10.03.1948
Sameinað þing: 51. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í D-deild Alþingistíðinda. (3924)

174. mál, bein Jóns biskups Arasonar og sona hans

Fyrirspyrjandi (Jónas Jónsson) :

Herra forseti. Af þessum upplýsingum ráðherra og grein Guðbrands Jónssonar er sýnilegt, að allar skýringar Guðbrands eru ósannar. Hann byrjar á því að segja, að leyfi Jóns Magnússonar hafi verið fyrir hendi til að grafa upp beinin, en það kemur fram, að hann hefur aðeins haft leyfi til að athuga kirkjugrunna. Hlyti enda að finnast leyfi Jóns Magnússonar, ef til væri, því að svo nákvæmur embættismaður sem hann var hefði aldrei gefið leyfið öðruvísi en skriflegt. Í bréfi sínu til ráðh. sleppir hann skröki sínu um viðtal sitt við Sigurð Sigurðsson (Menntmrh.: Bréfið er orðrétt eins og greinin í Morgunblaðinu, en ég las ekki þann kafla, sem fjallar um skipti þeirra Sigurðar). Nei, en með því að Helga Sigurðardóttir, sem sýndi gestum kirkjuna, heyrði föður sinn aldrei minnast á þetta, má telja víst, að frásögn Guðbrands sé og röng í þessu atriði.

Það er eitt atriði, sem hæstv. ráðh. þyrfti að upplýsa betur, en það er varðandi bréf fornminjavarðar til biskups. Árið 1943 hafði biskupinn fengið hugboð um beinaflutninginn og skrifaði hann þá forsrh. og fornminjaverði um málið, og gefur þá fornminjavörður skýrslu, en forsrh., sem þá var Björn Þórðarson, sinnti ekki málinu. Og eftir að biskupinn snýr sér til þjóðminjavarðar til þess að fá upplýsingar um málið, þá ber Guðbrandur Jónsson það fram, að biskupinn hafi gefið sér leyfi til að ráðstafa beinunum. Sýnir þetta bezt málflutning Guðbrands, sem allur er ein ósannindaþvæla.

Ráðh. segir, að ríkisstj. hafi ekki enn tekið afstöðu til málsins, og skal ég því skýra frá því, að ég hef flutt till., sem verður líklega útbýtt á morgun, þess efnis, að Alþ. leggi svo fyrir, að beinin verði flutt norður og hafizt verði handa um að skila aftur til kirkna. úti á landi þeim góðu gripum, sem fluttir hafa verið hingað á þjóðminjasafnið, og að komið verði í veg fyrir, að menn eins og Guðbrandur Jónsson leiki sér að helgum minjum þjóðarinnar. Ef sú till. nær fram að ganga, má segja, að ráðsmennska Guðbrands hafi þó að einhverju leyti orðið góðs valdandi.