22.10.1947
Sameinað þing: 12. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (3410)

11. mál, mælingar í Þjórsá

Flm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. atvmrh. fyrir skýrslu þá, er hann hefur nú gefið, og það er mér sérstakt ánægjuefni, að engir samningar hafa verið gerðir. Enn fremur er ég samþykkur því, að málið gangi til nefndar og þá helzt allshn.

Ég hafði heyrt, að þessu verkfræðingafélagi litist alveg sérstaklega vel á fossana við Búrfell og einn sérfræðingur hafi látið í ljós, að þessir fossar væru æskilegastir allra fossa í Evrópu til virkjunar, eða þeirra fossa, sem hann hefði séð. Þegar við vorum að ræða þetta mál hér í fyrra (ég var náttúrlega upp í skýjunum, eins og venjulega), þá snerist það um Urriðafoss, það virtist of stórkostlegt að hugsa um Búrfell, sem er nálega helmingi lengra frá Reykjavík og samkv. skýrslu Sætersmoen er reiknað þar með 470 hestafla virkjun miðað við afspennt afl í Reykjavík. Margt hefur breytzt með tilliti til tækniþróunarinnar, síðan Sætersmoen mældi og athugaði Þjórsá, en í skýrslu, sem raforkumálastjóri lét mér í té s. l. vor í sambandi við fjárhagsráðsfrv., er gizkað á, að orkuver við Urriðafoss mundi kosta 110 millj. með núverandi verðlagi, en orkuver við Búrfell 300 millj. Allur virkjunarkostnaður víð Urriðafoss (að meðtöldum háspennulínum og aðalspennistöðvum) mundi þá verða 145 millj., en við Búrfell 465 millj. En raforkumálastjóri tók skýrt fram, að þetta væri ekki kostnaðaráætlun, heldur verðágizkun með hliðsjón af greinargerð og áætlunum Sætersmoen. Og nú kemur hér til greina spursmálið um ódýrt afl, þegar valið er á milli virkjunarstaða. Virkjun Búrfellsfossanna er að vísu miklu kostnaðarsamari í heild en virkjun Urriðafoss, en kostnaður á hverja afleiningu verður að líkindum miklu minni, ef virkjað væri við Búrfell, og komi það í ljós, er það gífurlegt fjárhagsspursmál fyrir Íslendinga, ef þeir ætla að virkja sjálfstætt, að virkja stórt, svo að orkan verði ódýr, en horfa ekki í stofnkostnaðinn í upphafi. En til þess að hægt sé að ráðast í slíka stórvirkjun, þurfa allar aðrar framkvæmdir þjóðarinnar að markast af og miðast við þetta gífurlega átak um langt árabil. Það þarf að rísa upp stóriðja í landinu, það þarf að fjölga fólkinu í landinu, skapa því aukna atvinnumöguleika og velmegun. Við landbúnaðinn fer fólkinu fækkandi, en sjálfur landbúnaðurinn fer þó hraðvaxandi, afköst hans hafa 5–10-faldazt á stuttum tíma. Við sjóinn hefur í allra djörfustu áætlunum nýbyggingarráðs ekki verið reiknað með meiru en 9 þús. mönnum á skipunum eða við þau. Spurningin er því: Að hverju á okkar þjóð að vinna í framtíðinni, eigum við að reka verzlun hver við annan og reka allt í smáum stíl? Þá er hætt við, að lífsstandardinn verði ekki hár. Við vitum vel, að stóriðja okkar í útgerðinni gefur af sér nálega allan gjaldeyri þjóðarinnar, og þó starfa ekki nema 1000 manns að þeirri framleiðslu. Ef við ætlum að hagnýta orkulindir okkar á landi eins vel og í jafnstórum stíl og við hagnýtum okkur gæði sjávarins og eins og hægt er að gera, þá þýðir það, að raforkuverin þyrftu að vera hin stærstu, sem lagt hefur verið í. Við höfum á undanförnum árum verið að fikra okkur áfram í þessum efnum, og alltaf hefur vantað rafmagn. Hins vegar vitum við, að ef við ætlum að leggja í slík stórfyrirtæki, þá þarf langan og öruggan undirbúning og rannsóknir, og það þarf að haga öllum öðrum framkvæmdum þjóðarinnar með hliðsjón af því um langt árabil. Það tvennt þarf að fylgjast að.

Ef við vildum gera fyrirætlanir um stórkostlegan útflutning í sambandi við raforkuna, mundi sá útflutningur eftir nokkur ár hafa sömu þýðingu og útflutningur stórútgerðarinnar nú. Það yrði að vísu nokkur áhætta, alveg eins og með fiskverðið núna. Í slíkan stóratvinnurekstur yrði að setja yfirgnæfandi meiri hluta af öllum þeim gjaldeyri, sem fer til fjárfestingar, og ef við gerum ráð fyrir þessum stóriðnaði árið 1955, þá held ég, að það verði að taka ákvarðanir um hann nú þegar. Það er óhugsandi að láta verzlunina gleypa fjármagnið eins og undanfarið hefur verið. Það þýðir ekki að láta fjármagnið streyma þangað óhindrað, sem það gefur af sér mestan arð. Stórkostleg fyrirtæki verða ekki reist nema með sparnaði á þjóðartekjunum og skipulagi á dreifingu þeirra. Svona mál grípa inn í hvert einasta dægurmál, sem nú er afgr., og stórvirki verða ekki gerð, ef núverandi glundroði í þjóðarbúskapnum á að haldast. Það verða sömu vandræðin og árið 1934, þegar rannsókn á högum atvinnuveganna leiddi í ljós, að í verzluninni voru bundnar 100 millj. króna, en aðeins 22 millj. í sjávarútveginum. Með þessum hlutföllum óbreyttum er stóriðja hér óhugsandi. Setjum nú svo, að erlent félag kæmi, sem vildi framleiða ódýrt rafmagn í stórum stíl, rafmagn, sem fólkið alls staðar á landinu beinlínis hungrar eftir. Við getum þá hugsað okkur tvístringinn, sem yrði, ef þá þyrfti skyndilega að fara að breyta um allan þjóðarbúskapinn. — Þessum hugleiðingum vildi ég aðeins bæta við, áður en málið færi til nefndar og til athugunar hjá öðrum viðkomandi aðilum.