17.03.1948
Sameinað þing: 55. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í D-deild Alþingistíðinda. (3944)

181. mál, njósnir Þjóðverja á Íslandi

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Þegar ungir menn ætla út til framhaldsmenntunar, er það þeirra sjálfra að ákveða, hvert þeir fari, og þeir ákveða það líka sjálfir, hvað sem hv. þm. S-Þ. segir um það, hvort þeir séu sendir eða ekki. Það sýnir aðeins, til hvers er að eiga orðastað við hv. þm., þegar hann fullyrðir, að ég hafi sent ungan mann í skóla til Himmlers.

Um bréfin er það að segja, að þau eru í þingskjölum, sem hver hv. þm. getur farið yfir og kynnt sér. Og svo segir hv. þm. S-Þ., að hér sé um leyndarmál að ræða, sem aldrei hafi mátt tala um og enginn fengið að vita um. Til hvers er að eiga orðastað við mann af þessari tegund? Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem þessi þm. kemur svona fram. Ég man, að menn ráku hér upp stór augu. þegar fyrirspurn kom frá þessum hv. þm. um bein Jóns Arasonar. Þá stóð þessi hv. þm. hér upp og þóttist ekkert vita um þessi bein eða neitt í því máli. En þá stendur annar hv. þm. upp og upplýsir, að einmitt hv. þm. S-Þ. hafi um þetta vitað í 20–30 ár. Hvað er meint með svona fyrirspurnum? — Þá mátti líka skilja fyrirspurn hv. þm. S-Þ. varðandi þjóðleikhússjóðinn þannig, að hv. 4. landsk. (BrB) hefði tekið hann til eigin þarfa, — mig minnir það hafi verið um 60 þús. kr. Þannig er fyrirspurninni dreift út um landið. Svo kemur það í ljós hér á Alþ., að það er n., sem tók við þessu fé. En fyrirspurnin gaf allt annað til kynna. — Svo er fyrirspurnin um Bessastaði á þann veg, að arkitektinn, sem sér um verkið, hefur spurt um það, hvernig hann geti varið sig, því að í útvarpinu er með fyrirspurninni gefið í skyn, að um óheiðarlegan verknað sé að ræða. Það er spurt að því, hve mikið ríkissjóður hafi greitt Sigurði Jónassyni í sambandi við burtför hans af jörðinni. Með þessu er aðeins verið að reyna að ná til manns eins og Sigurðar Jónassonar með miður sæmandi dylgjum. En Sigurður Jónasson segir við ríkisstj.: Ég gef ríkinu jörðina nákvæmlega eins og ég tók við henni, en ég hef ekki efni á að gefa meir. Ríkið verður að taka við þeim aðgerðum, sem ég er að láta gera á húsinu, og einnig jarðabótum. Ég hef ekki efni á að gefa fræ og áburð á túnið og í garða, áhöfn jarðarinnar eða verkfæri og þess háttar. En ég gef ríkinu jörðina til forsetabústaðar, ef þið viljið taka við henni eins og ég keypti hana. — Það hvíldu á jörðinni 92 þús. kr., en Sigurður Jónasson rétti ríkinu þessar 92 þús. kr., til þess að ekkert hvíldi á henni. En ríkið keypti áhöfn og vélar o. fl. og borgaði viðgerðarkostnað, sem Sigurður hafði lagt í fyrir 122 þús. kr., og það liggja fyrir hjá forsrh. plögg um hvert einasta atriði þessu viðkomandi. Svo er notaður fyrirspurnatími hér á hæstv. Alþ. til þess að reyna að dreifa því út um landið, að hér hafi mikið svindl átt sér stað.

Viðvíkjandi þessum bréfum, sem hv. þm. S-Þ. er mest að tala um nú. þá liggja fyrir upplýsingar um þau í rn., og þau hafa áður verið lesin upp hér á þingi. — Að öðru leyti ætla ég ekki að svara hv. þm. S-Þ. Þetta er aðeins einn þáttur í rógburði hans gegn mér, mér dettur ekki í hug að eltast við slíkt og álít, að ég standi jafnréttur fyrir því. Það hefur rækilega verið gerð grein fyrir þessum bréfum. þegar um þau var spurt.

Ég vil leyfa mér að skora á hæstv. forsrh. –og ég veit, að hann verður við þeirri áskorun — að birta bréfin og það næsta dag. Það gæti kannske orðið til þess að opna augu manna fyrir því á Alþ. og utan þings, til hvers þessi fyrirspurnatími er orðinn notaður, þegar menn sjá þessi bréf. Mér dettur ekki í hug að væna hæstv. forsrh. um þann ódrengskap að neita að birta bréfin. Ég skora á hann í viðurvist þings og þjóðar að birta bréfin, ekki mín vegna, heldur til þess að það komi fram, til hvers hv. þm. S-Þ. ber fram þessar fyrirspurnir og til hvers fyrirspurnatíminn er notaður á Alþ.