17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í D-deild Alþingistíðinda. (3467)

29. mál, áfengisnautn

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins segja nokkur orð og mun draga saman mál mitt. Það hefur litla þýðingu að fjölyrða um þetta.

Háttv. frsm. minni hl. þótti afgreiðsla meiri hl. ekki fullnægjandi. Hann taldi ekki mikils að vænta af framkvæmdum núverandi stjórnar. Hann gat þess, að hann hefði ekki átt tal við hana, en við undanfarandi stjórn, en af því hefði enginn árangur orðið hvað við kæmi minnkaðri áfengissölu, og bjóst við, að svo mundi verða enn. Ég skal ekkert segja um, hver raunin verður, en vænti þess, ef till. okkar verður samþykkt, að þá snúi ríkisstj. málinu eftir beztu getu, og megi þá árangurs vænta. Og hvað viðvíkur því, sem nú er að gerast varðandi sölu áfengis, tel ég það stefna í rétta átt og tel það vera byrjun nýrrar stefnu í þessum málum að uppræta leynivínsöluna; eins og nú er verið að gera þessa dagana, og tel þess fulla þörf.

Ég gat þess áður, að meiri hl. gæti ekki fallizt á róttækar ráðstafanir í þessum efnum vegna ástandsins í fjármálum þjóðarinnar. Mér heyrðist hv. 1. þm. Eyf. (BSt) gera lítið úr þessu. En þegar fjórða hver króna af tekjum ríkisins er fyrir sölu á áfengi, skil ég ekki annað en það grípi óþægilega inn í, ef því væri kippt burtu, og að gera þyrfti einhverjar ráðstafanir til að mæta þeim tekjumissi. Ég legg því til, að ríkisstj. fái frest til að athuga ráðstafanir til að mæta tekjumissinum, áður en stórkostlegar takmarkanir eru settar.

Ég vil nú ekki fjölyrða frekar um þetta, en vil svara frsm. minni hl. nokkru. Hann sagði raunar um eitt atriðið, að hann væri í vafa um gildi skömmtunar til langframa. Hann bað guð að hjálpa okkur, ef við tækjum þessa afstöðu út af fjármálum. En hvernig eigum við að fara að, ef við treystum hans forsjá, þegar hann segist ekki hafa trú á skömmtun og varla heldur héraðabanni? Og tæplega getur háttv. minni hl. bent á, að vín verði algerlega bannað. En hvað á þá að gera, því að þetta eru þó þær ráðstafanir, sem líklegastar eru til að verða að gagni, og kem ég ekki auga á aðrar leiðir, nema þá að bíða eftir algeru aðflutningsbanni á áfengi, og er ég þá í vafa um, hvort það verður á næstunni. Ef við getum ekki haft hemil á áfengisneyzlu með skömmtun áfengis og öðrum slíkum ráðstöfunum, þá vil ég vænta, að minni hl. bendi á þær leiðir, sem vakir fyrir honum, að verði til bóta í þessu efni.

Ég skildi það, þegar hv. 1. þm. Eyf. (BSt) stóð upp og lýsti yfir, að hann væri eiginlega, þó að furðulegt væri, sammála hv. 6. þm. Reykv. (SigfS). Ég skildi vel, hvað vakti fyrir honum. Hann hefur ekki sérstaklega mikinn áhuga fyrir að gera mikið í þessu máli, og er það ekki sagt honum til lasts. Því miður er hv. 1. þm. Eyf. ekki við, en ég kemst samt ekki hjá að víkja að honum nokkrum orðum, af því að þetta er síðari umr. málsins.

Hv. þm. taldi, að þetta þskj. 319 mundi verða frægt og hélt fram, að samkvæmt því mættu menn ekki láta í ljós skoðun sína í þessu máli. Þetta finnst mér hljóma einkennilega, því að með þessari till. er stj. að vísu falið að undirbúa þetta mál, en till. bera með sér, að þar er unnið af fullri alvöru að þessu máli.

Hann gerði lítið úr fjárhagslegu hliðinni. Þar geta menn haft sína skoðun, eftir því sem þeir hafa skaplyndi til og viðhorf þeirra er, en það hygg ég samt, að margur, sem hugsar þetta mál í alvöru, geti ekki gert lítið úr því.

Hv. þm. taldi sig á móti héraðabönnum og taldi, að lítið gagn væri að þeim, og það hygg ég, að sé rétt, ef það eru bara þau ein. Hann taldi, að eins mikil áfengisneyzla væri þar, sem engin áfengisútsala væri, og þar, sem áfengi væri selt. Um það hef ég ekki þá kunnleika, að ég geti dæmt um það, og ég efast um, að hv. 1. þm. Eyf. geti það heldur. En af því að hann talaði svona um málið, þá þykir mér einkennilegt, að hann skyldi á síðasta þingi taka þátt í að afgreiða svo að segja sömu till. Þá lagði hann til ásamt okkur fleirum að koma á héraðabönnum — og héraðabönnum einum. Hann skrifaði að vísu undir með fyrirvara, en hann var þó fylgjandi málinu. En ég veit vel, af hverju það stafaði. Það var af því, að þá lögðu templarar til mjög ákveðið, að þessi ráðstöfun væri gerð. Þá taldi hv. þm. það skyldu stj. að koma á héraðabönnum. Það væri samkvæmt l. og þess vegna ekki þörf að gefa um það ný fyrirmæli. Það kann að vera. Þó vil ég benda á í þessu sambandi, að þetta eru heimildarl. og þess vegna ekki um neina skyldu að ræða fyrir stj. Það er undir mati stj. komið, og þessi l. eru þó orðin nokkuð margra ára og hafa ekki verið framkvæmd enn. Ég ætla meira að segja, að þau hafi ekki enn öðlazt gildi. Það þurfti að gera sérstakar ráðstafanir, sem ég ætla, að hafi ekki verið gerðar enn. Þess vegna er síður en svo þarflaust eða út í loftið að skora á ríkisstj. að láta þessi l. taka gildi og koma til framkvæmda.

