10.10.1947
Sameinað þing: 5. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (3396)

9. mál, markaðsleit í Bandaríkjunum

Flm. (Jónas Jónsson) :

Ég þakka hæstv. fjmrh. og hv. form. fjvn. fyrir góðar undirtektir í þessu máli. Ég álít heppilegt, að um það fari fram nokkrar umr. vegna mikilvægis þess.

Út frá ræðu hv. þm. Barð. vil ég benda á það, að milli okkar er ekki skoðanamunur um nauðsyn þess að fá fleiri menn til liðs við þetta mál, þó að ég hafi góða trú á þeim eina, sem við það hefur fengizt, en ég fer ekki út í það, því að ég er ekki svo kunnugur því. Ég hygg, að hraðfrystihúsaeigendur hafi verið ófúsir til að eyða fé til þessara hluta. Þetta er eitt af því, sem ég hygg, að gæti orðið til þess, að hv. þm. Barð. beiti áhrifum sínum til að vekja málið til meira lífs en gert var í fyrra.

Ég veit, að það er rétt, sem hann sagði, að málið hefði verið rætt á mörgum fundum í fyrra. En þegar á það er litið, að ekkert hefur verið gert í þessu efni, og það er honum kunnugt, þá lít ég svo á, að þótt sú stofnun, sem hefur verið falið að inna þetta verk af hendi, sé sjálfseignarstofnun, þá fer hún með landsfé og því ekki óviðeigandi, að Alþingi og ríkisstjórn beini störfum n. inn á hagnýtari brautir en verið hefur, því að það kom líka fram í ræðu hans, að n. hefur haft til umráða allmikið fé, sem hún hefur notað til annarra þarfa og að það hefur sætt nokkurri gagnrýni. Og þar sem málið liggur nú enn skýrar fyrir en í fyrra, þá mætti það verða til þess, að ýtt yrði við þessari n., sem er ekki allt of fjörug, svo að hún beitti sínu afli til að hrinda þessu máli áleiðis. Ég held, að það sé enginn vafi, að ef á að gera stórt átak um markaðsöflun í Bandaríkjunum, þá þarf til þess fleiri Íslendinga og fleiri fyrirtæki, eins og mér skilst, að vaki fyrir hv. þm.

Þar sem hv. þm. bendir á, að ef farið væri með fisk með Ameríkuverði inn á Evrópumarkað, væri auðvelt að selja hann þar, þá neita ég því ekki. En ég vil benda hv. þm. á það, að menn vita nú, hvers virði dollarinn er á Íslandi. Nú er það svo, að dollarinn er seldur á svörtum markaði jafnvel á þreföldu verði. Það er allt annað að fá dollara en gjaldeyri frá Póllandi, Rússlandi, Ítalíu o. s. frv. Þetta held ég, að hv. þm. Barð. hafi ekki enn tekið nógsamlega með í reikninginn. Nú er svo komið, að það stendur fyrir dyrum stórkostlegt strand í okkar framkvæmdum, ef við getum ekki fengið dollara, og dollara í stórum stíl er ekki hægt að fá nema fyrir hraðfrystan fisk.