04.03.1948
Neðri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

55. mál, brunavarnir og brunamál

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. allshn. fyrir það að koma þessu máli áleiðis, og ég tel vera mikinn feng að fá þessa löggjöf, því að margir þættir fyrri löggjafar um brunavarnir og brunamál eru fyrir löngu úreltir. Ég tek það fram, að gert er ráð fyrir því í 51. gr. frv. þessa, að rn. geti sett reglugerð með nánari fyrirmælum og ákvæðum en l. þessara, ef það telur þess vera þörf. Það var rétt hjá hv. frsm., að nauðsynlegt er að setja strangar reglur um brunavarnir við skóla og á öðrum stöðum, þar sem margt fólk býr, að mönnum verði gefnar leiðbeiningar um, hvernig beri að haga sér, ef eldsvoða ber að höndum. Það gæti komið til mála að ráða sérstakan mann til þess að semja leiðbeiningar í þessum efnum til leiðbeiningar fólki. Ég gæti t.d. trúað því, að Erlendur Halldórsson í Hafnarfirði væri líklegur maður til þess að varpa fram algildum reglum, sem kæmu að gagni í skólum og í stórum húsum, þar sem margir íbúar eru. Erlendur er mjög duglegur og hugkvæmur maður, og mundi hann áreiðanlega verða að miklu liði í slíku starfi.

Um breyt. þær, sem hv. n. hefur gert á frv. vil ég segja það, að ég hef ekkert við þær að athuga, og ég sé ekki, að það sé neinn skaði fyrir frv., þó að þær verði samþ. Aðalbreyt. n. er sú að undanskilja Reykjavíkurbæ frá l. Hin brtt. n. um að breyta fyrirsögn frv. er réttmæt. Þriðju brtt. n. við 31. gr. frv., eins og segir á n. 402, tel ég vera til bóta. En varðandi aðalbrtt. n., um að undanskilja Reykjavíkurbæ ákvæðum þessara l., þá mun sú breyt. fram komin vegna þess, að bæjarráð Rvíkur hefur eindregið óskað hennar, og læt ég hana í léttu rúmi liggja. Því er og svo varið, að í l. um brunavarnir í Rvík frá 1945 er hluti, sem er samhljóða einum kafla þessa frv., og ég sé ekki annað en eðlilegt geti talizt, að þau lög gildi áfram, og frekar vegna þess, hve nýleg þau eru. Hins vegar eru heildarlög þau um brunavarnir, sem nú gilda, gömul, eða frá 1907, og eru því 40 ára. Þess vegna var full þörf á viðauka við þau l. og að ýmsar endurbætur yrðu á þeim gerðar.

Ég vildi rétt drepa á þetta vegna brtt. þeirra. sem n. hefur látið frá sér fara. Ég hef ekkert við það að athuga, þó að frv. verði samþ. með þessum breyt. Rvík býr við svo að segja ný l. í þessum efnum, en um aðra staði á landinu gildir öðru máli og lagasetning þessi mun úr því bæta.