Þá minntist hann á undanþágurnar eða þessi fríðindi, og get ég þá um leið komið að því, sem hv. þm. S-Þ. (JJ) sagði um það mál. Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að ef till. yrði samþ., væri hún nokkurs konar áskorun á ríkisstj. að halda áfram þessum hlunnindum, sem nú eru, og með þessu værum við að veita þeim nokkurs konar lagagildi. Þetta er fjarri öllu lagi. Það, sem gerist í þessu efni, er, að þingið tekur enga afstöðu til þess, lætur það hlutlaust, en lýsir yfir um leið, að það geri enga sérstaka ákvörðun um það efni, svo að það er á valdi ráðh., hvað þeir vilja gera í því. Meiri hl. hefði hiklaust lagt til að afnema þessi hlunnindi eða ívilnun, ef það er rétt að nefna það svo, ef Alþ. væri búið að sjá fyrir að veita meira fé til risnu en gert hefur verið hingað til. Það er aðeins fyrir þessa sök, að við látum þetta standa og leggjum til, að ekki verði gerð breyt. á því. En ef Alþ. sýnir einhverja viðleitni í því að veita ráðh. risnufé, mun ekki standa á okkur í meiri hl. allshn. að vera með því að afnema þetta. En meðan þessi ákvörðun stendur, finnst mér heldur óviðfelldið að flokka ráðh., eins og hv. þm. S-Þ. vill gera.

Þá sagði hv. 1. þm. Eyf., að þetta snerti aðeins 2–3 menn, því að forseti Alþingis hefði þessi réttindi, því að það gæti svo farið, að hann yrði að gegna forsetastörfum, og þá hefði hann þennan rétt. Þetta er mikil fjarstæða. Það eru þrír menn, sem eiga að fara með forsetavald í forföllum forseta sjálfs, og þá er ekkert lögleg athöfn nema a. m. k. tveir af þeim séu sammála. En hvað áhrærir risnu, þá kemur það í hlut forsrh. að sjá um það, og ef till. okkar verður samþ., kemur það ekki til, því að til þess að forseti Sþ. geti gert það gildandi, yrði hann að hafa annan mann með í því, og það held ég satt að segja, að enginn mundi gera.

Fleira mætti um þetta segja, en ég ætla ekki að fara um það fleiri orðum. Þetta liggur svo fjarri, að það tekur engu tali, en eftir okkar till. hefur enginn þessi réttindi nema ráðh. og forseti ríkisins.

Hv. þm. S-Þ. benti á í ræðu sinni, hversu áfengi væri misnotað. Mér skildist hann vilja halda fram, að starfsmenn stjórnarráðsins hefðu misnotað það, að þeir hefðu fengið áfengi ódýrar. En úr því að ríkið selur áfengi og menn eru svo gerðir hvað neyzlu á þessum drykk snertir, að þeir kunna sér ekki hóf, þá er alltaf hætta á, að einhverjir gangi of langt og verði jafnvel sjálfum sér til minnkunar. Sú lýsing, sem hann gaf á framferði þessara manna, hefði eins getað átt sér stað, þó að þessi réttur hefði ekki komið til. (JJ: Það er mjög sjaldgæft, að menn berjist eins og hrútar). Já, sem betur fer, og það er sagt, að einsdæmin séu verst. En því miður eru það sjálfsagt fleiri en þessir menn, sem hafa hagað sér verr en vera ætti. Þetta er það, sem hefst upp úr því, þegar þjóðin hefur þessa vöru til sölu, að menn gæta sín ekki, skortur á velsæmi og skortur á menningu. Ég man, að hv. þm. S-Þ. sagði eitt sinn viðvíkjandi þessu, að þannig ættu menn að kunna að fara með áfengi, að menn gætu drukkið það úr kaffibollum án þess að það kæmi að sök. (JJ: Það er svolítið lagað). Ég ætla, að efnið hafi ekki raskazt. (JJ: Ég sagði, að í útlöndum drykkju menn vínið eins og menn drekka hér kaffi). En það hefur sýnilega misheppnazt hjá mönnum að læra að fara þannig með vínið, og þá er að gera við því. Það er síður en svo, að ég mæli þessu bót, en það kemur ekki þessari till. við.

Ég vil því mega vænta þess, að Alþ. fallist á till. meiri hl. allshn. Ef enginn ávinningur næst með henni, lízt mér ekki á, að mikill árangur fáist, þó að till. minni hl. yrði samþ., kannske eitthvað harðorðari, en ef til vill ekki hægt að fara eftir henni.