27.01.1948
Sameinað þing: 37. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (3857)

907. mál, lánsfjáröflun til Ræktunarsjóðs Íslands

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Tveir hæstv. ráðh., hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh., eru ekki hér viðstaddir, en þeir héldu uppi svörum fyrir hæstv. ríkisstj., er málið var hér til umr. um daginn. En hæstv. dómsmrh. er nú hér inni, og ætti það að nægja, því að honum mun ekki verða svarafátt fyrir hönd hæstv. ríkisstj. og hann er vel kunnugur því, sem hér er um að ræða.

Umr. þær, sem fram hafa farið um fyrirspurnir á undanförnum tveim fundum, hafa verið á við og dreif, og ekki hafa allir hv. ræðumenn haldið sig við efnið. Ég tel svör þau, sem hæstv. ráðh. gáfu hér, ekki vera fullnægjandi fyrir hv. alþm. yfirleitt. Hæstv. ráðh. sögðust gera allt, sem í þeirra valdi stæði, til þess að leysa þá skyldu, að ræktunarsjóði verði greiddar þær 10 milljónir kr., sem honum ber samkv. l. Það er nú svo, að það er ekki nóg, að hæstv. ráðh. lofi að gera það, sem þeir geti, eða geri það, sem hægt er, eins og oft er til orða tekið, en því hefur stundum verið brugðið fyrir sig, bæði af hæstv. ríkisstj. og öðrum, er illa gengur með framkvæmd mála. Ég tel, að hv. alþm. hafi rétt til að fá skýlaus svör við þessu, hvort ræktunarsjóður fái 10 milljón kr. greiddar, sem honum ber samkv. l., eða ekki. 8. gr. l. um ræktunarsjóð mælir svo fyrir, að ríkisstj. er heimilt að skipa Landsbankanum að greiða þessa upphæð til ræktunarsjóðs. Landsbankanum er skylt að lána þessar 10 milljónir kr. gegn 1½% vöxtum. En á hverju strandar þá? Það virðist stranda á því, að Landsbankinn telur sér ekki vera hag í því að lána fé gegn þessum vaxtakjörum. Þessi orð eru ekki sögð til þess að lasta Landsbankann eða stjórn hans, en ef hæstv. ríkisstj. gengur hart eftir því, að fé þetta verði greitt til ræktunarsjóðsins, þá verður Landsbankinn að láta fé þetta af hendi. Lögin mæla svo fyrir, og annað er ekki sæmandi, hvorki fyrir bændur né Alþingi.