05.12.1947
Sameinað þing: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í D-deild Alþingistíðinda. (3563)

58. mál, fávitahælið á Kleppjárnsreykjum

Flm. (Jónas Jónsson) :

Þetta er gamalt mál hér á þingi. Fyrir allmörgum árum beitti frú Guðrún heitin Lárusdóttir sér fyrir umr. og löggjöf í þessu efni, en það er ekki komið lengra en það, að enn er ekki til nema lítið hæli fyrir eitthvað 20 fávita, en þessir vesalingar eru eitthvað yfir 200 hér á landi. Nú þarf ekki langa ræðu um það, að þar, sem fáviti er á heimili, sem ekki er hægt að koma á hæli, er líf hans kross fyrir aðstandendur hans, og veit ég, að enginn, sem til þekkir, muni efast um, að svo sé. Nú hefur komið til mála að koma upp slíku hæli hér nálægt Reykjavík og hefur því verið borið við af sumum, að erfitt væri að fá fólk til að starfa utan Reykjavíkur, en bæði er dýrara að byggja hér hjá Reykjavík og að mörgu leyti óheppilegt að annast þessa sjúklinga hér í Reykjavík eða rétt hjá bænum. Á Kleppjárnsreykjum er mikið og gott land og jarðhiti, og er vel til fallið að byggja þar hæli fyrir fávita. Ég óska svo, að þessari till. verði vísað til fjvn. og svo til stj., til þess að málið fái afgreiðslu og að innan tiltölulega skamms tíma verði hægt að veita þeim fávitum hælisvist, sem þess þurfa.