09.03.1948
Neðri deild: 71. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

127. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég játa, að ég hef misskilið till. hv. 8. þm. Reykv. Ég hélt, að hann ætti við það, að laun greidd í desember ættu að miðast við vísitölu 328 stig, en ekki 326, þar eð margir starfsmenn fengu laun greidd miðað við vísitölu 328. en verkamenn fengu greitt samkv. 326. Það er rangt, að opinberir starfsmenn hafi fengið greidd laun í janúar með 328 stiga vísitölu, heldur fengu þeir laun greidd eftir vísitölu 300 stig. Ég hélt að þessi till. væri sú sama og lögð var fyrir félagsdóm, að verkamenn hefðu fengið laun greidd í desember miðað við vísitölu 326 stig í stað 328 stiga. Það er ekki rétt hjá hv. 8. þm. Reykv., að opinberir starfsmenn og launþegar hafi fengið greidd laun í janúar samkv. vísitölu 328, það fékk enginn laun greidd með hærri vísitölu en 300 stigum. Deilan stendur um það, hvort ákveðinn hópur opinberra starfsmanna og verkamanna hafi í desember fengið hærri laun, sem munaði 2 stigum. Till. er því enn þá fráleitari en ég hugði í fyrstu.