22.01.1948
Sameinað þing: 36. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í D-deild Alþingistíðinda. (3837)

905. mál, endurbygging sveitabýla

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla að bæta hér nokkru við það, sem ég sagði áðan. Hv. þm. S-Þ. hefur barizt manna mest fyrir því, að bændaskóli sá, sem fyrirhugaður er í Skálholti, verði ekki reistur. Rök þau, sem þessi hv. þm. færir fyrir máli sínu, eru, að þeir bændaskólar, sem fyrir eru í landinu, séu ekki hálfsetnir, að gömlu skólarnir tveir séu hvergi nærri fullskipaðir. Þetta er nú svo viðkvæmt mál, að hv. þm. hefði verið nær að þegja yfir því, og ekki munu slíkar uppljóstranir bæta aðsóknina til búnaðarskólanna. En hver er nú ástæðan til þess, að allir skólar landsins eru yfirfullir að undanskildum bændaskólunum? Er ástæðan kannske sú, að bændur þurfi engrar menntunar við? Því held ég, að ég verði að svara neitandi. Nei, hér er um nokkuð annað að ræða. Það er komin drullupest í lambhúsin, og þá sýkjast gemlingarnir auðvitað líka. Fjöldi nemenda getur borið vitni um þetta. Því er ekki úr vegi að reyna eitthvað nýtt, sem örva mundi aðsókn til þessara stofnana, reyna nýja tækni við kennsluna og gera þennan nýja skóla svo úr garði, að allt sé eftir fullkomnustu nútíma kröfum. Húsmæðraskólar landsins, sem líkja má við bændaskólana, sem hliðstæðum stofnunum, eru flestir fullsetnir í vetur. Bændur í Árnes- og Rangárvallasýslum vilja, að fullkominn búnaðarskóli komist sem fyrst á stofn í Skálholti. Þótt nokkuð hafi deilt verið í upphafi þess máls um staðarvalið, þá kemur það þessu máli lítt við. Hitt er aðalatriðið, hvort hæstv. ríkisstj. spilar hér eins konar svikamylnu og svíkst um að veita það fjármagn til þessarar byggingar, sem ákveðið er í l. Að vísu verður að gefa því gaum, að ríkisvaldið er sjálfrátt um það, hversu ört það framkvæmir þá hluti, sem því er falið að framkvæma með samþykki Alþ. Hitt er svo ekki annað en flottræfilsháttur íslenzkra stjórnmála, er heimtað er fé til templarahallar og norrænuhallar, meðan þeir hlutir liggja á hakanum, sem meira liggur á.