21.01.1948
Sameinað þing: 35. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í D-deild Alþingistíðinda. (3820)

119. mál, áburðarverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir upplýsingarnar. Hann telur. að það muni þurfa 7000 kw. til áburðarverksmiðjunnar, en nú hefur hæstv. ráðh. falið n. að athuga að stækka verksmiðjuna þrefalt, og yrði þá tæplega undir 20000 kw., sem áburðarverksmiðjan þyrfti af rafmagni, sem yrði tekið frá Sogsvirkjuninni, svo að það er hlutur, sem þarf að athuga, og býst ég þá við, að það sýni sig fljótlega, að rafmagnsframleiðslan er undirstaða undir öllu þessu.

Viðvíkjandi vélaspursmálinu þá hef ég áður vakið athygli á því, hvað þessi dráttur er ískyggilegur með vélarnar. Það er vitað, að víða á landinu standa nú verksmiðjur, sem búið er að byggja, en vélarnar vantar, og útgerðin hefur sums staðar ekki getað gengið vegna þess, að það vantar vélar, og fiskimjölsverksmiðjur hafa ekki getað tekið til starfa, vegna þess að dieselvélar eru ekki komnar enn. Ég álít, að það hefði átt að vera búið að gera ráðstafanir til þess að tryggja þetta, þar sem nægur gjaldeyrir hefur verið til. Ég veit t. d., að eitt það land, sem stendur bezt að vígi um að framleiða vélar í einstakar verksmiðjur, Tékkóslóvakía, — ég veit, að Íslendingar áttu 7 millj. kr. hjá því ríki í fyrra, og það munu hafa verið möguleikar til þess að semja þá við viðkomandi yfirvöld í því landi og tryggja yfirfærslu á öllum þessum vélum með 2 ára afhendingarfresti. Við höfum sem sé átt peninga þarna inni og gætum á þennan hátt nýtt okkar inneignir mjög skynsamlega. En ég er mjög hræddur um, að það sé ekki enn þá farið að vinna að því að tryggja vélapantanir, hvorki viðvíkjandi Sogsvirkjuninni né Laxárvirkjuninni, og því síður viðvíkjandi áburðarverksmiðjunni. Ég held þess vegna, að í sambandi við þessi mál þurfum við alls fá mun betri upplýsingar en hingað til um það, hvernig framkvæmdum miðar. Það er lagt það vald í hendur okkar embættismönnum, sem eiga að sjá um innkaup á þessum hlutum til landsins, að heilir, stórir atvinnuvegir eiga stundum allt undir því, og ég er hræddur um, að ýmsum þessum mönnum sé ekki ljóst — eða Alþ. og ríkisstj. geri sér ekki fullkomlega ljóst, hvað þarna liggur á að hinir praktísku hlutir séu ekki langt á eftir. Skortur á forsjálni getur þess vegna orðið svo mikill, að nauðsynlegt sé að gefa betri gaum að því en verið hefur að tryggja slíkar verzlunarlegar framkvæmdir í tíma. Annars væri gott að fá upplýsingar frá hæstv. ráðh. í sambandi við þessa nýju aðferð viðvíkjandi því, hvað sérfræðingar álita um raforkuþörfina.