mjög mikill vafi er á, að heimilt sé samkv. lögum. Það var m. a. upplýst fyrir n., að uppi voru stórkostlegar kröfur frá sölumiðstöð hraðfrystihúsanna að fá stórar fjárhæðir til þessarar starfsemi. Sölumiðstöðin gerði kröfu, að mig minnir, um hálfa aðra milljón kr., og átti að nota sumt af því fé til að skipuleggja fisksöluna í Mið-Evrópu, m. a. til að veita styrk til að kaupa þar kælitæki í stærri og smærri stíl. Ég skal ekki fara inn á, hvort hyggilegt væri að gera þetta, en fjvn. vísaði málinu raunverulega frá sér til þessa aðila, sem ríkisstj. og Alþingi hefur falið að fara með þessi mál, og veitt honum mjög mikla upphæð til þess starfs. Það er því fyrst og fremst þeirra manna að ráða því, hvernig þessu fé er varið og hvort heppilegt sé að beina markaðsleitinni fyrst og fremst til Bandaríkjanna. En þegar málið kemur á ný til fjvn., mun hún að sjálfsögðu halda fund um það og kveðja til sín sömu aðila á ný og fá hjá þeim upplýsingar um, hvernig þeir hafi varið því fé, sem með l. er veitt til þessarar starfsemi, hvort það hafi farið til annars en markaðsleitar og þá til þeirra verkefna, sem séu meir aðkallandi en öflun nýrra markaða.

Í sambandi við ýmisleg atriði, sem sögð voru um þetta mál af hv. flm., þá skal ég þar ekki fara út í einstök atriði. Ég vil þó benda á það, sem hæstv. ráðh. drap á, að það er afar mikill ágreiningur um það hjá eigendum hraðfrystihúsa, hvort sú stefna, sem Jón Gunnarsson fylgir í sölu á hraðfrystum fiski, sé rétt eða ekki. Hann hefur reynt að komast fram hjá milliliðum og haldið sér fast við þá verzlunaraðferð, sem haldið hefur verið fram af ákveðnum stjórnmálaflokki. Því hefur verið haldið fram, að þetta hafi verið meira böl fyrir fiskmarkað okkar í Ameríku en nokkuð annað, því að með þessu hafi verið sköpuð fullkomin óvild af hálfu allra annarra, sem flytja inn fisk í stórum stíl á þennan markað. Ég skal ekki leggja dóm á það, en það mun einnig verða gerð tilraun til að fá upplýsingar viðkomandi aðila um það mál.

Hitt er ekki nema það, sem allir vita, að erfiðleikarnir hafa verið mestir að fá það verð, sem við höfum heimtað, og veit ég ekki, hvort erfiðleikarnir væru meiri í Evrópu, ef við vildum fara þar inn með Ameríkuverði. Raunverulega er það þannig, að mikill hluti af fiskinum er seldur fyrir ákveðið verð á sama tíma og gefin er með honum svo og svo há upphæð frá annarri vöru. Ég veit ekki, hvort útkoman hefði verið nokkurn hlut verri, þó að síldin hefði verið seld sér og fiskurinn sér. En ef fiskurinn er seldur á Ameríkuverði, þá er hægt að selja hann fyrir það verð hvar sem er í Evrópu.

Ég vil benda á annað, sem er stórt atriði í þessu máli. Það er búið að koma svo fyrir sölu íslenzkra afurða, að öllum íslenzkum sölumönnum er hrundið burt frá þeirri starfsemi. Þeir eru þvingaðir til að nota hæfileika sína til að selja eingöngu vörur inn í landið, og er S. Í. S. þar engin undantekning. Ef einhver vill nú selja íslenzkar afurðir, þá mæta þúsund erfiðleikar. Ég varð fyrir einum um daginn. Þá gat ég selt 400 tonn af fiskimjöli fyrir 1£ hærra en fékkst annars staðar. Nei, nei, þá mátti það ekki, þá var það einhver viðskiptanefnd, sem varð að gera það. Þetta er óþolandi. Ef við settum okkar ungu og ágætu viðskiptafræðinga í að selja afurðir okkar út um lönd í staðinn fyrir að láta þá alla vera í því að selja vörur inn í landið, þá mundi ekki þurfa að leggja eins mikið úr ríkissjóði og fiskimálasjóði og nú er gert til að afla markaða í útlöndum.

Ég skal svo ekki segja fleira á þessu stigi málsins. Ég lofa hv. flm., að málið skuli verða tekið fyrir í fjvn. og að þar skuli verða til kvaddir þeir, sem hæstv. ráðh. hefur óskað, að rætt verði við, áður en málið verður endanlega afgr.